Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Enga gamla bíla til Færeyja takk fyrir

Verð barasta að segja ykkur frá einum af þessum ógleymanlegum stundum þegar maðurinn minn verður kjaftstopp, gjörsamlega hneykslaður og misboðið, allt á sömu stundinni.

Þannig var það að ég fór eins og lýðnum er ljóst, með Norrænu siglandi frá Seyðisfirði til Færeyja, eftir að hafa ekið yfir hálft Ísland í fylgd foreldra minna og áleiðis af manninum mínum, legið meiri hlutann af sjóferðinni í koju, frekar heilsulítil og lítt spennandi félagsskapur fyrir son minn, sem undi sér hið besta um borð og kom svo til Þórshafnar óguðlega snemma á föstudagsmorgni og heilsaði tollverði með því blíðasta brosi sem ég átti til þá stundina. Hann ætlaði nú barasta að hleypa okkur beint í gegn, en þegar hann sá tjaldvagninn góða, aftan í þá stoppaði hann mig og spurði hvort að ég ætlaði svo áfram til Noregs seinna með ferjunni. Ó nei ekki aldeilis ég væri sko að flytja til Færeyja, svaraði ég á minni nýbökuðu færeysku. Hann horfði á mig, svo á bílinn og svo á tjaldvagninn. Spurði hvort að ég ætlaði að vera með bílinn í Færeyjum? Jú, jú, mikil ósköp, ég ætlaði mér að eiga drossíuna áfram. Þá þyrfti ég að umskrá hann, það vissi ég nú og sagði honum að það stæði einmitt til. Þá leit hann á tjaldvagninn og spurði hvað þetta væri? ÉG var í alvöru að hugsa um að móðgast, en ákvað að skella fram smá húmör, á færeysku náttúrulega og sagði að þetta væri nú gamli tjaldvagninn minn, hvort ekki væri hægt að notast við tjaldvagna í færeyjum og ferðast aðeins um eyjarnar? Veit ekki alveg hvort að hann skyldi mig, en ákvað amk. að veifa bara til mín og bauð mig velkomna.

Nú vagninn hefur enn ekki verið notaður, nema ég náði í úr honum eitt og annað góss, m.a. íslenskan lakkrís, nokkur kíló og svo plastglös til að hafa þegar við erum að hugga okkur hér utan við húsið í hitanum. Bílinn hefur hinsvegar verið fullnýttur og við farið mikið, sérlega eftir að Finnbogi kom og fjárfest var í kerru til að aka í aðföng í smíðina. Reyndar höfum við ekki greitt nein gangnagjöld enn, þar sem við ætluðum okkur að kaupa þau í magninnkaupum eftir að við værum komin á færeysk númer og búin að umskrá bílinn í landið. Finnur sagði nefnilega að þeir nenntu ekki að eltast við erlenda aðila en það er nú verulega farið að hitna undir mér, finnst mér, í hvert skipti sem ég ek í gegnum gjaldandi gögnin. Þau eru tvenn hér í Færeyjum, ein frá Vogeynni, þar sem við búum og svo hin til Klaksvíkur, þangað höfum við farið í tvígang.

En aftur að bílnum og umskráningunni. Við megum sumsé aka á íslenskum (erlendum) númerum í allt að 3 mánuði hér í Færeyjum, þegar maður er að flytja til landsins, en eftir það þá ber manni að umskrá bílinn ellegar eiga hættu á að klippt verði af honum og númerin eyðilögð. Nema maður hreinlega sendi hann heim aftur. Við fórum af stað hjónin í Akstofuna og fékk þar upplýsingar hvernig ég bæri mig að, fékk eyðublað til að fara með, að ég hélt, til tollstofunnar og svo til bílasala þar sem ég hafði ekki handbæra pappírana yfir kaupin á bílnum á sínum tíma. Þyrfti að fá verðið á bílnum, virðismat og listaprísur. Hélt nú að ég hafi skilið þetta allt vel, fékk tíma í endurkomu, eða öllu heldur skoðun á bílnum eða þegar umskrá þyfti bílinn hjá stúlkunni og fór mína leið. Nokkrum dögum síðar þá fórum við hjónin af stað á bílasöluna og þar aðstoðaði okkur bílasali, einkar vinalegur, frekar afslappaður, enda fyrsti morgun eftir Ólafsvöku. Síðan fórum við á tollskrifstofuna en þá var ekki opið þar nema á milli kl. 10 - 12 alla daga, þar sem sumarfríin væru í gangi. Sæi þetta ganga heima. Jæja, við gerðum okkur ferð bara nokkrum dögum seinna, þetta þarf að sækja allt til Þórshafnar og því fer maður ekki nema maður eigi nokkur erindi. Mætti á svæðið með alla pappíra til að vera nú alveg klár hjá tollinum. Þar hitti ég fyrir elskulega konu sem leiðbeindi mér ítarlega og jú jú, ég væri búin að eiga bílinn í 2 ár og sjálf búa á íslandi í 3 ár, þannig að gagnvart þeim, þá væri þetta bara flytjigóss og þyrfti ekki að tolla neitt. En hún sagði mér að ég skyldi áður en ég gerði nokkuð annað, kanna hjá akstofunni hvað það kostaði að umskrá bílinn inní landið. Hún lagði mikinn þunga á þetta því að lögin hefðu breyst 1 júní s.l. og ég skyldi vera alveg viss um að ég vildi borga það sem akstofan setti upp áður en ég tæki ákvörðun um að skrá hann í landið. Við hjónin brunuðum upp á akstofu, þó svo að við ættum ekki tíma fyrr en í vikunni á eftir, ég með alla pappíra, verðmatið á bílnum og allt.

Þá kom þetta móment sem kemur svo örsjaldan fyrir með manninn minn. Konan tók við pappírunum, frekar stíf til brosins, eftir að ég hafi útskýrt fyrir henni að ég ætti ekki tíma fyrr en seinna, vildi bara vita hvort að ég væri ekki komin með alla pappíra sem við þyrfti að éta og hvað það myndi nú kosta mig að umskrá bílinn.

Í fyrsta lagi, var ég ekki með réttan pappír frá bílasalanum. Hún vildi fá núvirði á nýjum samskonar bíl og ég ætti. Það væri listaprísurinn. Nú, ég hélt að ég væri að flytja minn 11 ára gamla bíl inn Toyota Rav með FH merkinu inn, en ekki nýjan bíl.

Í öðru lagi þá gat hún sjálf flett upp listaprísnum, á einhverri heimasíðu hjá bílasölu Toyota. Hhhmmm, veit þá ekki alveg afhverju ég var að snúast þetta þá. En jæja, svo fór hún að reikna.

Minn bíll var verðmetinn á 40.000,- dkr af bílasalanum yndislega og gjaldið sem greiða þyrfti fyrir að umskrá bílinn til Færeyja er dkr. 50.000,-. Ég fór að hlæja og hélt að þetta væri nú bara einhver vitleysa en Finnbogi varð sumsé, kjaftstopp, forhneysklaður og misboðið allt í senn. Sem betur fer kom Finnur akkúrat að á þessu andartaki og ég horfði á hann í algjöru hláturskasti og spurði hvað er konan eiginlega að segja. Hann fór yfir þetta með henni og jú jú, þetta kostar að flytja inn árgerð ´97 Toyota Rav4 ekin 200þús km.  Ég leit á konuna og hún sagðist bara vinna þarna og það þýddi ekkert að skammast í sér, en ég hló bara og sagði að hún hlyti að sjá það að ég myndi aldrei fara að umskrá bílinn í landið, þá væri ég kúkú, og undirstrikaði það með alþjóðlegri handahreyfinu við gagnaugað. Sagði að ég myndi að sjálfsögðu senda bílinn bara heim aftur. Henn var ekki skemmt og ekki Finnboga heldur, þar var einnig staddur hinn bílasalinn á bílasölunni sem við fórum til og hann hikstaði nú aðeins á þessu öllu saman. Við fengum svo hvort sitt eintakið af nýju lögunum sem er uppá nokkrar síður og við gætum lesið okkur til um þetta þar. Þar með var hennar afgreiðslu lokið.

Ég hlæjandi og Finnbogi og Finnur yfirhneykslaðir. Finnbogi tilbúinn að fara heim aftur með norrænu, fulla af varningi til að selja heima uppí kostnaðinn af þessari vitleysu. Ég bauð honum að koma með mér í kaffi til að reyna að ná honum aðeins niður til Hans, tengdaföður Finns, en hann er með verslun þarna rétt hjá. Ekki var það til að bæta ástandið, því hann trúði ekki þessari vitleysu og fór í það að hringja út um allar trissur, í þingmanninn PM og stjórann í Akstofunni hann Jákúb, hann svaraði reyndar ekki símanum og þá snaraðist hann út úr búðinni, sagði okkur að gæta hennar á meðan, þetta gæti bara ekki verið, hann ætlað að hitta á stjórann sjálfann. Kom svo til baka með þá vitneskju að þetta væri rétt. Þá fór hann aftur í símann og nú í Samskip því að þeir myndu koma bílnum heim á skikkanlegum prís, hann myndi sjá um það.

Svo nú nýtum við bílinn til hins ýtrasta á meðan við höfum til þess heimildir, en við þurfum að flytja hann úr landi eigi síðar en 19 september. Annars koma þeir með klippurnar.

Færeyjingar vilja enga gamla bíla til landsins, nóg er af þeim fyrir. Takk fyrir.

Guð blessi ykkur nær og fjær og munið að það borgar sig ekki alltaf að gera hlutina vel í tíma.


THE EAGEL HAS LANDED - Ólafsvakan 2008

Ó já, hann er sko lentur. Tók að vísu smá tíma þar sem það var ófært á mánudeginum, en svo gat flugstjórinn lent eftir að hafa hringsólað í um 30 mín yfir Færeyjum á þriðjudeginum, skellti sér svo niður á milli hryðja og þokuslæðings, svo var ekkert flogið fyrr en á fimmtudeginum á eftir. En Finnbogi minn komst á leiðarenda og var ekki fyrr komin inn um dyrnar þegar allt fór á hvolf. Það var farið í gáminn, kannað hvað væri komið inn og staðan tekin. Hún var tekin fljótt og ákveðið. Inn skyldi hjónarúmið "hans" kommóður fyrir fötin, borðstofusettið, kassar og ýmislegt fleirra sem þyrfti að losa úr gámnum svo hann kæmist í verkfærin. Þau voru nefnilega innst. Tölvusambandið lagað, þannig að nú er ég með þráðlausa tengingu niðri í svefnherberginu okkar. Jóhann Júlíus komin í sér herbergi með tveimur rúmum, þar verður gestaherbergi í framtíðinni.

Ekki nóg að þetta færi inn, því að hvar ætti það að vera. Jú, það var ekki mál, aflóga sólarbekkur var í einu herberginu niðri og sturta, hér var sem sé einnig rekin sólbaðsstofa og einn bekkurinn skilinn eftir. Engin léttavara og ekkert einfalt að taka hann í sundur og koma honum út. En það vafðist ekki fyrir Finnboga, frekar en margt annað. Hann sá í hendi sér að þarna væri eldhúsið hans komið, þ.e. bráðabirgðaeldhúsið, þar sem hann gæti fengdið sér kaffisopa, morgunmat og svona eitt og annað án þess að trufla þau á efri hæðinni. Lítill ísskápur var einnig skilinn eftir og hann var tekin til handabrúks og auðvitað smíðaði snillingurinn hillu svo hægt væri að hafa þvottabala til brúks til uppvasks.  Grillið góða var endanlega komið saman, svo að hægt væri að elda á því og nú er frystiskápurinn kominn inn, búið að sótthreinsa eftir ferðalagið.

"Eldhúsið" okkar, er alveg meiriháttar, þetta er svona kotbúskapur og allt gert í rólegheitum, þar sem ekki er um mikið rými né tæki. En þó, Senso kaffivélin, hraðsuðuketillinn, ísskápur, brauvél, örbylgjuofn, kryddhillur komnar á veggina, stór spegill, sem var þar fyrir, vel uppraðaðir kassar við einn vegg og stór gluggi á öðrum, sturta sem er komin með hillu og þó nokkuð af krókum og skrúfum til að hengja eitt og annað, því þarna eru bæði burstaðar tennur og bollar þvegnir. Við notumst við sparihnífaparasettið (það kom upp úr einni kommóðunni) og pappadiskar notaðir oftast og plastglös á meðan birgðir endanst. Reyndar tók ég upp könnur sem voru ofarlega og svo hefur eitt og annað týnst uppúr kössunum góðu, enda voru þeir vel merktir og gott að sjá hvað í þeim felst.

Eina sem ég hef áhyggjur af núna er að það verður bara klárað að gera baðherbergið og herbergi fyrir JJ. Finnbogi er semsagt búinn að koma sér upp þvílíkri flottri vinnuaðstoðu, má segja hálfgert verkstæði, smíðaði sér vinnuborð og kominn inn með allskonar vélar sem ég vissi ekki einu sinni að væru til, enda sum beint úr kassanum. Það er svæðið þar sem eldhúsið, stofa og borðstofa eru hugsuð. Reyndar erum við ekki enn komin með endanlegar teikningar. Við leggjum aðaláhersluna á að klára baðið og herbergið fyrir JJ. Það gengur vel, en það þarf að gera alveg frá grunni, klæða og einangra veggi, loft og gólf og gera eitt hurðargat, ásamt öllu öðru sem þarf að gera. Nú sit ég og bíð eftir að hann komi með meira efni úr Þórshöfn svo að hægt sé að halda áfram.

JJ er í sumarbúðunum og búinn að vera í bráðum viku. Kemur heim á morgun. Það verður gaman. Við tókum okkur frí frá smíðavinnunni og fórum á Ólafsvöku. Fengum lánað hús hjá vinafólki okkar og hugguðum okkar bara tvö frá sunnudegi fram á miðvikudag. Það var mjög gaman og mikið líf og fjör á Ólafsvökunni. En aðallega vorum við að njóta þess að vera saman, Finnbogi dekraði við mig í mat og drykk og svo gengum við um allan bæ hönd í hönd, bæði í sól og svo svartri þoku. Veit ekki hvort var skemmtilegra. Held þokan, því þá gengum við um dal eftir göngustíg sem við höfðum aldrei gengið áður, ofan úr Hoyvík frá Kobba Jóns, hanboltamanni, niður í bær, þau hjónin buðu okkur í skerpukjöt og tvíreykt hangikjöt á mánudagskvöldinu. Reyndar fékk ég þvílíkar harðsperrur og blöðrur undir ilina. Þetta var alveg kyngimagnað að ganga svona í svartri þokunni, sáum ekki nema 2 metra frá okkur. Við hittum mikið af skemmtilegu fólki á Ólafsvökunni og finnst færeyjingum það mjög áhugavert að við íslendingarnir skulum vera flutt til Færeyja. Við reynum að tala eins mikla færeysku og við höfum getu til. Það er oft spaugilegt, því maður er kannski að nota einhver orð sem þýða eitthvað allt annað og þá kemur svona einhver svipur á fólk. M.a. sem við hittum á Ólafsvökunni og tókum tal af var gamall harmonikkuleikari sem gaf okkur upp nafn á harmonikkukennara og svo ungan bónda á Mykjunesi. Hann bauð okkur Finnboga að koma og veiða hvenær sem væri. Held að hann hafi samt aðallega að bjóða Finnboga, sérstaklega þegar ég fór að ræða hvað það væri hættulegt og erfitt að komast í Mykjunes. Auðvitað hittum við líka mikið af íslendingum, mikið fjör og mikið gaman. Ég var nú alvega rosalega stolt að fylgjast með syni mínum Finni Hanssyni, þar sem hann var ásamt íslenska hestinum í skrúðgöngunni við setningarathöfnina á Ólafsvökuna. Það kom upp í mér mikill íslendingur þá, klædd í íslenska lopapeysu í fánalitunum, hönnuð af Öldu frænku, gefin mér af Grétu frænku og með íslenskt og færeyskt fánabarmmerki í kraganum. Og núna er ég búin að gráta úr mér augun, hrærð og stolt að hlusta á setniningarathöfn Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetaembættið. Ekki að Ólafur komi mér til að vökna mikið um augun heldur söngurinn og athöfnin sem slík. Svona er ég nú bara gerð. Hef ekkert lagast og mun sjálfsagt ekki gera. Segi líka alltaf að ég sé í ætt við Jónu frænku á Hamrinum og "it´s my party and I cry if I want to". Þetta er ríkjandi þáttur í föðurfjölskyldunni að vökna um augun af stolti og eiga erfitt um mál sérstaklega þegar hjartansmál eru annarsvegar. Og það er bara gott, þetta er gjöf frá Guði og hana skal maður ekki fyrirverða sig á.

Er að velja inn myndir til að setja inn, þar verður eitt og annað skýrt í myndum og stuttu máli þegar tökin á tækninni verða fullnuma.

Guð blessi ykkur öll nær og fjær.


Höfundur

Sólveig Birgisdóttir
Sólveig Birgisdóttir

Fann gamla bloggið mitt og ákvað að hripa eitthvað inn. Verður framhald..... Það verður framtíðin að leiða í ljós.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

270 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband