Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Sjarmörinn hann Bogi á mjólkurbílnum

Já, verð að koma þessari frá mér einni og sér. Þannig var það að þegar við Finnbogi vorum að smíða íbúðina þá fórum við oftar en ekki saman í vinnugöllunum í brugsen (FK) og Bónus. Ég náttúrulega á hvítan málningarsmekkbuxur og svo bláan og appelsínugulan smíðagalla, sem ég fór í til skiptis, svona til að halda einhverri reisn með útlitið. Ójá og derhúfu á hausnum til að halda hárinu í skefjun. Eða eins og Inga svilkona orðaði það svo flott, a bad hairday. Finnbogi aftur á móti á ekki nema einn bláan galla og hann er nú aldeilis búinn að endast og slitinn eftir því. Hér voru fastir kaffitímar og matartímar, allt eftir samningunum og við reyndum að halda uppi vinnustaðahúmornum eftir bestu getu. Það tók nú stundum í að halda í við Finnboga og hans vinnustaðahúmor. (Eitt skiptið hringdi ég í Gunnu í Fjölsmiðjunni og grátbað hana að taka hann aftur því ég væri að verða gráhærð. haha.) En við skemmtum okkur nú yfirleitt konunglega þegar við vorum með Útvarp Færeyja á og alla óskalagaþættina. Þar lærðum við helling í færeyskunni, sérstaklega um þakklæti fyrir allt mögulegt. Skora á ykkur að fara inná uf.fo og hlusta Tit skriva, vit spæla og Tónatíminn. Ég neita heldur ekki fyrir það að stundum var nú hiti í okkur og sérstaklega þegar krafta þurfti til, þá varð nú Sjónarhólsskapinu beitt og hlutirnir kláraðir á þrjóskunni einni saman. Já, maður getur hlegið núna, en ég hló ekki þá. K.Finnbogason vs Bjössi á Sjónarhól og Laufey í Grjótó, þvílík hjón. LOL. En nú sit ég í þessari líka yndislegri íbúð og Finnbogi minn kominn í fasta vinnu. Farinn að keyra flutningabíl útí Sandey þrjá daga í viku og tvo daga á lagernum, aðallega í að pakka mjólk. Fyrirtækið er PM, sama fyrirtæki og Finnur vinnur hjá. Held að hann verði sko ekki bara sjarmör í Vágey, heldur líka í Sandey, ef ég þekki hann rétt.

Drög að baðinnréttinguSem minnir mig á það sem ég ætlaði nú aðallega að skrifa um, þ.e. sjarmörinn hann Finnboga. Það var þannig að einn morguninn, þá fór hann einn í brugsen, ég var í miðri málningu eða eitthvað, svo hann dreif sig að kaupa inn með morgunkaffinu. Það byrjaði alltaf kl. 10.00 á staðartíma. Nema hvað hann þurfti að bregða sér á salernið (reyni að orða þetta eins pent og ég get Rúnu vegna) áður en hann fór af stað. Daginn eftir þá fór ég eftir Aroni Hans til dagmömmunar sem hann var hjá. Hún er stórgerð kona og alveg meiriháttar hress, enda gömul handboltakempa. Við vorum búnar að hittast tvisvar áður og aðeins að spjalla. Hún spyr mig svo með sínu breiða brosi, hvort að það geti ekki verið að hún hafi hitt manninn minn í brugsinu daginn áður, ég var nú ekki alveg viss um það þá hvað það þýddi og dró eitthvað svarið. Þá sagðist hún hafa hitt þennan líka fitta (sem þýðir að maður er heillandi, góður, fallegur oþh.) íslending í búðinni. Hann hafi verið á eftir sér við kassann og hún hafi eitthvað verið að vandræðast með innkaupapokana. Þá hefði þessi sjarmör spurt hana hvort að hana vantaði aðstoð og brosað svo yndislega til sín. Svo var hún eitt spurningarmerki og ég að reyna að átta mig á öllu sem hún sagði. Svo sagði hún: Hann var stór og svo myndarlegur". Ég eins og auli ábyggilega í framan að melta færeyskuna, ekki misskilja mig að ég veit manna best hvað hann Finnbogi er stór og myndarlegur, en eitthvað fannst henni ég vera óviss. Getur það ekki passað spurði hún?? ja jú, örugglega" hikstaði ég. Það hlaut bara að vera, það eru nú ekki svo margir íslendingar hér, amk. ekki sem hún þekkti ekki til og hún og allar dagmömmurnar eru sko með hlutina á hreinu skal ég segja ykkur. Svo klikkti hún út með því sem ég taldi að geðri útslagið um að þarna hefði Finnbogi ekki verið að ferð. Hann lyktaði svo vel af perfume. Ónei, það gat nú ekki verið hann Finnbogi minn. Í grútskítugum vinnugallanum, lyktaði frekar af málningu, timbri og svita, frekar en af parfume. Hann leggur það nú ekki í vana sinn þessi elska að spreyja á sig lykt áður en hann fer í brugsið. Svo ég aftók það með öllu að þetta hafi verið maðurinn minn. Og með það kvaddi ég og fór með ömmudrenginn heim. Ég spurði svo Finnboga um það hvort að hann hafi aðstoðað stórvaxna konu í brugsinu deginum áður, jú það gat passað, það hafði verið hann, hún hafi einmitt verið dáltið fljótfær og hávær, en kát var hún og fór mikinn. Ég sagði honum þá frá samtali mínu við hana og spurði hann svo útí ilminn. Hann varð eitt spurningarmerki og við hlógum ógurlega, hvaða lykt skyldi hún meta jafna að verðleikum og parfume?? Það var okkur báðum dulið.

En það skýrðist auðvitað svo strax daginn eftir, þegar Finnbogi minn þurfti að bregða sér á salernið, sem er mjög hollt og gott og nauðsynlegt að sé í lagi. Ganga örna sinna eins og sumir segja. Hann kom til mín blaðskellandi og hló við. Ég var náttúturulega dáldið hissa, en brosti á móti og samgladdist honum, því ég gat séð að honum var mikið létt eftir veru sína á salerninu. En þá kom það, hann hafði leyst gátuna með ilminn. Já það er ekki fyrir neitt að sagt er að maður fari og tefli við páfann þegar menn þurfa að hægja sér. Lausn gátunnar var nefnilega að finna á salerninu, eða vesinu eins og það heitir á færeysku. Þannig var að ég ákvað mjög fljótlega eftir að við vorum búin að koma upp salernisaðstöðu hér á neðri hæðinni, að kaupa lyktarsprey sem maður festir á vegginn og getur svo úðað úr eftir taflið. Svona til að létta á andrúmsloftinu, þar sem vesið er inní miðri íbúð og enginn gluggi á til að hleypa út loftinu. Hann hafði sumsé eftir setu sína, samviskusamlega notað úðann en ekki farist betur úr hendi en það að það úðaðist yfir hann sjálfann. Já, er ekki lífið dásamlegt og fullt af litlum óhöppum sem eru svo tækifæri til hláturs og gleði um ókomna tíð.

Auðvitað varð ég að leiðrétta mig svo við dagmömmuna daginn eftir, þegar ég náði aftur í ömmudrenginn, um að sjálfsögðu hefði þetta verið minn eigin fitti, vellyktandi maður sem hefði verið svona almennilegur við hana í búðinni, ég meina þannig er hann innréttaður drengurinn. Hún var þá stödd ásamt fleirri dagmömmun í spælastofunni, það er lítið dagheimili sem þær hafa aðgang að og fara einu sinni til tvisvar í viku með öll börnin. Eins og áður hefur verið lýst, þá er hún ekki að skafa af hlutunum og þegar ég var rétt búin að segja við hana að þetta hafi verið maðurinn minn, þá endurtók hún allt saman fyrir þær dagmömmur sem þarna voru um fitta, íslenska sjarmörinn sem hefði aðstoðað hana svo mikill herramaður og undirstrikaði með ítölskum tilþrifum, saug upp í nefið af áfergju, um leið og hún sagði hátt: Hann lugtaði svvooo vel af parfume...... Mér varð eiginlega allri lokið en hélt bara brosinu og kvaddi. Ég kem aldrei til með að segja henni frá "nýja" ilminum hans Finnboga. Enda maðurinn þekktur fyrir riddaraskap og góða lykt.

Guð blessi ykkur öll nær og fjær.


Fögur fyrirheit og fjölgun

Þá er fyrsta heila vikan liðin og allt að falla í fastar skorður. Handboltinn kominn á fulla ferð og skólinn hjá Jóhanni Júlíusi. Finnbogi vann sína fyrstu fullu vinnuviku í Kovanum við smíðar og hrognin eru að koma, kerin gerð klár, þúsund þorksar á færibandi þokast nær. Svo hljómaði textinn einhvernveginn hjá Bubba sem er væntanlegur til Færeyja með tónleika í lok janúar. Hér er talað um kreppu eins og heima og fyrirtæki að draga saman seglin og reyna að haga þeim eftir vindi. Ekki mikið framboð af vinnu, ja nema að maður sé pedagogur, félags-, þroskaþjálfi eða eitthvað þvíumlíkt sem ég hef ekki til að flagga. Var samt að spá í að leggja inn umsókn og láta fylgja að það sé mikið um pedagoga í fjölskyldunni, hvort að það væri ekki næganlegt. Nei, segi bara svona. Ég er nú svo svakalega afslöppuð í vinnumálunum, hef nóg að gera í handboltaþjálfuninni, öll kvöld bókuð og nánast allar helgar fram að páskum.

Eins og svo mörg áramót þá ræddum við fjölskyldan um betra líf og blóm í haga, heilbrigðari lifnaðarhætti og það sem mætti laga. Fögur fyrirheit sumsé um hollari matarvenjur og meiri hreyfingu. Það er svo skítið hvað áramótin eða öllu heldur lenging dagsins hefur góð áhrif á mann. Amk. hvað mig varðar. Mér finnst alltaf yndislegt að sjá dagrenninguna ekki það að ég sé eitthvað niðurbeygð í skammdeginu, það er bara svo gott að fá sér gott í kroppinn.... ég meina sólarvítamín haha. Við hjónin vorum að horfa á Næturvaktina og svo Dagvaktina, alla þættina, í fyrsta skiptið, þvílíkt og annað eins. Nú skilur maður betur frasana sem fólk var að bera fyrir sig í tíma og ótíma. Já sæll, eigum við að ræða það eitthvað frekar og Georg Bjarnfreðarson, við erum búin að liggja í kasti yfir honum, þ.e. Næturvaktarþáttunum sérstaklega, mér fannst Dagvaktin vera út úr kú. Við Finnbogi erum viss um það að Jón Gnarr hefur verið í læri hjá einum af okkar fyrrum nágrönnum. Hvaðan.... það verðið þið að finna út. 

Og nú fjölgar í fjölskyldunni hérna í Færeyjum. Já, já, lengi er von á einum. Hjá Finni og Guðruni, nei, amk. ekki svo ég viti, þau eru í góðum málum með sín tvö eins og er. Það er hjá okkur gömlu sem er að fjölga..... Hund, nei við erum ekki að fá okkur hund, hænur né rollur. haha. En það kemur örugglega þegar við erum búin að semja við tengdadótturina og soninn um skika af lóðinni. Nei, hann Annel Helgi Finnbogason er að flytja til okkar, aldraða foreldra sinna og bræðra, svona til að breyta til. Hann er nú orðinn 22 ára gamall og í góðum gír, langar að spila fótbolta og komast í einhverja vinnu hér. Auðvitað er ég búin að bóka hann á æfingu strax á miðvikudaginn, hann kemur á morgun. Ég var að spyrja eldri strákana sem ég er að þjálfa öðru hvoru, þeir eru nefnilega meira í fótbolta en handbolta og koma á æfingar með okkur einu sinni í viku, hvernig væri með æfingar hjá fótboltanum og þeir urðu allir ein augu og eyru. Ég sagði þeim að stjúpsonur minn væri að flytja til okkar og spilaði fótbolta. Þeir spurðu hvort að hann væri góður, ég sagðist ekki hafa vit á fótbolta, en hann væri í rosalegu formi og hrikalega hress. Ekki spurning að hann ætti að koma og æfa með þeim, þeir væru með betri völl en MB. haha. Já það verður bara gaman að fá hann og fylgjast með honum í boltanum og hvernig hann fellur inn í rólegheitarlífið hér í Færeyjum. Og hratt flýgur fiskisagan, því í gær á handboltamóti hjá Jóhanni Júlíusi, þá spurði ein mamman Finnboga um soninn sem væri að flytja, hvað hann væri gamall, hvort hann væri einhleypur og ýmislegt í þeim dúr, það eru margar frambærilegar stúlkur hér í sveitinni. Íslendirngar eru nefnilega þekktir fyrir herramennsku og að vera miklir sjarmörar... verð að blogga um aðalsjarmörinn hann Finnboga við fyrsta tækifæri. Jú sjáið til hann er annálaður hér í sveitinni fyrir sjarmörheit. Meir um það síðar.

Guð blessi ykkur nær og fjær. 


Jólakortamyndataka...

Má til með að setja inn nokkrar myndir af þeim hundrað sem teknar voru til að gera jólakortamyndir. Við Guðrun tengdadóttir mín, héldum nú að við gætum gert þetta sjálfar. Ég með þessa líka fínu myndavél, sem ég er allt of lin við að nota að staðaldri, en fer svo hamförum þegar ég loksins man eftir henni. Börnin strokin og fín og bakgrunnurinn í jólaþema. En það var nú ekki alveg svo einfalt, börn eru jú bara börn. Við vorum sveittar og þreyttar eftir að hafa gert heiðarlega tilraun fá amk. eina góða, en allt kom fyrir ekki. Finnur kom svo heim um kvöldið og þá voru börnin enn á ný færð í jólafötin og tilraun tvö gerð. Og það gekk, ein mynd varð brúkleg.

Guð blessi ykkur nær og fjær

 


Hafhestar og hérasteik

Þrettándinn og ég ekki í Hafnarfirði. Það verður örugglega ekki mikið líf þá í miðbænum. Annars veit ég nú mest lítið um það, hef ekki verið viðloðandi þrettánda"skemmtun" Hafnfirðinga frá því að ég var unglingur. Eina skiptið sem ég var keyrð heim af lögreglunni, þótt ég hafi ekki gefið upp nafn og ætlaði sko ekki að láta þessa kauna eyðileggja fyrir mér kvöldið, þá þekktu þeir á mér svipinn og.... beina leið heim. Svo vorum við nú svo vel staðsett þegar ég var að alast upp, við vorum algjörlega í beinni þegar þegar atorkumestu létu m.a. bát flakka niður Reykjavíkurveginn eða kveiktu í tunnum og þær látnar rúlla og svo var hlaupið og stokkið yfir garða og grindverk. Sögur herma að þegar Fiddi var settur á þrettándavakt hjá bænum og Hansi kominn í lögguna, voru þeir tveir langt á undan spellvirkjunum, stoppuðu íkveikjur og önnur uppátæki, enda sérfræðingar á ferð.

Hér á bæ er búið að pakka jólunum og kassarnir bíða bara eftir að komast í gáminn, sem stendur hér fyrir utan og er algjörlega nauðsynlegur til að geyma eitt og annað í. Verður sjálfsagt yfirbyggður og stækkaður einhverndaginn. Heimilið er að taka á sig eðlilega mynd og frúin að byrja að skipuleggja sig og gera eitthvað gagn svona á daginn. Drengurinn byrjaður í skólanum og húsbóndinn í vinnu, allt á slaginu átta í gærmorgun. Guðrun tengdadóttir er orðin dagmamma og er með sín tvö og svo koma tvö önnur, þannig að það er líf og fjör á efrihæðinni alla daga. Amma gamla á neðri hæðinni og tekur á móti bóndanum í hádeginu, með síld og heimabakað brauð. Ekki slæmt.

Eins og ég hef áður nefnt þá eigum við frábæra nágranna, þau Jón Pétur og Unu. Jón Pétur hefur verið okkur einstaklega hjálplegur með eitt og annað á byggingatímanum. Finnbogi var svo að hjálpa honum að "slagta og fletta" slátra og flá lömb. Hér er þetta gert bara heima í húsi, svo það er mikið fjör og handagangur þegar flettitíminn byrjar. Og allir karlmenn niður í 4 ára eru með að slátra og fletta. Þykir bara sjálfsagt að börnin alist upp við þetta. Við fengum efni í slátur hjá honum og var gert slátur hér á íslenska mátann og að sjálfsögðu soðin niður hamsatólg. Þeir nota garnatólg og held ég að ég sleppi því að lýsa hvað fer í þá tólg, en hún er sjálfsagt meira í ætt við vesfirsku tólgina. Amk ákvað ég að hafa þetta bara hreina hamsa þetta árið.

2 jan. var okkur boðið í havhesta hjá Jóni Pétri og Unu. hhmmm já, það eru sko fílsungar eða múkkaungar, sem voru snaraðir í ágúst, áður en þeir urðu fleygir. Þeir eru kalónaðir og settir í saltpækil eins og við gerum við hrossakjötið. Svo er þetta soðið í einhverjar klukkustundir og etið með soðnum kartöflum. Maður verður bara að vara sig á því að borða ekki fituna né skinnið, þá er þetta alveg ágætt, nauðsynlegt að kyngja þessu með bjór. Fyrsti bitinn minnti mig á selkjöt sem ég fékk hjá Erni bónda í Húsey þegar ég var þar í vist 14 ára. Þetta er alveg þess virði að borða einu sinni á ári, svona uppá stemmninguna. Eins og tengdamamma myndi segja, doltið prímitíft. Ekkert pjátur né postulín, best að nota vasahnífinn, rétt eins og þegar við fórum til þeirra í ræsta kjötið, það var líka upplifelsi fyrir sig, soðið og borið fram með soðnum kartöflum, gulrótum og rófum. Engar sósur eða salöt. Húsbóndinn brytjaði kjötið í sína fjölskyldu en við JJ máttum bara bjarga okkur sjálf, Finnbogi ekki alveg inná þessu að brytja í mannskapinn... haha.

3 jan. var mikið að gera í hanboltanum. Báðir strákaflokkarnir hjá mér kepptu þann daginn. 10 ára hér heima og spiluðu tvo leiki, einn jafntefli og unnu einn. Svo mátti ég bruna til Þórshafnar með JJ og 12 ára flokkinn, hann er útispilari hjá þeim og er hörkugóður í vörninni og hefur gott auga fyrir sóknarleiknum, en soldið hægur ennþá, en það kemur. Þeir unnu sína tvo svo að við gerðum það gott þann daginn.

4 jan. var okkur svo boðið í hérasteik heima hjá Allan og Jóhönnu, hún spilar hjá mér í 1 deildinni og hann er í stjórninni hjá SÍF/Sóljan, sem ég þjálfa hjá, svo æfir strákurinn þeirra hjá mér, hann er 12 ára og dóttir þeirra með 1 deildinni, já með móður sinni. Finnbogi fór með honum ásamt fleirrum á héraveiðarnar. Hérinn er látinn hanga í nokkra daga og svo flettur og hreinsaður, brytjaður gróft niður og steiktur svo í svörtum potti í ofni. Létt kryddaður en mikið lagt upp úr sósunni. Finnboga fannst þetta minna sig á rjúpu, en mér fannst það nú ekki, ekki það að ég sé neinn rjúpusérfræðingur, en bæði gæs og rjúpa eru bragðsterkari. Jóhanni Júlíusi fannst þetta mjög gott, einfalt og gott, soðnar kartöflur voru meðlætið og sulta að sjálfsögðu. Svo var setið og spjallað fram eftir degi, etinn desert, drukkið kaffi og kökur. Það er alltaf mikið líf og fjör heima hjá þeim hjónum, hef komið til þeirra nokkrum sinnum í kaffi og mat og það er alltaf öll stórfjölskyldan, hún á ennþá afa og foreldra á lífi og tengdaforeldra, svo kemur móðirbróðir hennar sem er giftur einni sem spilar með 2 deild ásamt tveimur dætrum sínum. Synir þeirra eru svo í flokki með Jóhanni Júlíusi, annar jafngamall og hinn ári eldri. Mér líður bara eins og ég sé heima þegar verið er að "ræða" málin, bíð spennt eftir næstu kosningum, þá verður örugglega líf við matarborðið sem er mjög stórt og margir geta setið við. Öll hafa verið meira og minna í handbolta og róðri og heimsótt Ísland og keppt. Nema afinn, hann var aftur á móti við veiðar á Íslandi í mörg ár. Já hér á fólk orðið í manni hvert bein og allir hafa einhverja tengingu við Ísland. Í Bónus og FK er okkur heilsað og sumir spjalla, allir vilja vita hvernig okkur líður og hvort að við séum ekki komin á pláss, eins og þeir segja, eða falla inn. Hvernig sé með vinnumálin og hvort að við séum virkilega búin að innrétta kjallarann. Já það er ekki slæmt að vera hér í rólegheitunum og byggdarlífinu.

Ég bið góðan Guð að blessa ykkur öll nær og fjær.


Ræst súpa og héraveiði - allt í beinni.

Gleðilegt nýtt ár öll sömul. Ég vona að þið hafið haft það gott og gleðilegt um hátíðirnar. Við hér í Færeyjum höfum haft það ljómandi gott. Enn ein jól og áramót með öðruvísi sniði og er það bara hið besta mál. Kynntumst nágrönnum okkar aðeins betur og eins nýjum mat, ekki nýjum í skilningi þess að vera ferskur, heldur nýtt bragð og eitthvað sem maður hefur ekki smakkað áður. Aðfangadagur var mjög afslappaður, þrátt fyrir að við vorum ellefu manns og eins jóladagsmorgun. Eins og áður hefur verið getið þá gisti tengdafjölskyldan hans Finns hér hjá okkur og var það mjög notalegt. Þeir gefa sko ekkert eftir í möndlugrautnum hér frekar en heima á Íslandi. haha. Við fórum svo heim til tengdaforeldra Finns á annan í jólum, þau búa í Þórshöfn, þar fórum við í fótbolta og svo góðan göngutúr eftir matinn um hverfið sem heitir Argir. Mjög notalegt hverfi með mikið af gömlum fallegum húsum. Var sjálfstætt sveitafélag þar til það var sameinað Þórshöfn fyrir nokkrum árum.

Nú svo átti frúin afmæli að vanda þann 29 s.l. Lítið var um dýrðir, en húsbóndinn hafði brugðið sér á héraveiðar með vinum okkar úr Sandavági. Þeir fóru þ. 28 og komu 30 til baka. 15 hérar og 5 karlmenn. Nú ég gerði ráð fyrir að hérapels yrði gjöfin í ár, en það var ekki svo gott, hér nýta menn bara kjötið. Finnbogi hafði það á orði að aldrei hefði hann kynnst sterkari fótafýlu af ekki stærri hópi og taldi að allt kvef og aðrar bakteríur hefðu horfið hið snarasta og menn fljótir að sofna á kvöldin. Og ekki var maturinn heldur til að veikja menn, því að étið var lambalæri sem skilið var eftir í október upp á efsta lofti í húsinu þar sem þeir gistu. Fyrst var lærið kústað og mesta skánin skoluð burt, síðan brytjað niður í stóran pott og það soðið í tvo og hálfan tíma og borið fram með soðnum kartöflum. Fannst Finnboga litur þess vera mjög skrautlegur og bragðið eftir því. Þess skal getið að hann skaut engan héra sjálfur, en náði einum á handkraft úr holu. Ein úr handboltanum færði mér 2 lambalæri, af heimaslátruðu, í afmælisgjöf og verður gaman að smakka það við tækifæri.

Þann 30. þá fórum við hjónin ásamt Finni og Guðrunu á skemmtun í beinni útsendingu, þar sem valið var íþrótta- og tónlistarmenn ársins. Þarna fóru menn yfir það helsta í íþrótta- og tónlistarlífinu 2008 í Færeyjum. Þetta var heilmikil skemmtun og var Finnur tekin í viðtal ásamt öðrum úr landsliðinu. Auðvitað var hringt í frúnna, ekki bara einu sinni heldur tvisvar og náðist í nærmynd í seinna skiptið. En ég var að taka við afmælisóskum frá vinum og fjölskyldu og skammaðist mín ekki hót. - ja, kannski pínku.

Svo komu áramótin, með mikilli veislu og spenningi. Systkyni Guðrunar komu til okkar og eldaði Finnbogi matinn að sjálfsögðu, innbakaðar svínalundir og roastbeef. Okkur var síðan boðið á félagsbrennu og í ræsta súpu eftir miðnætti í þremur húsum. Við fórum hér fyrir ofan húsin, upp í hlíðina, en þar var lítil brenna svo horfði maður yfir allan bæinn og sá að búið var að kveikja elda meðfram vegum um allt, í áldósum, og ártalið í hlíðnni gengt okkur. Mér var óneitanlega hugsað til Akureyrar, nema hvað að hér voru engir skíðamenn á ferð, enda enginn snjór. Svo söfnuðumst við saman við fjósið hjá nágrönnum okkur Eyðdísi og Marner, búa hér ská fyrir ofan okkur og þar vorum við þegar áramótin gengu í garð. Mikið var skotið upp og Emma var í fanginu á ömmu sinni og fór hrollur um hana af kátínu og spennu yfir öllum þessum ljósum og hávaða og Aron Hans í fanginu á afa Finnboga. Þeir bræður Finnur og Jóhann Júlíus voru önnum kafnir við að sprengja og leiddist ekkert. Svo fórum við inn til þeirra og fengum eitt og annað að smakka, m.a. hrútakjöt af vetrargömlum og ræsta súpu. Mikið sælgæti, svo fórum við til læknishjónanna eða presthjónanna, hann er læknir og hún er prestur, og þar var heilmikið hlaðborð og ræst súpa fyrir þá sem vildu. Svo fórum við til nágranna okkar og vina Jóns Péturs og Unu og þar var líka ræst súpa, allt mjög gott. Ræst súpa er eins og kjötsúpa með engu kjöti, en soðið er upp af ræstu kjöti sem er öllu bragðsterkara en ferskt lambakjöt. Þetta átti mjög vel við okkur hjónin og eins Jóhann Júlíus, hann spilaði billjard við lækninn og son hans til klukkan að ganga fjögur um nóttina og fannst það ekki leiðinlegt. Skiptar skoðanir voru á hversu sterkt eða gott bragðið var á hrútakjötinu og til þess að taka allan vafa af því, þá bauð Finnbogi þeim uppá hákarl sem töldu að bragðið væri of sterkt af kjötinu. Það voru ekki margir sem voru eins hrifnir og húsbóndinn. haha.

Á nýjarsdag eldaði Finnbogi dýrindis fiskisúpu og tengdaforeldrar Finns komu og borðuðu með okkur. Síðan fórum við hjónin í langan göngutúr og ræddum um árið sem gengið er í garð og það sem liðið er. Við vorum sammála um að þetta yrði gott ár og við myndum vinna sigra. Í hverju, það kemur í ljós, en fari maður af stað með því markmiði, þá sigrar maður að lokum.

Guð blessi ykkur nær og fjær.


Höfundur

Sólveig Birgisdóttir
Sólveig Birgisdóttir

Fann gamla bloggið mitt og ákvað að hripa eitthvað inn. Verður framhald..... Það verður framtíðin að leiða í ljós.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

271 dagur til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband