Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
7.9.2008 | 09:18
Skóli og handbolti
Jóhann Júlíus byrjaði í skólanum ásamt móður sinni þann 18 ágúst s.l. Já, móðir hans fékk að fylgja honum fyrstu dagana, en það var alveg tekið skýrt fram að það var ekki til að hjálpa honum heldur til þess að móðirin væri inní námsefninu og fengi þær upplýsingar sem þyrfti til að geta aðstoðað með heimanámið. Við mættum sumsé þarna fyrsta daginn saman og hann var fljótur að láta sig hverfa inní hópinn en ég hitti einn pabba sem er nágranni okkar. Svo var hringt inn og öll börnin þustu inn í stóran sal og röðuðu sér þar eftir bekkjum. JJ fann sinn bekk og stillti sér upp næst fremst. Er svo mikið til baka þessi elska....
Þar hélt skólastjórinn þessa fínu ræðu yfir börnunum, minnti þau á að taka vel á móti nýjum nemendum og nefndi einnig þá sem voru farnir í lengri og skemmri tíma. Þetta er ekki stór skóli og mjög heimilislegur. Þarna eru 5 - 10 bekkir frá Miðvági og Sandavági. Það var líka sunginn sálmur og farið með Faðir vorið. Þetta var mjög sérstakt og fallegt og gladdi mitt hjarta. Kennararnir tóku svo við sínum bekk og fóru með þau inn í sína stofu. Ég trammaði á eftir bekknum eftir að hafa kynnt mig fyrir kennaranum henni Jónley. JJ settist aftast við hliðina á dreng sem heitir Benjamín og ég setti mig við hliðina á stúlku sem heitir Sóley og er nágranni okkar. Mér líst ljómandi vel á kennarann og bekkinn, sem er vel lifandi og það er greinilegt að hún var vel inní heimilisaðstæðum hjá hverjum og einum og hefur verið með þau lengi, þau voru líka ófeimin við að segja henni frá hvað þau hefðu gert í sumarfríinu sínu. Svo komu inn þeir kennarar sem voru með önnur fög og allir tóku vel á móti okkur íslendingunum. Reyndar var dönskukennarinn hálf hvumsa þegar ég sagði henni að hann hefði ekki neinn grunn í dönsku, en þetta er þriðji veturinn hjá þeim hér í færeyjum í dönsku. Jæja, eitthvað myndum við nú finna út úr því og það hefur gengið alveg ótrúlega vel. JJ er mjög fljótur að læra tungumál og þau liggja vel fyrir honum.
Nú ég mætti með honum þrjá morgna og þá fannst honum þetta vera orðið nokkuð gott hjá mér og mér líka. Nú yrði að sleppa spottanum og hann að bjarga sér sem hann hefur gert. Það þarf nú samt að fylgja honum vel eftir með að gleyma ekki bókunum, annað hvort heima eða í skólanum. Það hefur ekkert breyst. Hann er bara 5 mín. að lappa í skólann og er það mikill kostur. Við höfum reynt að finna út með harmonikkunám fyrir hann, en það gengur ekki eins vel. Það er annað hvort að fara til Þórshafnar eða kvöldskóli. En við finnum út úr því eins og öllu öðru.
Og svo er það handboltinn hjá frúnni. Hún er orðin starfandi handknattleiksþjálfari hjá S.Í.F., 1 deild kvinnum. Það er svo önnur deild fyrir ofan sem heitir Sunset Það hefur gengið alveg ótrúlega vel, nema hvað að undirrituð hef verið á fullu með þeim í æfingunum sem ég hef sett fyrir þær og svo eru þær svo fáar að þegar við skiptum í lið og spilum handbolta hef ég verið með líka. Og það tekur á skal ég segja ykkur. Eiginlega ekki þegar ég er að gera æfingarnar eða spila handbolta, því þá gleymi ég mér og keppnisskapið er gjörsamlega með yfirhöndina. Það er þegar ég kem heim og daginn eftir. Þá man ég eftir því að ég er að verða 47 ára en þær eru frá 16 - 27 ára. Svo koma þessar eldri, sem ég veit ekki enn hvað eru gamlar, og æfa með okkur einu sinni í viku. Þær eru skráðar í 2 deild með lið. Þær byrja í næstu viku að æfa, en við æfum 3svar í viku. Það stendur líka til að ég þjálfi einn yngir flokk og líklega verða það drengur 10 - 12 ára, en það er enn ekki frágengið. Það er svona frekar afslappað hér að ganga frá hlutunum.
Læt fylgja hér link á netfrétt - maður er náttúrulega búinn að rata inná fréttavef portal.fo - http://www.sportal.fo/mitt.php?page=hond
Guð blessi ykkur öll nær og fjær
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.9.2008 | 20:54
Bráðræðisgolf í Færeyjum
Verð að segja ykkur frá því þegar það greip um okkur hjónin og Finn bráðræðisgolf. Veit eiginlega ekki hvað á að kalla það annað, en við vorum búin að vera að ræða það að við þyrftum aðeins að ná að sveifla kylfu áður en við hjónin færum í golfhelgarferð til Danmerkur. Nú nú, þetta var aldrei neitt meira en rætt og auðvitað horft á brekkurnar hér allt í kring sem verið var að slá og heyja alveg á fullu. Við yrðum örugglega ekki vel séð að fara inná og spæna upp grassvörfinn.
Nema hvað að daginn sem Snorri Steinn skoraði úr vítakastinu á móti Dönum og mamma varð íslandsmeistari í golfi, þá var ekki lengur til setunnar boðið og við rukum af stað með 5 bolta hvert og tvær kylfur, algjörlega í skýjunum yfir árangri strákanna okkar og ekki síst mömmu sem rúllaði upp sínum flokki. Við keyrðum sem leið lá yfir í hlíðina hinumegin við voginn, fórum nógu langt til að vera ekki inná neinu afgirtu túni heldur bara út í móa og nánast fram á klettabrún. Svo var ákveðinn upphafspunktur, sem var þá "teigurinn" og "holan" sem var stór steinn sem við sáum upp í hlíðinni. Það var fyrsta holan, reyndar var það nóg að hitta steininn eða að boltinn myndi stöðvast innan einnarkylfulengdar frá steininum. Þetta gekk alveg ótrúlega vel og við hjónin náðum að lenda við steininn eftir nokkur högg og Finnur skaut beint í hann og boltinn flaug svo langt til baka, en það var "oní". Svo var valinn næsti "teigur" og holan ákveðin, það var að vísu ekki alveg ljóst á hvaða stein af þeim þremur sem við stefndum að á "annarri holu" en það varð skýrara eftir því sem við komum nær steinunum. Svo voru það þústirnar þrjár sem var þriðja holan og síðasta holan var svo lengst ofan úr hlíðinni og niður að stóra steininum sem við notuðum sem fyrstu holu. Það var þvílíkur tiger teigur og um að gera að ná boltunum nógu hátt og nokkurn veginn í áttina að steininum. Maður horfði yfir Miðvog og Sandavog, með þvílíkt útsýni alla leið út á flugvöll. En niðurferðin og löngu dræfin urðu til þess að það töpuðust boltar og sólin var um það bil að setjast á bak við flugvöllinn. En þetta var alvega rosalega gaman og hressandi...... Og vitið þið hver vann, nema hvað undirrituð. Ég týndi nefnilega engum bolta. Uppá það var spilað.
Svo golfarar nær og fjær, ef þið viljið koma í áhættugolf, þá erum við komin með skipulagið og ekki vantar svæðin til að rölta á eftir kúlunni, með undraverðu útsýni.
Guð blessi ykkur nær og fjær.
p.s. Myndirnar úr golfinu eru komnar inná almbúmið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2008 | 11:56
Sjóræningjadagurinn í Klaksvík
Stíflan brostin og nú skal blogga sem aldrei fyrr. En í örsögum ef svo má segja.
Við litla fjölskyldan fórum á svokallaða sjómannadagsskemmtun til Klaksvíkur 14 ágúst. Þeir halda miklar hátíðir þarna í Klaksvík og eru mjög skemmtilegir heim að sækja. En allavegna þá héldu þeir sjómannadagshátíð þarna um miðjan ágúst og byrjuðu herlegheitin á miðvikudegi og stóðu fram á sunnudag. Þeir áttu að vísu líka 100 ára afmæli og saumuðu það saman við sjómannadaginn. Þetta er ekki eins og okkar hefðbundni sjómannadagur um allt land, heldur sérstök hátíð sem þeir tóku upp fyrir 4 árum síðan ef ég man rétt. Þetta er svona meira í áttina að Fiskideginum mikla á Dalvík, nema þeir eru ekki með fiskisúpuna frægu.
Hvað um það við ákváðum að fara á fimmtudeginum til Klaksvíkur en þá var dorgveiðikeppni fyrir börn og svo sigling út á fjörðinn með bátum og vatnsblöðru stríð á milli báta á pollinum á eftir. Við klæddum okkur upp sem sjóræningjar, þ.e. sérstaklega undirrituð, enda annáluð fyrir að detta í víkinga/sjóræningjagír og á græjur í það. Var með sítt, úfið kolsvart hár, bleikan klút á hausnum, leðurólar, augnalepp og ýmis dinglumdangl um mig alla. JJ ákvað að vera bara með klút um hárið og Finnbogi ákvað að vera bara með myndavélina. Ekki alveg samtaka með þetta, en ég lét mig hafa það.
Við komum þegar dorgveiðikeppnin var akkúrat að byrja og voru rúmlega 200 börn, svo mikill var fjöldinn og ekki margir klæddir sem sjóræningjar og því var ég litinn stórum augum af blessuðum börnunum og ekki síður af foreldrunum, sem brostu góðlátlega að þessari veru sem virtist vera ein á ferð, þar sem þeir feðgar gengu ýmist langt á undan mér eða á eftir mér. JJ fékk að veiða með krökkum sem við höfðum kynnst á Zarepta og var vel fagnað af þeim. Hann veiddi ekki mikið enda var hann meira spenntur fyrir sjóræningjastríðinu heldur en dorginu. Öll börnin fengu svo plastflöskur og bréf og áttu að skrifa á það og setja svo í flöskuna. Svo var farið á bátunum út á sjó, það komu um 8 fiskibátar, allt í eigu einstaklinga þarna í Klaksvík og tóku börn og foreldra um borð og svo var siglt út á fjörðinn. Það var mikið hlegið og hóað á milli báta. Svo þegar við vorum komin út að miðjan fjörðinn, þann sem liggur á milli Eystureyjar, Borðeyjar, Kalseyjar og Kuneyjar, stoppuðu bátarnir og svo var talið niður og allar flöskurnar með flöskuskeytunum í var kastað í sjóinn. Straumurinn sér svo um að skola þeim eitthvað á land, jafnvel heim til Íslands, þannig að ef þið finnið flösku með rauðum tappa og bréfi í, þá endilega kíkið og látið vita. Svo var siglt á fullu til baka aftur og var mér nú um og ó yfir glæfraganginum í þeim sem stýrðu skipunum, svo mikið var kappið í mannskapnum að komast sem fyrst inná pollinn. Þetta voru sko ekki neinir smábátar, heldur frekar stórir svifaseinir fiskveiðibátar. Þeir sigldu hver á eftir öðrum upp að bryggju og vopnin voru tekin um borð. (Vatnsblöðrurnar) svo var siglt út á pollinn og eins nálægt næsta skipi og hægt var og bomburnar látnar fjúka. Þetta var mikið fjör og ekki síst fyrir pabbana og einstaka mömmu sem var með handboltatakana á hreinu, að láta vaða á blessuð börnin og foreldrana á hinum bátunum. Nú ekki nóg með að þetta væri nægilega mikið fjör, þá tóku karlmennirnir upp á því að ná í smúlana á bátunum og svo var látið vaða yfir á milli skipa. Það var ekki þurr þráður á mörgum þegar komið var aftur að bryggju og voru blessuð börnin orðin helköld og þeir foreldrar sem héldu að þeir væru að fara í smá skemmtisiglingu á þurrviðrisdegi eins og hundar dregnir á sundi. En mikið rosalega var þetta gaman. Við ætlum aftur næsta ár.
Guð blessi ykkur nær og fjær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)