Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Þorláksmessa í Færeyjum

Já það var auðvitað skötuveisla í gær, nema hvað. Finnbogi klikkar nú ekki á svoleiðis og að sjálfsögðu heimagerður þrumari og heimsgert hamsatólg. Við buðum nágrönnum okkar í veisluna og "dámaði" þeim þetta bara nokkuð vel. Við vorum líka með þurkkaða grind, sem Finnbogi "veiddi" í frystikistunni hjá Finni, en hann hafði fengið bita af grind fyrir ári síðan og frysti, þar sem hann er ekki mikið fyrir þurrkaða grind, að sjálfsögðu var grindarspik, hákarl og harðfiskur líka á borðum. Það vantaði bara íslenska brennivínið, en við vorum með Bornholms ákavíti í staðinn. Þetta var hin fínasta veisla og var mikið hlegið og spjallað. Svo fóru börnin á næsta bæ, eiginlega hálffullorðin, á þorláksmessurúntinn, en það er siður sem komst á fyrir um 20 árum síðan. Þann 23 kl. 23, fara allir sem vettlingi geta valdið á rúntinn, halarófa af bílum, flautandi og blikkandi ljósum. Við "gamla" fólkið héldum okkur nú heima, en horfðum á herlegheitin ofan úr stofu hjá Finni. Þetta var heilmikil bílalest og gekk mjög hægt. Svo stoppuðu þau á kajanum og slógu upp útiballi. Mér skyldist á dömunum hjá mér í boltanum að þær hefðu verið að til kl. þrjú í nótt. Ég hafði stutta æfingu núna kl. 12 í dag. Ég fór út að hlaupa með þeim og fékk því upplýsingarnar beint í æð.

Þegar ég var að hlaupa út úr húsi þá kom nágranninn og færði okkur skerpukjötslæri, sem er algjört sælgæti og mikil munaðarvara, og sagði að það væri hefð að borða fyrstu bitana af skerpukjötinu í hádeginu á aðfangadag. Við sátum því áðan og fengum okkur skerpukjöt og síld.

Núna ætti ég að vera að ganga frá rúmunum og klára að skúra, en datt þá um tölvuna og ákvað að senda smá pistil. Við eigum von á tengdafólkinu hans Finns. Þau borða hjá okkur hérna niðri og gista í nótt.

Finnbogi er að elda jólamatinn og hefur verið að síðan í morgun, tvær "dúnnur" endur í ofninum, með sinnhvorri fyllingunni auðvitað og Herborg, tengdamamma Finns, ætlar að elda tvær í ofninum hjá Finni, svo að það ætti að verða nægur matur handa okkur 11 sem verða hér í kvöld.

Já það er margt öðruvísi en heima og hér er það sjálfsbjargarviðleitnin og hugmyndaríkið sem gengur. T.d. höfum við ekki gert sjálf heimagerðan ís, amk. ekki í mörg ár né bakað rúgbrauðið ofl. sem við gerum hér og þetta er bara gaman. Finnbogi hefur sjálfur grafið lax og gert sósu sem verður forrétturinn svo verður rommrúsínuís og daimís á boðstólnum á morgun ásamt hangikjötinu. Möndlugrauturinn verður í kvöld að sjálfsögðu.

Jæja nú er mér ekki til setunar boðið lengur og verð að fara að gera eitthvað gagn.

Við óskum ykkur öllum gleði- og gæfuríkrar jóla og áramóta. Guð blessi ykkur öll nær og fjær.


Þrumur og þrumari - Hátíð ljóss og friðar

Í nótt voru þrumur og eldingar - skrítið að við skulum alltaf byrja á að segja þrumur, því að eldingarnar koma fyrst. Jæja, hvað um það, pottasleikir kom sumsé í þrumuveðri í nótt til Færeyja. Jóhann Júlíus og Aron Hans fara samviskusamlega að sofa á tiltölulega kristilegum tíma og reyna að haga sér sem skyldi, svo að þeir fái ekki kartöfu í skóinn. Þeir hafa sloppið hingað til. Cool Í morgun var svo veðrið þokkalegt - á okkar mælikvarða, en veðrið hefur verið mjög rysjótt, ýmist úrhellisrigning og rok, hagél og fljúgandi hálka. Hér er ekki verið að salta neitt mjög mikið, það þiðnar og frystir á svo skömmum tíma. Því miður hafa verið nokkur umferðaróhöpp og slys á fólki, einn látist og nokkri alvarlega slasaðir. Oft fer maður um á 20 km. hraða þó svo að bíllinn okkar sé vel dekkjaður, þá er þetta ekkert grín í brekkunum og beygjunum hér. Sem betur fer þurfum við ekki að fara mikið um við Finnbogi, en Finnur er á ferðinni alla daga, hann er mjög góður bílstjóri og er á góðum bíl.

Nú það var þetta með þrumarann - ég er loksins búin að afreka það að skella rúgbrauði í ofninn í fyrsta sinn algjörlega ein - en auðvitað þurfti ég að hringja í mömmu í tvígang, svona til að fá handleiðslu frá fagmanneskunni. Við erum búin að versla allt inn sem hægt er með fyrirvara og erum tilbúin í að taka á móti jólunum þegar þau skella á okkur - algjörlega að óvörum eins og alltaf. hihi. Meira hvað tíminn líður fljótt, þó svo að maður sé "ekkert" að gera. Hér felst jólaundirbúningurinn aðallega í því að reyna að klára sem mest að því sem hægt er í íbúðinni. Við erum nánast búin að koma okkur fyrir, en það eru alltaf nóg af frágangsverkefnum sem liggja fyrir og hurðarnar fyrir sérsmíðuðu eldhús-, þvottahúsinnréttinguna og skápana eru settur á verkefnalista fyrir næsta ár. Finnbogi gerði sér lítið fyrir og smíðaði innréttingarnar með aðstoð tengdaföður síns, en mamma og pabbi voru hjá okkur í október og voru tekin í vinnu, að sjálfsögðu.

Núna sit ég í stóru borðstofunni minni, búin að koma húsgögnunum fyrir og raða inní skápana, setja upp jólaskraut og læt eins og regnið/élið (getur ekki gert upp við sig) sé jólahreingerning að ofan. Já okkur mannfólkinu veitti nú ekki af stundum. Ég var einmitt að segja Finnboga í gær að jólin væru ekki lengur hátíð ljóss og friðar, heldur hátíð matar, drykkja og verslana. Það gengur allt út á það að hafa nóg að bíta og brenna, fjöldi jólapakka og hafa eitthvað gott að horfa á í sjónvarpinu. Jesús gleymist eða er lagður til hliðar í öllu þessu og virðist ekki skipta svo miklu máli. Og hann sem fæddist og dó fyrir okkur. Ef við virkilega leggjum hugann við textann í Heims um ból í stað þess að syngja hann bara þá má okkur vera ljós boðskapurinn.  

Heims um ból helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.

Það flækist stundum fyrir mér hvað niðurlagið þýðir. Ég fann þessa útskýringu á vísindavef H.Í.:

"Mörgum hefur orðmyndin meinvill í sálminum "Heims um ból" orðið að umhugsunarefni. Þar stendur:
Frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.

Lýsingarorðið meinvillur merkir 'fullkomlega ráðlaus, alveg villtur'. Mein- stendur þarna sem herðandi forliður með villur 'villtur', samanber að fara villur vega 'villast'. Í sálminum er því verið að segja að mannkindin, það er mannkynið, hafi legið fullkomlega ráðlaus í myrkrum. "

Ég held satt að segja þá liggjum við mörg ennþá fullkomlega ráðalaus í myrkrinu, reynum eftir fremsta megni að lýsa upp allt í kringum okkur með kertum og ljósum, ekki að það sé slæmt, síður en svo, ekki síst hjá okkur íbúðum í norðri þar sem sólargangurinn styttist og styttist, ekki miskilja mig. Heldur held ég að það sé miklu mikilvægara að við reynum að nálgast "frumglæði ljóssins", Jesú sjálfan og lýsa okkur upp hið innra. Þá lýsum við nefninlega að innan og út til þeirra sem við erum dagsdaglega með eða hittum á förnum vegi. Við sem búum við svona mikið myrkur, ekki síst á þessum tímum, getum lýst upp eins og Pólstjarnan þegar uppsprettan kemur frá "frelsisins lind". Það er svo mikilvægt hvað við nærum okkur á til anda, sálar og líkama. Við eigum allt í honum, gleði, heilbrigði, geðheilsu og ekki síst frið og ljós hið innra. Ekki láta ljósið sem stendur þér til boða deyja út bara af því að þú ert svo upptekin/n og hefur of mikið að gera, ekki "búin/n að öllu" fyrir jól, leyfðu því frekar að vera loga glatt hið innra og vera uppspretta og gleðin í "öllu" sem þú ætlar að gera fyrir jól.

Guð blessi ykkur öll nær og fjær og gefi ykkur aðventu ljóss og friðar.

 


Á leið í höfuðborgina í jólainnkaup

Hæ þið. Bara að segja að ég er ekki týnd og tröllum gefin og er alveg að komast í jólaskapið. Jólasveinarnir mínir allir eru komnir út í nýlakkaða gluggana og seríur komnar á alla hugsanlega og óhugsandi staði. Færeyingar halda að hér sé búið að opna verslun, svo mikil er dýrðin. Finnbogi er að ýta á eftir mér að fara í klæði. Varð bara að segja að ég hugsa til ykkar og er oft búin að blogga í huganum en ekkert komist á prent.

Guð blessi ykkur nær og fjær. Jólakveðja frá Færeyjum þar sem Geir Ólafs trónir á toppnum með lagi sínu Jólamavurinn kemur í kvöld.  LoL


Höfundur

Sólveig Birgisdóttir
Sólveig Birgisdóttir

Fann gamla bloggið mitt og ákvað að hripa eitthvað inn. Verður framhald..... Það verður framtíðin að leiða í ljós.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

242 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband