Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Vinna og að vinna...

Já það er ekki það sama að vinna og að vinna, en nú gerðist það gleðilega að ég fékk vinnu og Finnur vann bikarmeistaratitil. Frúin er sumsé ekki lengur heimavinnandi húsmóðir á daginn, heldur orðin starfsstúlka hjá Tryggingafélagi Færeyja hér í vestri. Nánar tiltekið í Sandavági sem er næsta þorp sunnan við okkur. Bæjarmörkin eru reyndar hér ofar í götunni, en það tekur mig samt um 10 mín. að skokka í vinnuna, allt eiginlega niðurí móti. Byrjaði fyrstu 2 dagana að hjóla en þá fór að snjóa og hefur snjóað síðan, nú þá fer maður bara á tveimur jafnfljótum.

Skrifstofan sem ég starfa á er landsbyggðarútibú og erum við þrjár "stúlkur" sem þar vinna. Ég er sú eina sem er í 100% starfi, hinar 50% og 70% held ég, er ekki alveg búin að ná þessu enn. Allavegana þá verð ég ekki skilin eftir einsömul fyrstu vikurnar. Það var tekið mjög vel á móti mér og eftir að hafa verið sjálf þeim megin við borðið að taka á móti nýju fólki, þá fannst mér þau standa sig mjög vel. Fyrsta morguninn, þá kom yfirmaður okkar frá Þórshöfn og þá var búið að kaupa rúnnstykki og pekanthnetuvínarbrauð með kaffinu. Mér var færður blómvöndur og kort frá starfsmannastjóranum. Nú svo var tölvan sem ég fékk eitthvað sein á sér og því var sendur maður beint vestur, já já, strax fyrsta daginn og hann kominn á fjórar fætur undir borð hjá mér. Ný mús, nýtt lyklaborð og ný tölva, þvílíkur lúxus. Reyndar er hún ekki alveg sú fljótasta, en riggar vel, eins og þeir segja hér. Búið að setja upp öll kerfi og senda mér aðgangskóda þar sem við átti. Drengurinn úr tölvudeildinni, var hinn ljúfasti og var mér nú hugsað til vina minna í tölvudeild VÍS, skyldu þau nú ekki sakna mín...... haha. Brasið og masið, ég verð nú að segja sjálfri mér til hróss að ég sat algjörlega á mér að atast ekki í drengnum þar sem hann skreið undir borðið, en hló því meira innra með mér...ekki eins lipur og Stína og Binni, en samviskusamur var hann og allt gekk það upp hjá honum. Svo kom dagur tvö, þá komu Abot og Castello, eða kannski frekar Einar Kristján og Kalli, nema hvað þessir voru í vinnugöllum frá TR. Þeir voru að flytja borð á milli, svo að ég fengi upphækkanlegt borð eins og þær hinar á skrifstofunni. Enn á ný þá sat ég á mínum ráðskonurassi, amk. um hvernig ætti að snúa borðinu til að koma því á milli herbergja, hvað þyrfti að skrúfa í sundur og þess háttar. Þær "stúlkurnar" voru alveg fullfærar um að segja þeim til. Ég hefði ekki boðið í Einar Kristján undir þessum "tilmælum" þeirra. haha, þvílíkt bíó. En ég tók allt úr sambandi, símana, tölvurnar og prentarann og að sjálfsögðu setti saman aftur. Ég er nefnilega svo vel upp alin hjá VÍS. En þetta er nú ekki búið enn, því að sama dag komu líka tveir skoðunarmenn, reyndar í sitt hvoru lagi. Annar stoppaði lengi og fékk kaffi og meðlæti en hinn bara til að kíkja á nýju stúlkuna. Þær hlóu mikið hér á skrifstofunni, sögðu að allir kæmu þeir bara til að skoða mig, nýju stúlkuna. Þetta hefur gengið vel þessa fyrstu viku mína í tryggingunum, sit og les, færeyska skilmála, verkefni úr tryggingskólanum hér, það er allt á dönsku takk fyrir og hræri svo í tölvukerfunum eins og mér einni er lagið. Enginn hefur hringt eða sent mér skammarbréf....enn. En maður verður nú að læra á þetta allt saman, og eins og ég hef alltaf sagt, maður lærir best á því að prufa sig áfram sjálfur, tala nú ekki um ef maður gerir nú einhverja vitleysu. Svo henti ég mér í djúpu laugina í gær og svaraði símanum, alveg tvisvar sinnum. haha. Það gekk bara alveg ágætlega, er alveg að ná málinu. Svo á að senda mig á sölunámskeið í enda mánaðarins, auðvitað er kennarinn dani, svo ég kvíði dáltið fyrir því. Fékk undirbúningstest í dag í tölvutæku og á að svara því, sem er á dönsku. ÓMG. Men vi islendinger vi have studeret danskt i skule, ikke?? Já já, ég ber svo bara fyrir mig að ég hafi verið misskilinn og allt slitið úr samhengi, ef ég fell á námskeiðinu.

Helgin síðast var góð, hvað varðar að VINNA. Finnur og liðið hans Neistinn, urðu bikarmeistarar eftir þvílíkan dramatískan endi, eins dramatíkst og hægt er í handbolta. 15 sek. eftir..jafnt. Neistinn fær fríkast og stillt upp, Finnur skýtur og skorar. Kyndill, hitt liðið, kemst í sókn, dæmt VÍTI, 5 sek.eftir. Elsti og reyndasti markmaðurinn biður um að fara inná, ekki spilað allan leikinn, ver vítið og þeir sigra. Það varð allt galið í höllinni, þvílík stemmning. Svo á sunnudeginum þá fengum við skilaboð að Ágúst hennar Laufeyjar hefði orðið bikarmeistari með FH í sínum flokki og stelpurnar sem ég hef verið að hjálpa til með að þjálfa komust í bikarúrslitin, en töpuðu sínum leik með einu marki. Það var nú samt slegið upp móttöku fyrir þær þegar þær komu vestur, enda góður árangur hjá þeim að komast í lokaúrslit.

Já það má segja að við vinnum og Vinnum þessa dagana. Reyndar segja færeyingarnir hér að við íslendingarnir arbeiðum ekki fyrir laununum okkar, heldur vinnum við þau bara. Wink

Guð blessi ykkur nær og fjær.


Ekta uxahalasúpa, handbolti og kæfugerð.

Mikið er nú lífið dásamlegt. Ný ríkisstjórn heima á Íslandi, sem fólkið í landinu hefur trú á vona ég, og hefur visku og vísdóm til að rétta við skútuna fögru. Höfum að sjálfsögðu verið að fylgjast með fréttum alla daga og hlusta á útvarpið. Nú er einmitt að vera að spila lagið "Það reddast" með Ríó Tríóinu. Já allt reddast þetta einhvernveginn allt saman, en er það nægjanlegt, veit það ekki, þurfum að vera einbeittari og skipulagðari með ákveðin markmið að stefna að. Hef aldrei verið hlynnt því að hlutunum sé bara reddað einhvernvegin, en það er samt okkur íslendingum svo eðlislægt og við björgum okkur oft alveg úr ótrúlegustu kringumstæðum. Ég vill nú meina að það sé sjálfsbjargarviðleitnin sem býr í okkur enn, alveg frá forfeðrum okkar víkingunum. Þannig að hlutunum er reddað en þeir reddast ekki bara af sjálfum sér. Það eru nefnilega yfirleitt "stúlkurnar" sem sjá um að redda hlutunum. Ekki meira um það.

Við hjónin fórum í enn eitt matarboðið hér í sveitinni, ekta uxahalasúpa, Anderson snaps (smakkast alveg eins og brennivín) og öl. Þetta var sko súpa sem vert er að elda oft á vetri. Uxahalarnir voru hamflettir og brytjaðir í pott og soðnir í langan tíma. Kjötið síðan skafið af halanum soðið með grænmeti og kartöflum. Allt í einum potti, honum skellt á borðið og boðið upp á brauðbollur með. Þvílík kjarnasúpa. Að sjálfsögðu er Finnbogi búinn að útvega sér uxahala og ætlar að gera sjálfur ekta uxahalasúpu. Verður, ef ég þekki minn mann rétt, bragðbætt með hvítlauk og grænum kryddum.

Mikið hefur verið að gera í handboltanum hjá okkur mæðginunum. Jóhann Júlíus og hans flokkur, sem ég þjálfa líka, hefur staðið sig mjög vel og erum við í 2 sæti í B riðli. Náðum jafntefli við besta liðið um helgina. Og í 10 ára flokknum erum við í 1 sæti í B riðli. Þetta er frábær árangur hjá þeim og gaman að sjá hvernig þeir dafna drengirnir í boltanum. Nú fer að vora og þá tekur fótboltinn við hjá þeim, þannig að það verður barátta að halda þeim á æfingum og klára mótið. Mér skilst að það sé alltaf þannig. Reyndar hef ég tromp á hendi, þar sem Finnur og Annel Helgi hafa komið með mér á æfingar og hjálpað til, bæði hjá strákunum og stelpunum, það finnst þeim spennandi og skemmtilegt. Það gengur ekki eins vel hjá okkur stelpunum í 1 deild, en við erum að byggja upp liðið og stefnum á að koma sterkar inn næsta vetur, þessi vetur hefur verið góður skóli, bæði fyrir mig sem þjálfara og fyrir þær yngri sem eru að koma inn í liðið.

Finnur og hans lið Neistinn, eru að berjast um Færeyjartitilinn og eru komnir í úrslit í bikarkeppninni. Það fer sumsé mikil orka í handboltann hér á þessu heimili. Svo er Finnur í Færeyska landsliðinu og hafa þeir verið að keppa í vetur, gengið upp og ofan. Kepptu vinarleik við Grænland um daginn og töpuðu, enda leiknum troðið inn á milli undanúrslitaleikjanna í bikarnum og mjög þétt prógramm í deildinni líka. Skil ekki alveg þessa dagsetningu, en það er heldur ekki mitt að stjórna því. Ekki enn amk. hihi. Svo hafa þeir farið erlendis og spiluðu m.a. fyrir tómu húsi í Bosníu, þar sem heimaáhorfendur höfðu látíð dólgslega og voru í banni. Finnur sagði að það hefði verið mjög sérstakt. Eins fóru þeir til Rússlands í Pétursborg og þaðan beint til Ítalíu, Sikiley, að keppa, beint í gin ljónsins eða öllu heldur í innsta hring mafíunnar. Borgin sem þeir kepptu í er heimaborg mafíunnar, lentu í ótrúlegum ævintýrum og uppákomum sem seint gleymast. Og auðvitað Pétursborg er heilt ævintýri útaf fyrir sig. Að sjálfsögðu færði hann móður sinni tvær babúskur, enda vel uppalinn.

Í morgun fékk erfðaprinsinn á heimilinu uppáhaldsnesti með sér í skólann. Heimabakað íslenskt rúgbrauð og heimagerð íslensk lambakæfa. Já hér er eldað, bakað og sultað að öllu jöfnu. Finnbogi var í þvílíku stuðu þessa vikuna, gerði chillisultu, bakaði rúgbrauð, bjó til kæfu og nú hangir uxahali ásamt hálfri kvígu hér í næsta húsi sem verður niðurbrytjuð um næstu helgi. Eins gott að standa sig í því að eta það sem fyrir er í frystinum. Við hin á heimilinu reyndum að standa okkur í því að smakka, borða og vera aðstoðar án þess að þvælast mikið fyrir. Hann er sko engum líkur hann Finnbogi.

Svo má koma því hér á framfæri að við hjónin ásamt Jóhanni Júlíusi erum búin að fjárfesta í flugmiðum til Íslands um hvítasunnuna, Finnur og fjölsk. kemur líka. Mamma verður 70 ára í mars, þau eiga svo gullbrúðkaupsafmæli í apríl, Finnur verður þrítugur í maí og Maggi bróðir fimmtugur í júlí. Ákveðið var að fjölskyldan yrði að koma saman og samgleðjast eina helgi og varð hvítasunnan ofaná. Ég verð að viðurkenna að ég hiksta algjörlega á þessum tölum. En maður gleðst líka yfir því að tölurnar hækka og við erum öll með góða heilsu og erum á lífi.

Guð blessi ykkur nær og fjær.


Höfundur

Sólveig Birgisdóttir
Sólveig Birgisdóttir

Fann gamla bloggið mitt og ákvað að hripa eitthvað inn. Verður framhald..... Það verður framtíðin að leiða í ljós.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

249 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband