Leita í fréttum mbl.is

Ný byrjun - fögur fyrirheit.

Ja hérna hér. Já nú hefi ég heitið því að byrja að nýju að blogga, að hreyfa mig, að setja fleirri myndir inn, að vera duglegri...og svo framvegis. Svona eins og svo mörgum sinnum í upphafi nýs árs. 

Jólin, hjá okkur í kjallaranum voru afspyrnu róleg. Aðfangadagskvöld vorum við bara þrjú í kotinu og borðuðum yndislega andarsteikur, að hætti húsbóndans og tókum svo upp pakka og heyrðum í okkar nánustu. Finnur og fjölskylda var í Þórshöfn hjá tengdafólkinu hans Finns. Jóhanni Júlíusi fannst þetta vera nú frekar dapurlegur aðfangadagur og var lítt hrifinn af öllum mjúku pökkunum, fékk ekki nema eina bók og eitt spil. Sagðist ekki vera orðinn unglingur ennþá og gæti alveg þegið fleirri harða pakka. Já það er erfitt að vera á þessum aldri þar sem maður sveiflast á milli þess að vilja vera unglingur og barn. Jóladag fór frúin gangandi til messu í Miðvágskirkju og fann hversu mikið hún saknaði þess að vera ekki með stórfjölskyldunni og hvað tíminn er fljótur að líða. Og samt í sama mund hvað ég á mikið af yndislegum minningum sem tilheyra jólahaldinu, með fjölskyldunni, kirkjukórnum í Kálfahlíð og Veginum. Ég sat uppi við hliðina á orgelinu og naut þess að hlusta, syngja, gráta og rifja upp, ein með sjálfri mér og Guði. Gekk svo heim í yndislegu veðri og þar beið mín andakássa, húsbóndinn og sonurinn, nývaknaður. Finnur og fjölsk.kom svo um kvöldið og við borðuðum saman íslenskt hangikjöt, annað tvíreykt sem yndisleg kona sendi okkur frá Íslandi.  Við fórum svo í mat til Herborgar og Hans (tengdafor.Finns) á annan í jólum, komum seint heim og sváfum svo lengi. Ég hef setið mikið við prjónaskap um hátíðirnar og svo handboltaæfingar. Mikið etið og lítið um hreyfingu eða útiveru. Einhvernveginn, þá er allt svo mikið í rólegheitum að við drifum ekki mikið. En það má líka, bara vera í rólegheitum, saman litla fjölskyldan. Okkur var svo boðið í hérasteik hjá Jóhönnu í Horni og Allan, Jóhanna vinnur með mér, á þriðja í jólum. Þau búa í Sandavági og röltum við þangað. Hér hefur verið hvít jörð frá því löngu fyrir jól og það þykir til mikilla tíðinda og hefur ekki gerst lengi. Börnin drifu út á sleðana, en nú er búið að þiðna og frjósa svo oft á víxl að það er varla stætt sökum hálku. Finnbog fór á héraveiðar 28-29 des. og skaut sjálfur 1 héra, en fékk 4 í sinn hlut. Fóru siglandi á Slættarnes, sem er hér norðanfyrir á sömu eyju. 

Finnur sótti um að hafa áramótabrennu, þær eru settar upp af einstaklingum hér, ekki félagasamtökum og þarf bara að sækja um og sjá til þess að alls öryggis sé gætt. Að sjálfsögðu var brennan með stærra móti, enda íslendingar á ferð. Við borðuðum kl. 18.00 og svo var kveikt í brennunni hér fyrir ofan okkur kl. 20.00. Nokkrir nágrannar komu og var nokkrum flugeldum skotið upp og svo var velst um í snjónum með börnin, heimsmálin rædd og huggað sér með öl og snafs. Ártalið 2010 var svo tendrað í hlíðinni hinumegin við voginn og eldur kveiktur upp í áldósum eftir öllum aðalgötunum hér í Miðvági og út í Sandavág. Það er stórkostlega fallegt í frosti og snjó. Það kemur mikill Akureyrarfílingur í mig þegar ég sé ártalið, það breytist reyndar ekki eins og fyrir norðan, enda ekki mikið um skíðafæri hér. Við vorum svo fyrir utan hjá nágrannanum um miðnætti og var skotið upp eins og okkur einum er lagið, en það er ekki mikið um flugelda hér í Færeyjum. Þegar búið var að skála og skjóta upp, var boðið inn til Unu, nágranna okkar, í ræsta súpu. Þeir kunna sko að halda manni gangandi þessir færeyingar, kraftmikil kjötsúpa. Ég var svo södd að ég vakanði upp um morguninn, enn södd eftir súpuna. Nýársdagur verður í minni hafður sökum leti. Hann á að tákna upphaf af "rörsluári" okkar fjölskyldunnar í neðra. hihi. Rörsla er sumsé hreyfing. Vorum að taka út letina fyrirfram.  2.jan komu svo tengdafólkið hans Finns í mat til okkar og voru 3 lambalæri á boðstólnum, eitt eldað í 24 tíma. Þvílíkt lostæti. 

Ég fór svo í kirkju í morgun í Livdini í Havn. Það var frábært. Held að ég hafi loksins fundið minn stað, kirkjulega hér í Færeyjum. Ætla alla vegana að prófa að fara aftur. Hef verið í miklu andlegu og sönglegu svelti og finn hvað það hefur mikið að segja á alla mína líðan. Handboltinn hefur tekið mikinn tíma frá því ég flutti til Færeyja og hef ég stundum velt því fyrir mér hvort að það sé minn rétti vettfangur. Hef reyndar verið í vetur aðstoðarþjálfari hjá Neistakonanum í Havn, með þjálfara frá Rúmeníu, sem hefur verið hér í 11 ár. Okkur semur mjög vel, en það hefur gengið misvel með stúlkurnar. Nú er þriðji þjálfarinn kominn í spilið svo það er ekki gott að segja hvað nýtt ár ber í skauti sér. Við höfum haft æfingar nú um hátíðarnar en mætingarnar ekki alveg eftir væntingum og enn óljóst hvernig við komum til með að skipta með okkur verkum. Hvað sem verður þá hef ég kynnst fullt af skemmtilegu og góðu fólki. Ein í liðinu er frá Litháen og er ég á fullu að prjóna handa henni íslenska lopapeysu, með lundamynstri sem hún sá á netinu. Ég hef nefnilega notað lopapeysurnar óspart á æfingunum. Við eigum nokkrar saman ég og Finnbogi. hihi. Allar hans eru mínar og allar mínar eru mínar. Hún var svo hrifin og spurði hvort að ég gæti útvegað sér þessa lundapeysu. Sagði henni að það væri nú lítið mál að prjóna eina lopapeysu, en munstrið fann ég hvergi og varð því að pikka það upp eftir myndinni. Vona að það gangi upp, er að verða hálfnuð með munsturbekkinn og hann lofar góðu.  

Jæja, þá er mál að linni, að sinni.

Góð vinkona mín frá Íslandi, hún Guðlaug Tómasdóttir, setti inná fésið nú um daginn spakmæli frá Thomasi hinum sænska: It's not a shame to fall, but it is a shame not to get up again". 

Með þessum orðum ætla ég að kveðja að sinni, standa upp og halda á vit nýrra ævintýra á nýju ári, ný byrjun með sama meistara. Guð blessi ykkur öll nær og fjær. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Óskars

innlitskvitt

Sigrún Óskars, 3.1.2010 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sólveig Birgisdóttir
Sólveig Birgisdóttir

Fann gamla bloggið mitt og ákvað að hripa eitthvað inn. Verður framhald..... Það verður framtíðin að leiða í ljós.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

249 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband