Leita í fréttum mbl.is

Sjósund, barnadóp og biðin langa

Já, já, það tekur á að vera svona heimavinnandi og enginn til að reka á eftir manni með verkefni nema maður sjálfur og svo auðvitað barnabörnin og sonurinn litli sem skorar á mann í Playmó og fleirri áhættuleiki.

Hér hefur tíminn liðið nokkuð hratt og allt það sem ég ætlaði að vera búin að gera áður en Finnbogi kæmi hefur einhvernveginn gleymst eða verið frestað fram á næsta dag, eins og Helgi Pé. söng á sínum tíma. Dásamlegt lag, man reyndar ekki nógu vel textann en hann fjallaði um að horfa á sjálfan sig á barninu sínu. Hér reyni ég að horfa á synina og barnabörnin og velti fyrir mér hvernig þeim muni vegna, með einkennum sínum og persónuleika. Hvað get ég gert til að auðvelda þeim lífið eða byggja þau upp á jákvæðan máta. Halda aga með hvaða hætti, gamla Sjónarhólsaganum eða leyfa þeim að finna sjálfstæðið með Laufeyjarmótununni. Vér mótmælum allir, niður með valdið, sofum þegar við viljum sofa, segjum það sem okkur dettur í hug, sama hvað. Nei, nei, þetta er ekki hægt að setja á blað með góðu móti. Þetta skilja aðeins þeir sem lifðu Grjótó, Selskarð, Tröð, Kópavoginn, Aðalstrætin bæði tvö, Sólvallargötuna og allt sem því fylgdi. Þetta voru ómetanlegir tímar, bæði á Sjónarhól og hjá Ömmu og afa í Grjótó eins og við köllum þau í dag. Blessuð sé minning þeirra allra. Mikið sakna ég nú ömmu Laufeyjar oft og hvað mann langar að vera lítil og kúra hjá Magnúsi afa og hlusta á hann lesa Andrés önd eða drögin um Svörtu skútuna. En nú er maður stór og orðin sjálf amma og lít til baka til þess sem ég hafði og hvað það er sem ég get gefið mínum barnabörnum. Bið góðan Guð að leiða mig í þeim efnum.

En ekki var það nú þetta sem ég ætlaði að setja niður á blað, en hugurinn fer af stað og fingurnir fylgja með. Heldur var það að segja ykkur frá sjósundinu okkar JJ. Veðrið var frábært hér á sunnudaginn, þó svo að það eymi lítið eftir af því í dag og í gær. Við byrjuðum á því að keyra til Norðskála í barnadóp. Já, ég sagði barnadóp, en það er barnaskírn, hefðbundin skírn í kirkju með presti og öllu sem því fylgir. Reyndar hringdi Finnur í mig þegar við JJ vorum á leiðinni, en hann var gubbi (guðfaðir) einn af þremur hjá stúlkunni og svo hafði hún líka þrjár gummur (guðmæður), og hann vantaði sárlega fjóra 20 krónu myntpeninga, sem hann varð að hafa við athöfnina. Þeir eru fórn til kirkjunnar, einn pening setti hann á altarið, einn hjá hvorum meðhjálpara fyrir sig, en þeir voru tveir og svo einn á skírnarfontin. Þetta vissi hann ekki fyrr en hann kom á staðinn. Þetta reddaðist og við sátum svo undir messuni hjá prestinum, sem ég skyldi ekki alveg nógu vel, var með hugann við barnabörnin og JJ. Finnur beið á meðan með foreldrunum, gubbunum og gummunum heima hjá foreldrum barnsins, sem var bara í næsta húsi. Svo komu þau þrammandi inn þegar hin hefðbundnu messuverk voru afstaðin í röð eins og fylking með prestin í fararbroddi. Presturin las svo yfir þeim ábyrgð þeirra og skyldur gagnvart barninu, stúlkubarn sem fékk nafnið Silja Sigtórsdóttir, ef lífið hagaði því þannig að foreldrarnir gætu ekki séð því fyrir farborða, kristilegu uppeldi og öðru veraldlegum og sálarlegum nauðsynjum, sem hverju barni er ætlað í siðmenntu samfélagi. Mikil ábyrgð og því dugar ekki minna en sex manns til að axla þá ábyrgð. Mjög umhugsunarvert. Reyndar er þetta annað barnið sem Finnur er gubbi hjá, en eldri systir Silju, Björg, er líka guðdóttir Finns. Sigtór faðir þeirra er mikill vinur Finns og er það mikill heiður og viðurkenning að vera valin til þess að vera guðfaðir. Einnig má nefna það hér að Finnbogi er einn af fjórum gubbum hennar Natösju Finnsdóttur. Hann fékk einnig svipaða ræðu frá prestinum sem skírði hana.

Nú að dópinu loknu, þá brenndum við JJ til Þórshafnar, en Finnur og fjölsk. fóru heim til Sigtórs og Ann og voru þar með nánustu fjölsk.í hádegismat og kökum fram eftir degi. Við JJ duttum hinsvegar inn á veitingastaðinn Hvönn í Sjómannsheimilinu í Þórshöfn og lentum í brunch. Ekki eins flott og á Nordica-Hilton í Rvík. en í áttinu. Og ég þurfti bara að greiða fyrir mig 225,dkr. Ekkert fyrir börn yngri en 12 ára. Frábært. Nú svo var að rölta um höfnina og lítinn garð við dómkirkjuna, njóta góða veðursins og melta allar kræsingarnar. Við lögðum okkur meðal annars á eina af flotbryggjunum í Vágsbotni, JJ að reyna að fanga síli og ég að sóla mig. JJ var reyndar búinn að koma auga á Sodíak bát sem fór með fólk í siglingu gegn greiðslu. Við röltum af stað og hann, af því hann er nú svo til baka og innísér eins og foreldrar hans, hljóp til þeirra og spurði hvort að við gætum komið með, jú jú það var auðsótt gegn 300 dkr hálftíma túr. Jæja, maður getur nú ekki alltaf verið á bremsunni og það kitlaði að fara á þeysireið um höfin blá og veðrið var stórkostlegt. Í kuldagallann, björgunarvesti og ofaní bátinn var hoppað. Svo var þeyst af stað um leið og báturinn komst út fyrir smábátahöfnina. Þetta var frábært, JJ naut sín til ítrasta, en ég var í því að reyna að segja honum til og halda sér almennilega. Við sigldum eins og 007 yfir til Nolseyjar og inní höfnina, þar voru teknar nokkrar O beygjur á fleygi ferð öllum til mikillar ánægju (flestum amk) svo var siglt meðfram eynni, undir klettunum og að stað þar sem er hellir og hellismunnurinn marar við sjólínuna og þegar dragsúgur myndast þá blæs hellirinn út úr sér lofti eins og hvalur með tilheyrandi gusugangi. Alveg magnað fyrirbæri. Svo fórum við aðeins lengra og þar er sjórinn búinn að brjóta sig í gegnum vegginn og er svipað og Drangey, bara ekki eins stórt. Áfram var þeyst um hafið blátt og þvílíkir straumar sem eru þarna á milli eyjanna. Við renndum svo meðfram Straumeynni, (þar sem Þórshöfn er) og sáum golfvöll þeirra færeyjinga og það var fólk að spila. Maður á eftir að kíkja á hann þegar golfsettin koma fram í dagsljósið úr gámnum. Ferðin var sko peninganna virði og við JJ skemmtum okkur dásamlega. Svo ákváðum við að halda extreme dæminu áfram og fórum á ströndina hjá Leynum, þar er rétt við gangnamunnan áður en farið er til Vága, eyjan sem við búum á. Við drifum okkur í sundfötin og niður á strönd og útí sjó. Þvílíkur kuldi. Atlanshafið í allri sinni dýrð beint innaf úthafinu. Það voru ekki tekin mörg sundtök, en ofaní fórum við, allt nema hausinn. Það var svo kalt að maður fékk stingi í lappirnar, svipað og nálardofa og meira að segja í rassinn þar sem fitulagið er nú í nokkuð góðu lagi. Þarna rennur á niður í sjó og JJ fór í hana, sagði að þetta væri eins og að fara í heita pottinn eftir sjóinn og reyndi að veiða silung eða lax með berum höndum. Vildi endilega hafa einhverja krassandi veiðisögu fyrir karl föður sinn, sem hann vissi að myndi sko líka það vel að lenda í þannig ævintýri. Við sulluðum svo þarna á annan tíma og ákváðum svo þegar klukkan var farin að ganga 19.00 að drífa okkur heim. Týndum saman dótið okkar og uppgötvaði sonurinn þá, þessi sem er líkur föður sínum, að skórnir voru einhversstaðar þar sem hann hefði hent þeim af sér þegar hann kom niður í sandinn. HHHMMMM og hvar var það, það var þar sem enginn sjór hafði verið þegar við komum á staðinn, en nú........ hann hljóp sem fætur toguðu þangað sem hann taldi sig hafa skilið þá eftir kom svo sigri hrósandi á móti mér, en eitthvað fannst mér svipurinn vera tvíræður. Mikið rétt, skórnir, með sokkunum inní, höfðu greinilega fengið sinn skerf af sjó og sandi. Lílega hefur einhver góðhjartaður einstaklingur bjargað skónum á þurrt, því annars hefði þeim líklega skolað á land á Íslandi eða Hjaltlandseyjum.

Finnur hringdi svo í okkur þegar við vorum rétt komin ofan í göngin og bauð okkur að koma til Sigtórs og Ann, þar væri nóg að bíta og brenna. Ég sagði honum að þau yrðu þá að taka okkur eins og við værum, nýkomin úr sjónum. Hann taldi að þetta fólk myndi alveg þola það. JJ fannst mikið fjör í því að fara í fötin í bílnum og að móður sín hafði algjörlega fataskipti, sjáið til sundfötin mín voru sko orðin þurr en ég kunni ekki við það að mæta í þeim í skírnarveislu guðdóttur sonar míns. JJ spurðið hvort að það væri vegna sjálfrar mín eða Finns vegna. Við stoppuðum á bak við Statoil og vanir menn eins og ég var ekki í vandræðum með að skipta um föt svo lítið bæri á.

Í veisluna mætti með hefðbundnum hætti eða þannig, JJ skólaus og ég með hárið eins og, já nýkomin úr sjónum. Yndislegt fólk sem tók á móti okkur og borðið sligað af brauði og tertum. Eftir frábærar móttökur og við búin að kýla kviðinn enn og aftur, börnin orðin úrvinda af þreytu, var haldið heim á leið. Ánægð og södd eftir frábæran dag. Ætlum að eiga fleirri svona extreme daga.

Annars hafa dagarnir liðið eins og áður segir, ég hef verið mikið heimavið, passa barnabörnin, þar sem dagmömmurnar eru komnar í sumarfrí og Guðrún vinnur alltaf nokkra daga í viku og stundum um helgar. Finnur á fullu í handboltanum og brjálað að gera í vinnunni, mikið um hátíðir og Ólavsvakan framundan. Var reyndar Víkingahátíð í Götu um helgina og við JJ kíktum og hittum á Hafstein og Úlfar. JJ lét loks verða af því eða öllu heldur ég lét loks undan að hann fengi að kaupa sér hring með rúnaletruðu nafninu sínu á. Núna fékk hann sér nafnið Jóhann en ætlar að fá sér annan hring með Júlíus á þegar hann verður aðeins eldri. JJ hefur enn ekki eignast neina vini hér í nágrenninu og því mikið með mér og reyni ég að standa mig í að gera eitthvað skemmtilegt, annað en að horfa á sjónvarp eða DVD, því það gæti hann gert alla daga, allan daginn, en ég verð gráhærð þegar sjónvarp á í hlut. En það er erfitt að reyna að henda honum út ef það er ekkert til að vera við úti. En það vonandi lagast núna þegar sumarfríin eru að verða búin og fólk að koma heim aftur úr ferðalögum. Hann fer reyndar í sumarbúðir næsta sunnudag og verður í viku. Vonandi kynnist hann einhverjum hér úr nágrenninu þá. Þar verða bara 11 ára krakkar, jafnaldrar hans víðsvegar að.

Svo nú sitjum við hér heima í brjáluðu veðri og bíðum og bíðum og bíðum. Finnbogi átti sem sagt að koma í gærkveldi, mánudagskvöld, en vegna óveðurs þá er hann ekki enn kominn. Þetta má maður búast við, svona vikunni fyrir Ólavsvöku segir Finnur. En Færeyjingar láta ekki veðrið koma sér úr jafnvægi, heldur halda ótrauðir í að undirbúa stærstu skemmtun sumarsins, sem er eingöngu í Þórshöfn. Við JJ erum búin að hlakka mikið til að fá Finnboga til okkar og einhvernveginn er allt á hold þar til hann kemur. Svo þegar maður er búinn að stilla sig inná einhvern tíma, þá lekur úr manni allur vindur þegar það gengur ekki upp. En það þýðir ekki að láta deigan síga, það styttir alltaf upp og því þarf maður bara að gera eitthvað skemmtilegt á meðan við bíðum. Það hvín og syngur í vindinum og öðru hvoru kemur smá sólarglæta í gegnum skýjarþykknið og það er frekar lágskýað sem er afar slæmt fyrir flugið. En hann er komin í loftið og nú segir nýjasta færslan að hann skuli lenda kl. 14.43 að staðartíma, eða er það á staðartíma?? 

Skiptir ekki máli, er farin í sturtu, geri mig klára og huggulega, og syng hástöfum: ÉG ER HÝR OG ÉG ER GÓÐ - FINNBOGI KEMUR HEIM... ÉG ER GLÖÐ OG ÉG ER GÓÐ - FINNBOGI KEMUR HEIM...

Því að heima er þar sem hjartað er, ekki satt. Mitt hjarta og hans.

Guð blessi ykkur öll nær og fjær.


Sundlaugar og sólarsamba

Eins og áður hefur verið getið þá er ekki mikið um sundlaugar hér í Færeyjum. Og þær sem eru, eru ekki uppfullar af heitu og notalegu vatni, hvað þá að hér geti maður valið um heita potta, eftir hitaþörf hvers og eins. Ó nei, hér kostar að hita upp vatnið eins og var heima á síðustu öld, það muna þeir sem eru eldri en tvævetra og muna eftir því þegar farið var í bað einu sinni í viku eða svo. Nú með sundlaugarnar. Við JJ ætlum að leggjast í leiðangur um eyjarnar næstu daga og finna og prófa þær laugar sem til eru á klasanum og veita upplýsingar um þær og gefa einkunn. Þess má geta að við höfum eingöngu farið í sundlaugina í Þórshöfn og þar í hverjum búningsklefa fyrir sig er stærðar gufubað þar sem fólk fer í eftir sund og nær upp hita og þurrkar sér eftir sundið. Nokkuð sniðugt.

Nú auðvitað erum við íslendingarinir komnir með pott í garðinn. Takið eftir ég sagði ekki heitan pott í garðinn, heldur pott. Finnur keypti sér fyrir þó nokkru plastsundlaug á útsölu og ákávðum við að ráðast í að setja hana upp s.l. sunnudag þar sem veðrið var með þvílíkum eindæmum. Sól og steikjandi hiti. Hafist var handa að velja staðinn, mæla út og svo sópa vel undir. Það er semsagt malbikaður garðurinn hjá syni mínum. Já, já, ég veit, draumur margra karlmanna en nálgast guðlast hjá mörgum konum. Hvað um það, þetta hentar vel hérna og rammlega gyrt í kring með hárri netagirðingu. Hér var dagmamma áður fyrr. Aftur að sundlaug okkar íslendinga. Hún er 3,6 m og tekur 5600 lítr. af vatni. Hreinsidælubúnaður fylgir og yfirbreiðsla og hún er blá. (vonandi fer ég að læra það að setja myndir inn fljótlega og þá munu herlegheitin sjást.) Við hófumst handa um kl. 11.00. kl. 14.00 var komið nokkra cm djúpt vatn í pottinn og þannig rjátlaði vatnið í pottinn fram eftir degi, þannig að seinnipart var hægt að fara ofan í og sulla aðeins. En það tók heila 10 klst. að fylla laugina og var því komið kvöld þegar hún varð loksins full og dælubúnaðurinn kominn á sinn stað. En sullað gátum við aðeins í sólinni og sopið hveljur, því ískalt var vatnið sem fór í.

En við erum jú íslendingar og sólin hefur leikið við okkur síðan um helgi. Við JJ höfum farið í laugina á hverjum degi, sullað aðeins og látið okkur hafa það að fara í kaf. En kalt er það. Sólin ein sér um að hita upp vatnið, sem er ryðrautt á lit. Leiðslurnar hérna eru orðnar frekar lélegar og þarf að skipta þeim út. (það bíður eftir Finnboga verkstjóra eins og svo margt annað).

Spurst hefur út um laugin, því tveir guttar komu til Finns og spurðu hann hvort að þeir mættu fara í laugin og var leyfið veitt með því skilyrði að hann eða ég, fullorðnir, værum á staðnum og fylgdumst með. Þeir stóðu við það og biðu lengi vel eftir að við gátum gefið okkur tíma, því að við vorum að moka þá útúr gámnum og leita að grindunum í grillið góða.

Niðurlag þessa pistils er því að það þýðir ekkert að gráta heitu pottana heima á íslandi og sundlauganna allra eða drolli í sturtum, heldur bjarga sér.

Eins og máltækið segir: Hafa skal það sem hendi er næst og hugsa ekki um það sem ekki fæst.    Það segir tengdamamma amk og hún veis sko hvað hún syngur.

Guð blessi ykkur öll nær og fjær


Bollur, súkklaðiálegg og gámurinn

Jæja elskurnar mínar, þið sem voruð orðin úrkula vonar um að heyra frá mér meira eða voruð orðin áhyggjufull um að ég væri sest að í sumarbúðunum getið andað léttar. Ég er komin heim, full gleði og þreytu eftir dvölina í Zarepta.

Bollur, bollur, bollur.... Fyrsta daginn minn á Zarepta var ég í því að taka á móti bollum, skyldi ekkert í þessum bollu mokstri, fólk kom inn að baka til, brosandi út að eyrum og rétti mér poka fulla af bollum. Ekki það að það væri bolludagur hér í Færeyjum, veit reyndar ekki enn hvort að þeir séu með bolludag yfir höfuð hér, en bollur steymdu inn. Ég frétti svo hjá Finni að það hefði spurst út að það væri bollulaust á Zarepta og ný lega (vikudvöl) að hefjast. Þá fór af stað bylgja af sms, hringinum og email sendingum til allra kvenna og karla sem baka bollur (það gera reyndar allir í Færeyjum) og það semsagt skilaði sér, því inn streymdu bollurnar. Hér í Færeyjum leggur þú ekki kaffibrauð á borð nema þar séu meðtaldar heimabakaðar bollur, hvítar n.b. því þeir sem reyna að setja einhverja hollustu í sínar, fengum nokkrar þannig, fá ekki háa einkunn. Þeir eru hreinlega ekki borðaðar og þýðir ekki að leggja á borð, amk. ekki á Zarepta sögðu þær mér í eldhúsinu. 

En starfið hér á Zarepta er alveg meiriháttar og var frábært að fylgjast með krökkunum hérna, reyndar var ég í eldhúsinu frá kl. 08.00 - 23.30 alla daga, fengum einn til tvo tíma í pásu yfir daginn og þá var hann nýttur eftir þörfum. Jóhann Júlíus fílaði sig mjög vel og vissi ég varla af honum. Eina sem ég hafði áhyggjur af var maturinn. Kom mér sífellt á óvart.... Hafragrautur á morgnana, nema hvað, brauð og te. Brauðið var rúgbrauð (eins og maltbrauðið heima) og svo heitar bollur eða fransbrauð....og hvað vildu börnin, nú auðvitað heitt og mjúkt fransbrauð frekar en rúgbrauðið eða heitar bollur og sultu ofaná, minnti mig á afa Magnús, hann hefði fílað að vera hér í fæði og svo var það súkkulaði áleggið, bæði í þunnum plötum og svo heimagert súkkulaði smjör. Þá gekk nú alveg fram af mér. Smjör, kaksó og flórsykur hrært saman, þetta ofaná heitar bollur.... og reyna svo að bjóða þeim eitthvað hollara með, gleymdu því. Ég var eitthvað að reyna að koma því að að hafa bara rúgbrauð einn morgun, en þær sýndu mér það svart á hvítu að börnin borðuðu nánast ekkert annað en þetta, auðvitað ekki ef það var á borðinu..... Jæja, ég var þarna aðkomandi til þjónustu en ekki til að umpóla eldhúsinu, en mikið sem mig klæjaði í fingurnar og munninn. 

Þessar sumarbúðir eru reknar á sjálfboðavinnu fólks og gjöfum, það fann ég vel fyrir þarna og það af hversu mikilli umhyggju fyrir að allt væri í lagi og að nóg væri að bíta og brenna, snerti við hjarta mínu þegar ég fór að átta mig á þessu öllu saman. Þarna kom að fólk og matur í stórum stíl, bollurnar voru bara upphafið, einstaklingur fara út í búð og kaupa inn, brauð, álegg eða bara hvað sem er, í stórum stíl og láta senda til Zarepta. Ungar stúlkur komu færandi hendi með heimabakaðar skúffukökur á kvöldin, því þær vissu hvað féll í kramið með kvöldkaffinu. Einn sjálfboðaliðinn sem var þarna þá vikuna sem ég var, var í því að keyra um eyjarnar og taka saman matargjafir og koma með þeir, þetta er stórt net sem hefur verið staðfast og stækkað s.l. 40 ár og þeir sem dvöldu hér sem börn leggja ekki síst á sig hvort sem er vinna eða sendingar. Ég upplifði það þannig að það hefðu nánast allir Færeyjingar dvalið meira og minna, hvort sem börn eða í fjölskyldudvölunum. Því hér eru líka fjölskylduvikur. Þá koma hjónin með börnin sín og dvelja í viku. Við JJ vorum síðasta sumar með Finni og fam. í eina viku. Vakin á morgnana eins og börnin með harmonikku spili og söng starfsmanna.

Þessu viku sem vorum núna við JJ kynntist ég alveg frábæru fólki og skemmtilegu. Þarna voru tvær Katrínar og einn Pétur sem voru svona í forsvari fyrir matargerðinni (stjórar) eins og þau kölluðu hvort annað. "Hver er stjórinn yfir hafragrautnum" var spurt. "Ta er jeg" hvein þá í 19 ára Pétri. Svo voru nokkrar konur þarna líka ásamt mér, dvöldu reyndar mislengi, en við Ruth, Lis og Margit dvöldum allan tímann. Karen hin danska var svo yfir krökkunum sem voru að uppvarta í matsalnum sjálfum. Læknisfrú harðfullorðin, dönsk, alvarleg doltið, en var alltaf að, allt í rólegheitunum og vildi hafa hlutina huggulega. Svo voru hjónin Ólafur og Kristin yfir uppvaskinu. Hann fyrrum pólitíkus, sjómannasambandsmaður og skrifar æviminningar og afmæliságrip. Mikill vinur Óskars heitins sem var fyrir sjómannasambandinu heima og Hafnfirðings.

Allir höfðu mikla skemmtun af því að kenna mér færeysku, með ýmsum hreimum, ekki sama hvort maður kemur úr eyjunum eða vestra, hvað þá suðureyjum. Sem Vogeyjarbúi þá segir maður Neeí og fer upp á síðasta staf nú Klakksvíkingarnir, sem voru í meirihluta þarna, segja Noj og fara sko ekki upp. Svo voru það öll áhöldin. maður síður matinn í grýtu (potti), pissar í pott (koppur) drekkur kaffi úr koppi (bolla) ber hafragrautinn fram í bolla (skál) svo fer maður inní kamarið (herbergið) leggur sig í sængina (rúmið) breiðir yfir sig dýnuna (sængina) þetta vakti mikla kátínu og í lok vikunnar voru allir í eldhúsinu farnir að leggja sig ofaná dýnuna og undir sængina.

Eitt óhapp þ.e. hjá okkur JJ, átti sér stað á miðvikudeginum, hann var úti á hoppudýnunni og lenti illa ofaná hægri fæti utan við dýnuna. Við vorum mest hrædd um að hann hefði ristarbrotnað og kom Finnur og fór með okkur á slysó í Þórshöfn. Við vorum rétt komin með Færeysku kennitöluna sem betur fer. Jæja, nema hvað að þarna komum við um kl. 21.00 og á móti okkur tók danskur læknir, sem betur fer var Finnur með okkur og túlkaði. Nú drengurinn var sendur í röntgen og þar tók á móti okkur stúlka, nema hvað, myndaði hann í bak og fyrir og dreif sig svo aftur heim. Þarna er ekki mikið um að vera og því er fólk á bakvöktum og kallað til þegar á þarf að halda. Finnur fór og keypti fyrir okkur súkkulaði. kaffi og kakómjólk til að við hefðum eitthvað að bíta og brenna á meðan við biðum eftir öllu því sem þurfti að gera, hann er semsagt heimavanur þarna á bráðamóttökunni og er vanur mikilli bið. En viti menn við þurftum að drekka kaffið á hlaupum svo hratt gekk þetta allt fyrir sig. Við vorum reyndar skömmuð fyrir að dæla í drenginn, eldri hjúkrunarkona kom að okkur að vera að svolgra þessu í okkur á biðstofunni og las okkur Finni pistilinn þar sem hann mætti alls ekki fá neitt fyrir en vissa væri fyrir því að hann þyrfti ekki að fara í aðgerð. (auðvitað) og við skömmuðumst okkur niður í skóna, bæði með töluverða reynsla af þessum hlutum og áttum því að muna þetta. Jæja, tveir kvennlæknar færeyskir fóru svo yfir myndirnar með okkur, frábær tækni í dag, skoðað í tölvu fram og til baka og ekkert brot. Slæm tognun og þá kom þessi elska sem skammaði okkur Finn, vafði fótinn á JJ með þvílíkri alúð og nærgætni, sýndi honum hvernig hann skyldi nota hækjurnar og lá við að hún kyssti hann bless. En fóturinn greri skjótt og var hann farinn að hlaupa um eftir 1 dag á hækjum. Er reyndar alveg rosalega skemmtilegur á litinn, blár, fjólublár, grænn og ekki frá því að gulu bregði fyrir, eins og fallegt litaspjald.

Gámurinn... við erum búin að opna gáminn og taka út grillið og eitthvað af smádóti, eftir því sem kemst inn hjá okkur. Við stefnum að því að vera búin að koma grillinu í lag fyrir næstu helgi, en þá er vesturstefnan, einn af riðlunum í róðrakeppninni sem endar svo á Ólafsvöku sem verður í lok mánaðarins. Vesturstefnan verður hér í Miðvági og koma því gestir til Finns og Guðrúnar og dvelja hérna hjá okkur yfir helgina. Það var sko ekki einfalt að ná grillinu út og kostaði það mikil átök og útsjónarsemi, enda ber búkur frúarinnar þess merki, bæði í auknu litaúrvali á hinum og þessu stöðum og eymsli hér og þar. Þurfti ekki að fara í ræktina þann daginn.

Læt þetta duga að sinni - þarf að sinna smá skipulagsmálum í þvottahúsinu og mála svalirnar. Þess má geta að hér skýn sól og hefur skynið frá því um helgi. Cool

Guð blessi ykkur öll.


Lofa skal mey að morgni og dag að kveldi

Jæja, þá er dagur eitt búinn í sjálfboðavinnunni á Zarepta. "Unga" stúlkan sem hóf störf full orku og gleði kl. 16.00 að staðartíma, situr nú með sára fingur og auma úlnliði og ekki svo ýkja ung lengur. En þetta var gaman, taka til hendinni í að sortera skemmdar kartöflur frá heilum, framreiða kaffi, kvöldmat, sem samanstóð af súpu, te, brauði og áleggi, kvöldkaffi með brauðbollum, magaríni og sultu, skúffurkökur af ýmsum gerðum og ávexti. N.B. kvöldkaffið er frá kl. 22.00 - 22.30, þannig að sykurinntakan er þó nokkur svona rétt fyrir svefninn. Hér eru 16 - 17 ára unglingar þessa vikuna og um 250 manns í það heila.

Það var mjög gaman að reyna að átta sig á skipulaginu hér í dag, ég á semsagt að vera í eldhúsinu, ekki í uppvaskinu, búrinu né frammi í matsal. En hver segir íslenskri konu hvar hún á að vera. Ef ekkert er að gera í eldhúsinu en uppvaskið á floti, þá fer maður náttúrulega í uppvaskið eða hendir fram á borð þegar búið er af borðunum, fer út með ruslið í gáminn, hhmm, það eiga karlmennirnir að gera. Þetta verður spennandi vika, bæði fyrir mig og JJ. Við erum í herbergi með annarri konu og tveimur drengjum 10 og 11 ára. Þeir eru frændur. JJ er að kenna þeim spil sem hann er með, einhverjar orkufígúrur. Hann er ekki feiminn sem betur fer.

Á föstudagskvöldið upplifði ég að vera með ein með öllum mínum afkomendum. Guðrún fór í sumarbústað með vinkonum sínum og Natasja kom til okkar og var hjá okkur um nóttina. Það vel með okkur, komum yngstu börnunum í svefn á skikkanlegum tíma og gláptum svo á sjónvarpið til hálf tvö.

Á föstudaginn fórum við JJ til Þórshafnar og skelltum okkur í sund. Það er í annað skiptið síðan við komum. Ekki að það sé einhver frétt, en maður fer ekki svo oft í sund hér enda ekki mikið um sundhallir. Sundhöllin, innilaug, er með einni 25 m. sundlaug, tveimur barnalaugum og einni dýfingarlaug. Allt ískalt, þ.e. 25 og 27° en það er reyndar ágætt að hafa enga heita potta til að liggja í því maður verður að synda til að halda á sér hita. JJ er orðin ótrúlega flinkur að hoppa af stokkbrettunum, hæsti er 5 metra og hann lætur sig vaða ofan af honum líka. Nú svo var enn önnur nostralgíjan eins og mágarnir kalla það, maður má bara vera í eina klst. ofan í og svo er kallað upp eftir lit á teygjunni, held ég eða skápunum. Við JJ erum reyndar ekki alveg búin að átta okkur á þessu en verðum víst að fara að læra þetta ef við ætlum að stunda sund mikið svo að við verðum ekki sett í straff. Þegar ég var að fara uppúr sá ég litla rauðhærða stúlku í annarri barnalauginni, fannst hún kunnuleg og fór að leita eftir með hverjum hún væri, jú,jú, mikið rétt þarna sá ég annað rauðhærðan koll, örlítið stærri og þar var Natasja hans Finns, með stjúppappa sínum og hálfsystir. Það var mjög gaman að hitta hana þarna. Við náðum svo í hana heim til hennar, en hún býr í Þórshöfn, þegar við vorum búin að útrétta í kaupstaðnum og fór hún með okkur JJ vestureftir.

Svo svona til að upplýsa þá sem bíða spenntir eftir upplýsingum um súrdeigsbrauðið, þá varð úr því þrjú brauð sem barnabörnin mín voru mjög ánægð með og svo var gerð chili sulta í dag áður en við fórum af stað til Zarepta.

Læt þetta duga að sinni og bið Guð að blessa ykkur öll.


"Unga" stúlkan og eldhúsið

Er komin í vinnu - að vísu sjálfboðavinnu í viku og það í eldhúsi. Nema hvað, fór í kaffi á Zarepta sem eru sumarbúðir svipað og Kaldársel, hitti Jón í Skemmunni sem er forstöðumaðurinn og réði mig í sjálfboðavinnu í viku. Byrja á sunnudaginn. Verð í eldhúsinu og Jóhann Júlíus kemur með mér. Við munum búa á staðnum, í herbergi með annarri konu sem er með 10 ára dreng. Þetta verður bara gaman og gott fyrir okkur að æfa okkur í færeyskunni og Jóhann Júlíus hefur þá einhvern til að leika við. Að vísu verða þarna unglingar vikuna sem við verðum þarna, 16 - 17 ára, en það verður bara meira fjör. http://zarepta.fo

Við JJ vorum þarna í fyrrasumar í eina viku með Finni og fjölsk. Þá var fjölskylduvika. Þetta er meiriháttar starfssemi sem fer þarna fram og byggir upp fjölskyldur, unga foreldra og svo auðvitað unga fólkið og börnin. Maður er vakinn með harmonikkuspili og söng, hefur sitt borð í matsalnum og syngur takk fyrir matinn og allt það. Fyrirlestrar og mikill söngur kvölds og morgna. Allt byggt á kristilegum grunni. Hlakka bara til.

Nú sit ég í eldhúsinu í Miðvági og bíð eftir að súrdeigsbrauðið verði fullbakað, veit ekki hvort að það verði tannbrotsbrauð eins og hitt sem ég bakaði um daginn. Grin JJ tók bita af því, hrikalega gott að sjálfsögðu, en losaði svo gjörsamlega um eina barnatönnina að hann gat tekið hana úr nokkrum klukkutímum seinna. Færeyski tannálfur greiddi heilar 50 dkr fyrir hana. Er semsagt í því að finna hina fullkomnu uppskrift af hollustubrauði án hveitis, sykurs og gers.

Við JJ tókum okkur til í gær og sorteruðum flöskur og dósir, ekki einfalt skal ég segja ykkur, því að áfengissalan (rússdrekkasölan) tekur til baka umbúðir af því sem hún selur, bæði gler og dósir, og svo verslanirnar það sem þær selja. Þannig að við þurfum að fara á eina fjóra staði til að skila af okkur dósum og flöskum.  Nema hvað að í rússdrekkasölunni hér í Miðvági hitti ég fyrir afskaplega hjálplegan mann sem tók við því sem honum bar og spurði svo hvort að ég væri mamma hans Finns. Jú, jú. Hann sjálfur væri í stjórn íþróttafélagsins hér í Miðvági og þar væri iðkaður handbolti og þá vantaði svo þjálfara, hvort að ég væri ekki til í að taka það að mér. Finnur hefði bent á mig þegar þeir leituðu til hans. Þetta væri frá sept. - mars. ca. 10 tímar á viku. Happy Hann ætlar að heimsækja mig og Finn og fara betur yfir þetta. Já maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Allavegana verðum við ekki verkefnalaus hjónin, svo mikið er víst.

 


Hugleiðingar um blog

Þegar ég var að vafra um blog.is og sá að blogið mitt var þarna mitt á meðal hæstvirtra blogara landsins áttaði ég mig fyrst á því hversu berskjaldaður maður er þegar maður er að bloga. Var í raun bara að setja upp blogsíðu fyrir ættingja og vini til að geta fylgst með fréttum handan við hafið og hvernig við spjörum okkur hér í útlandinu. Er búin að vera að velta þessu fyrir mér í dag og veit ekki hvort að þetta sé rétti staðurinn að setja inn fréttir af okkur. Þetta er svona meira hugleiðingar dagbók. Eins og þessi sem Gulla hans Bróa gaf mér og sagði mér að ég skyldi skrifa niður hinar ýmsu hugleiðingar, en þær hugleiðingar eru meira fyrir mig eina að sjá og Guð sem allt veit. En blog er líka ágætis hugleiðingardagbók en þá þannig að það eru hugleiðingar sem ég vil gjarnan deila með öðrum. Sbr. þessi hugleiðing mín um blogið. Ég er ekki mikið fyrir það að lesa fréttir og hef ekki verið mikið að lesa blog annarra. Ekki einu sinni hennar Önnu mágkonu minnar sem ég met mikils og þegar ég les pistlana hennar gefa þeir alltaf eitthvað af sér.

Ég þarf kannski ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því hver les blogið því sjálfsagt eru flestir uppteknir af sínu, þannig að þeir sem vilja við mig kannast og fylgjast með, þeir skoða blogið. Aðrir ekki. Held áfram að melta þetta með sjálfri mér og súrdeginu sem er nú á síðustu metrunum og sker úr um hvort að það sé líf í því eða hvort að gerillinn hafi gefist upp. Nú er nefnilega allt komið í deigið og 10 - 14 tíma hefing að hefjast, næstsíðasta hefingin og svo "vola". Það verður spennandi að vakna í fyrramálið. Hef mestar áhyggjur af því að það verði svo mikið líf að það leki út af borðinu, breytist í deigskrímslið ógurlega og éti allt sem að kjafti kemur.

 


Súrdeig, Dáin og auðlindir Íslands

Sem heimavinnandi húsmóðir í fyrsta sinn síðan 1979 þá ber mér að halda uppi merki þessara hetjukvenna sem hafa tekið að sér mikilvægastu atvinnugrein heims, þ.e. að ala önn fyrir börnum sínum og maka. Undirstaða hvers þjóðfélags og nú er ég ekki að grínast, er heimilið, hornsteinn samfélagsins og börnin sem okkur hefur verið falin, framtíð þjóðanna. Þetta er nú samt einhvernveginn ekki það sem byggt er undir né hvatt til af samfélaginu og þykir ekki nógu gott. Fólk hefur hreinilega ekki nægar tekjur til að einn geti verið fyrirvinna heimilisins. Þar er ég engin undantekning enda unnið úti frá því að eldri sonur minn varð eins árs og hef varla stoppað síðan. Helst verið í 2 - 3 vinnum. En það var nú ekki það sem ég ætlaði að skrifa um, heldur súrdeigið sem ég er að gera. Sem fær mig til að velta upp ritningunni þar sem Jesú varar okkur við súrdeigi faríseana? Hef svosem ekki velt því mikið fyrir mér en nú þegar ég sit hér og horfi á skálarnar á borðinu og reyni að setja mig inní ferlið, get ég ekki annað en velt þessu upp. Að gera súrdeigsbrauð tekur nokkra daga nefnilega en ég geri ráð fyrir að súrdeigsbrauðin hafi, og verði vonandi hjá mér, betra heldur en ósúrt brauð. Var Jesú því að vara okkur við því að taka við einhverju gómsætu úr hendi þeirra sem vilja afvegaleiða okkur, kaupa okkur á sitt band með gómsætu brauði. Og enn í dag er þetta notað, börn og fullorðnir eru ginnt út í allskyns ólifnað með beitu af einhverju gómsætu eða loforði um slíkt. En hvað höfum við foreldrarnir ekki gert í gegnum tíðina, ef þú verður góður, klárar matinn þinn, bíður stilltur í bílnum skal ég gefa þér ís, nammi, færð eftirrétt osfrv. Ekki að það er rangt, en fær mann til að hugsa um að kannski er þetta svona einfalt fyrir þá sem eru með illt í huga að ginna börn sem vita að ef þau klára saltfiskinn, sem þeim finnst vondur, fá þau eitthvað gott á eftir?? Þetta þarf ég að melta aðeins betur.

Fór í Dáin í gær með húsbóndanum á heimilinu, Finni. Það er gróðrarstöð og blómabúð í Sandavági sem er næsta sveitafélag. Ákváðum í sameiningu að gera upp eina beðið sem er í litlu sólarskoti hér fyrir utan húsið. Ég fór að róta í beðinu með barnaskólfu að vopni, þar sem engin garðverkfæri eru til á heimilinu, og reif upp njóla og arfa sem voru í meirihluta. Ásamt því sem kallað er Grátt undir steini. Það eru pöddur, líkastar kakkalökkum af því sem ég hef séð, nema þær eru gráar og það er nóg af þeim hér. Var ekki alveg að gera sig hjá frúnni, svo að Finnur fékk lánaða skóflu hjá nágrannanum og hjólbörur og mokaði uppúr beðinu, tókum reyndar þjár plöntur sem við töldum að yrðu vænlegar til brúks í beðinu, settum nýja mold í og frúin tók sig svo til að planta. Stúlkan í Dáin, greinilega mikil garðyrkjubóndi, ráðlagði okkur heilt eftir því sem hún gat eftir lýsingum okkar um beðið og heimilsmeðlimi. Þarf að taka tillit til þess að börnin geta verið aðgangshorð við beðið og að sjálfsögðu dottið í hug að smakka á þessum fallegu jurtum. Fengum dverggullsóp, sem hún kallaði nú eitthvað annað, en við urðum sammála um að þetta væri plantan, tvær aðrar plöntur sem ég kann ekki skil á en líkjast helst birkikvisti, eru þar samt ekki, hann var þarna líka til, og svo sítrónutimían og mintufjallagrasi. Komin vísir að kryddjurtagarði. Wink

Svo er það vatnið. Íslendingar á Íslandi, drekkið vatn og mikið af því á meðan þið hafið besta vatn í heimi og að því sem ég best trúi, endalaust af því. Hér kaupi ég íslenskt vatn á flöskum. Hér þarf að sjóða vatn til drykkjar. Ótrúlegt en satt. Einn daginn varð það mórautt af ryði held ég frekar en mold og var ekki hægt að sjóða það einu sinni. En maðurinn minn sem getur allt, kann allt og veit allt kemur og reddar þessu. Því trúi ég staðfastlega og tek þessu því með stóískri ró á meðan. Jafn mikilli ró og að gera súrdeigið. Á meðan get ég ekki annað en þakkað Guði fyrir allt það góða sem ég hef og hef átt.

Og heita vatnið, njótið þess að fara í langa sturtu, hér er ekkert heitt vatn úr jörðu og olíukynndingar í húsum og verðið á uppleið hér eins og annarsstaðar í heiminum. Við bruðlum ekki með heita vatnið hér, þetta er bara eins og á Reykjavíkurveginum í gamla daga. Gott að ég hlustaði á Geir forsetisráðherra á 17 júní, við eigum jú að draga aðeins úr neyslunni. Það geri ég svo sannarlega.


Mánudagur - stúlkurnar í Færeyjum

"Stúlkan verður við á mánudaginn sem sér um tessi mál, hún er miklu meira inní tessu øllu og getur upplýst tig miklu betur en ég", sagði maðurinn á kommúnuskrifstofu Miðvágs á føstudaginn, tegar ég mætti með flutningspappírana og spurði allskonar spurninga varðandi hvað ég tyrfti að gera meira. LoL Gat ekki annað en hlegið innra með mér. Tað tarf semsagt stúlku í málin hér eins og heima. Tað kenndi mér góður samstarfsmaður úr VÌS að ef koma tyrfti skipulagi á hlutinu tyrfti stúlku í málið og var tetta oft haft yfir bæði í gamni og alvøru. Á mánudagsmorgun var svo stúlkan komin og búin að hringja í Finn og fá giftingardaginn okkar Finnboga tar sem hann vantaði á pappírana og senda allt til Tórshafnar tar sem gengið yrði frá persónnummar fyrir okkur. Svo spurði ég um tómstundanámskeið fyrir JJ en ekkert svoleiðis er í boði hjá kommúninni, en tað væri fótbolti og róður, hún hringdi nokkur símtøl og kannaði málið, en komumst ekki að neinni niðurstøðu annað en tað að hún vissi að tjálfari yngri flokka drengja væri í fríi erlendis og líklega væru engar æfingar á meðan. Vildi allt fyrir okkur gera og bauð okkur velkomin í Miðvág.

Nú svo brennum við JJ til Tórshafnar til að leysa út gáminn. Vonandi hafa teir nóg af stúlkum tar hugsaði ég með mér. Og jú, jú, tað var kølluð til stúlka til að aðstoða mig hjá Skipafélaginu með pappírana tví tetta hafði einhvernveginn snúið øfugt hjá okkur. Fyrst voru pappírarnir skráðir með Finnboga sem sendanda og Finn móttakanda á gámnum. Hann kom til Færeyja 8 maí (gámurinn) og Finnur fór á staðinn tá strax, en neeei. Hann var ekki að flytja til Færeyja og tví mátti hann ekki vera móttakandi, nema tá að borga tolla af innflutningi á notaðri búslóð, sagði konan hjá tollinu, en ekki málið, stúlkan hjá skipafélaginu breytti bara pappírunum tannig að Finnbogi var bæði sendandi og móttakandi og Finnur fór aftur til konunnar hjá Tollinum. En neeei, hann var ekki Finnbogi og tví mátti hann ekki leysa út gáminn. Sem betur fer er Finnur vel kynntur hér í Færeyjum og tekkir marga, tannig að tegar hann var að velta fyrir sér støðunni kom til hans einn starfsmaður skipafélagsins og leysti málið. "Við geymum bara gáminn fyrir tig Finnur minn, tar til mamma tín kemur og leysir út gáminn, tid turfið ekki að borga neitt geymslugjald."Minnir mig á lagið, Hún mamma kemur í bæinn bráðum og borgar skuldina mína..... en ég hef ekki enn hitt "búðarmanninn" til að kyssa hann fyrir liðlegheitin.

Jæja, nema hvað við JJ hittum stúlkuna hjá Skipafélaginu og hún breytti pappírunum eina ferðina enn tannig að Finnbogi var sendnandi og ég móttakandi, konan hans. Tað mátti og tá var að finna gáminn og tollskoða. Tar komu piltur og stúlka, einkennisklædd, ég aðvaraði tau um að opna gámin varlega tví að nokkuð víst væri á að borðplatan af sófaborðinu myndi hrynja út og ryksugan ásamt skúringarskaftinu. Á meðan við biðum eftir starfsmanni skipafélagsins til að vísa okkur á gáminn tókum við tal saman, pilturinn og ég, kom í ljós að hann var hálfur íslendingur, mamma hans var islensk (betri helmingurinn sagði hann sjálfur). Ég sagði honum að ég væri hafnfirðingur tó svo að ég væri að flytja frá Kópavogi. Hann sagði að allt sitt fólk væri í Reykjavík, nema hvað að hann hefði átt ømmubróðir í Hafnarfiði, hefði verið kallaður Einar rakari. ha, hvort ég hefði ekki tekkt hann? Ó jú og son hans Steintór sem byggi í Kópavogi og ætti son sem hefði verið með JJ í bekk. Ekki stór heimur tað. Gámurinn var opnaður og út kom borðplatan og skaftið. Teim féllust hendur að fara að hreyfa eitthvað til í gámnum enda vel pakkað í hólf og gólf. Fékk stimpil og gámurinn verður sóttur á næstu døgum.

Svo var að fara í vinnumálaskrifstofuna og landstýrið, en tað gekk vel, tarf enga pappíra eða vottorð ef ég ætla að sækja um vinnu hér. Ákvað að koma við á íslensku ræðisskrifstofunni og spyrja hvort að við tyrftum að hafa eitthvað sérstakt í huga og hvort að tau vissu eitthvað um sumarnámskeið fyrir børn sem væru að flytja til Færeyja og hefja skólagøngu í ágúst. Hafði heyrt að eitthvað tannig væri haldið í Tórshøfn. Gekk inn í yndislega gamalt og fallegt lítið hús við Tinganes, sama hús og Turid Samro hafði fataverslun fyrir nokkrum árum. Engin var á neðri hæðinni, en niður stigann kom sjálfur Eiður Guðnason, ræðismaður okkar íslendinga hér í Færeyjum, reyndar var hann ekkert glaður á svipinn og bauð okkur ekki einu sinni velkomin, allt í fasi hans gaf til kynna að við værum að trufla. Og auðvitað efldist ég til muna um að spyrja hann spjørunum úr, kynnti mig og var kurteis, hann gaf ekki einu sinni færi á handabandi, en ég hefði getað gengið nærri honum og trifið í spaðann, en hélt mér á mottunni. Bað mig endilega að koma á fimmtudaginn, tá yrði stúlkan komin.  Reyndar hringdi hann fyrir mig í Høgna í Stórustovu tví hann vissi ekki hvar skrifstofan hans er (skrifstofa VÍS í Færeyjum) og lét mig um að tala við hann sjálf. Svo endurtók hann enn og aftur að við skyldum koma aftur seinna tví að stúlkan sem gæti upplýst okkur um alla hluti miklu betur en hann.

Ég gekk út í sólskinið, brosti hringinn, tví allsstaðar eru stúlkur sem sjá um málin. Ég verð ekki í neinum vandræðum með að fá vinnu. Ég get nefnilega líka verið stúlkan ef tannig liggur á mér.

 

 


Bloggið og frúin....

Sæl øll nær og fjær. Tví miður gengur blogið ekki nógu vel, ekki að mig skorti orð eða umræðuefni, heldur er tæknin að fara með mig. Ef thið í tølvudeild VÍS lesið tetta tá megið tið vita að tølvan hefur fengið hótanir en ég reyni að stilla mig thar sem ég hef ekki aðgang að ykkur til að bjarga mér. En hvað um thað, nú skal reyna að klára amk smá fréttir. Best að setja tær inn í smáskømtum, kannski að tað gangi betur.

Upplifði sunnudagsmorgun, eins og heima á Reykjavíkurveginum, nema hvað að hryggurinn var upphitaður frá kvøldinu áður, og sunnudagsmessa í útvarpinu. Við JJ vorum heima með børnin tar sem foreldrarnir voru að heiman. Tengdadóttirin í vinnu og sonurinn með handboltaliðinu í fjallgøngu. Uppbygging á móralska hlutanum, hann spilar með Neistanum úr Tórshøfn næsta vetur.

http://www.neistin.fo/

Nú svo uppgøtvaði frúin kl. 13.40 að staðartíma að hún var enn á náttføtunum, ógreidd og ekki búin að líta einu sinni í spegil, svo mikið var að gera í barnauppeldinu. Gekk erfiðlega að koma hafragrautnum í tau en amma kunni ráð við tví, setti bara cherios ofaná. Ømmur mega nota allskonar svoleiðis trix. Wink

Fórum svo í biltúr til Tórshafnar tegar Guðrún (tengdadóttirin) var búin að vinna, á besta kaffihúsið í Tórshøfn - Café Herborg - semsagt heima hjá mømmu hennar. Enda var amman frá Íslandi algjørlega búin eftir daginn með yndislegu barnabørnin sín. Grin


Allt að komast í fastar skorður í Færeyjum

Jæja þá eru þau mæðgin, Jóhann Júlíus og Sólveig komin á áfangastað.

Ferðin gekk stór-slysalaust þrátt fyrir velting og hálfgerða sjóveiki. ( einhver talaði um að fara aldrei með báti aftur á milli landa)

Þessa dagana er verið að leysa út gáminn úr tolli, fá kennitölu, stofna bankareikninga og færa sig inn í daglegt líf í öðru landi. 

Tölvumálin hjá þeim mæðginum eru ekki enn komin í lag svo Finnbogi fyllir í eyðurnar fram að því. ( vonandi fyrir helgi)

Heimilisfangið okkar í Færeyjum er Húsanesvegur 24 Miðvágur og heimasími 00298333466

Sólveig er með gsm. 00298265561 og e-mail dollabina@internet.is

Kveðja Finnbogi 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sólveig Birgisdóttir
Sólveig Birgisdóttir

Fann gamla bloggið mitt og ákvað að hripa eitthvað inn. Verður framhald..... Það verður framtíðin að leiða í ljós.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

235 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband