Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Lofa skal mey að morgni og dag að kveldi

Jæja, þá er dagur eitt búinn í sjálfboðavinnunni á Zarepta. "Unga" stúlkan sem hóf störf full orku og gleði kl. 16.00 að staðartíma, situr nú með sára fingur og auma úlnliði og ekki svo ýkja ung lengur. En þetta var gaman, taka til hendinni í að sortera skemmdar kartöflur frá heilum, framreiða kaffi, kvöldmat, sem samanstóð af súpu, te, brauði og áleggi, kvöldkaffi með brauðbollum, magaríni og sultu, skúffurkökur af ýmsum gerðum og ávexti. N.B. kvöldkaffið er frá kl. 22.00 - 22.30, þannig að sykurinntakan er þó nokkur svona rétt fyrir svefninn. Hér eru 16 - 17 ára unglingar þessa vikuna og um 250 manns í það heila.

Það var mjög gaman að reyna að átta sig á skipulaginu hér í dag, ég á semsagt að vera í eldhúsinu, ekki í uppvaskinu, búrinu né frammi í matsal. En hver segir íslenskri konu hvar hún á að vera. Ef ekkert er að gera í eldhúsinu en uppvaskið á floti, þá fer maður náttúrulega í uppvaskið eða hendir fram á borð þegar búið er af borðunum, fer út með ruslið í gáminn, hhmm, það eiga karlmennirnir að gera. Þetta verður spennandi vika, bæði fyrir mig og JJ. Við erum í herbergi með annarri konu og tveimur drengjum 10 og 11 ára. Þeir eru frændur. JJ er að kenna þeim spil sem hann er með, einhverjar orkufígúrur. Hann er ekki feiminn sem betur fer.

Á föstudagskvöldið upplifði ég að vera með ein með öllum mínum afkomendum. Guðrún fór í sumarbústað með vinkonum sínum og Natasja kom til okkar og var hjá okkur um nóttina. Það vel með okkur, komum yngstu börnunum í svefn á skikkanlegum tíma og gláptum svo á sjónvarpið til hálf tvö.

Á föstudaginn fórum við JJ til Þórshafnar og skelltum okkur í sund. Það er í annað skiptið síðan við komum. Ekki að það sé einhver frétt, en maður fer ekki svo oft í sund hér enda ekki mikið um sundhallir. Sundhöllin, innilaug, er með einni 25 m. sundlaug, tveimur barnalaugum og einni dýfingarlaug. Allt ískalt, þ.e. 25 og 27° en það er reyndar ágætt að hafa enga heita potta til að liggja í því maður verður að synda til að halda á sér hita. JJ er orðin ótrúlega flinkur að hoppa af stokkbrettunum, hæsti er 5 metra og hann lætur sig vaða ofan af honum líka. Nú svo var enn önnur nostralgíjan eins og mágarnir kalla það, maður má bara vera í eina klst. ofan í og svo er kallað upp eftir lit á teygjunni, held ég eða skápunum. Við JJ erum reyndar ekki alveg búin að átta okkur á þessu en verðum víst að fara að læra þetta ef við ætlum að stunda sund mikið svo að við verðum ekki sett í straff. Þegar ég var að fara uppúr sá ég litla rauðhærða stúlku í annarri barnalauginni, fannst hún kunnuleg og fór að leita eftir með hverjum hún væri, jú,jú, mikið rétt þarna sá ég annað rauðhærðan koll, örlítið stærri og þar var Natasja hans Finns, með stjúppappa sínum og hálfsystir. Það var mjög gaman að hitta hana þarna. Við náðum svo í hana heim til hennar, en hún býr í Þórshöfn, þegar við vorum búin að útrétta í kaupstaðnum og fór hún með okkur JJ vestureftir.

Svo svona til að upplýsa þá sem bíða spenntir eftir upplýsingum um súrdeigsbrauðið, þá varð úr því þrjú brauð sem barnabörnin mín voru mjög ánægð með og svo var gerð chili sulta í dag áður en við fórum af stað til Zarepta.

Læt þetta duga að sinni og bið Guð að blessa ykkur öll.


"Unga" stúlkan og eldhúsið

Er komin í vinnu - að vísu sjálfboðavinnu í viku og það í eldhúsi. Nema hvað, fór í kaffi á Zarepta sem eru sumarbúðir svipað og Kaldársel, hitti Jón í Skemmunni sem er forstöðumaðurinn og réði mig í sjálfboðavinnu í viku. Byrja á sunnudaginn. Verð í eldhúsinu og Jóhann Júlíus kemur með mér. Við munum búa á staðnum, í herbergi með annarri konu sem er með 10 ára dreng. Þetta verður bara gaman og gott fyrir okkur að æfa okkur í færeyskunni og Jóhann Júlíus hefur þá einhvern til að leika við. Að vísu verða þarna unglingar vikuna sem við verðum þarna, 16 - 17 ára, en það verður bara meira fjör. http://zarepta.fo

Við JJ vorum þarna í fyrrasumar í eina viku með Finni og fjölsk. Þá var fjölskylduvika. Þetta er meiriháttar starfssemi sem fer þarna fram og byggir upp fjölskyldur, unga foreldra og svo auðvitað unga fólkið og börnin. Maður er vakinn með harmonikkuspili og söng, hefur sitt borð í matsalnum og syngur takk fyrir matinn og allt það. Fyrirlestrar og mikill söngur kvölds og morgna. Allt byggt á kristilegum grunni. Hlakka bara til.

Nú sit ég í eldhúsinu í Miðvági og bíð eftir að súrdeigsbrauðið verði fullbakað, veit ekki hvort að það verði tannbrotsbrauð eins og hitt sem ég bakaði um daginn. Grin JJ tók bita af því, hrikalega gott að sjálfsögðu, en losaði svo gjörsamlega um eina barnatönnina að hann gat tekið hana úr nokkrum klukkutímum seinna. Færeyski tannálfur greiddi heilar 50 dkr fyrir hana. Er semsagt í því að finna hina fullkomnu uppskrift af hollustubrauði án hveitis, sykurs og gers.

Við JJ tókum okkur til í gær og sorteruðum flöskur og dósir, ekki einfalt skal ég segja ykkur, því að áfengissalan (rússdrekkasölan) tekur til baka umbúðir af því sem hún selur, bæði gler og dósir, og svo verslanirnar það sem þær selja. Þannig að við þurfum að fara á eina fjóra staði til að skila af okkur dósum og flöskum.  Nema hvað að í rússdrekkasölunni hér í Miðvági hitti ég fyrir afskaplega hjálplegan mann sem tók við því sem honum bar og spurði svo hvort að ég væri mamma hans Finns. Jú, jú. Hann sjálfur væri í stjórn íþróttafélagsins hér í Miðvági og þar væri iðkaður handbolti og þá vantaði svo þjálfara, hvort að ég væri ekki til í að taka það að mér. Finnur hefði bent á mig þegar þeir leituðu til hans. Þetta væri frá sept. - mars. ca. 10 tímar á viku. Happy Hann ætlar að heimsækja mig og Finn og fara betur yfir þetta. Já maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Allavegana verðum við ekki verkefnalaus hjónin, svo mikið er víst.

 


Hugleiðingar um blog

Þegar ég var að vafra um blog.is og sá að blogið mitt var þarna mitt á meðal hæstvirtra blogara landsins áttaði ég mig fyrst á því hversu berskjaldaður maður er þegar maður er að bloga. Var í raun bara að setja upp blogsíðu fyrir ættingja og vini til að geta fylgst með fréttum handan við hafið og hvernig við spjörum okkur hér í útlandinu. Er búin að vera að velta þessu fyrir mér í dag og veit ekki hvort að þetta sé rétti staðurinn að setja inn fréttir af okkur. Þetta er svona meira hugleiðingar dagbók. Eins og þessi sem Gulla hans Bróa gaf mér og sagði mér að ég skyldi skrifa niður hinar ýmsu hugleiðingar, en þær hugleiðingar eru meira fyrir mig eina að sjá og Guð sem allt veit. En blog er líka ágætis hugleiðingardagbók en þá þannig að það eru hugleiðingar sem ég vil gjarnan deila með öðrum. Sbr. þessi hugleiðing mín um blogið. Ég er ekki mikið fyrir það að lesa fréttir og hef ekki verið mikið að lesa blog annarra. Ekki einu sinni hennar Önnu mágkonu minnar sem ég met mikils og þegar ég les pistlana hennar gefa þeir alltaf eitthvað af sér.

Ég þarf kannski ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því hver les blogið því sjálfsagt eru flestir uppteknir af sínu, þannig að þeir sem vilja við mig kannast og fylgjast með, þeir skoða blogið. Aðrir ekki. Held áfram að melta þetta með sjálfri mér og súrdeginu sem er nú á síðustu metrunum og sker úr um hvort að það sé líf í því eða hvort að gerillinn hafi gefist upp. Nú er nefnilega allt komið í deigið og 10 - 14 tíma hefing að hefjast, næstsíðasta hefingin og svo "vola". Það verður spennandi að vakna í fyrramálið. Hef mestar áhyggjur af því að það verði svo mikið líf að það leki út af borðinu, breytist í deigskrímslið ógurlega og éti allt sem að kjafti kemur.

 


Súrdeig, Dáin og auðlindir Íslands

Sem heimavinnandi húsmóðir í fyrsta sinn síðan 1979 þá ber mér að halda uppi merki þessara hetjukvenna sem hafa tekið að sér mikilvægastu atvinnugrein heims, þ.e. að ala önn fyrir börnum sínum og maka. Undirstaða hvers þjóðfélags og nú er ég ekki að grínast, er heimilið, hornsteinn samfélagsins og börnin sem okkur hefur verið falin, framtíð þjóðanna. Þetta er nú samt einhvernveginn ekki það sem byggt er undir né hvatt til af samfélaginu og þykir ekki nógu gott. Fólk hefur hreinilega ekki nægar tekjur til að einn geti verið fyrirvinna heimilisins. Þar er ég engin undantekning enda unnið úti frá því að eldri sonur minn varð eins árs og hef varla stoppað síðan. Helst verið í 2 - 3 vinnum. En það var nú ekki það sem ég ætlaði að skrifa um, heldur súrdeigið sem ég er að gera. Sem fær mig til að velta upp ritningunni þar sem Jesú varar okkur við súrdeigi faríseana? Hef svosem ekki velt því mikið fyrir mér en nú þegar ég sit hér og horfi á skálarnar á borðinu og reyni að setja mig inní ferlið, get ég ekki annað en velt þessu upp. Að gera súrdeigsbrauð tekur nokkra daga nefnilega en ég geri ráð fyrir að súrdeigsbrauðin hafi, og verði vonandi hjá mér, betra heldur en ósúrt brauð. Var Jesú því að vara okkur við því að taka við einhverju gómsætu úr hendi þeirra sem vilja afvegaleiða okkur, kaupa okkur á sitt band með gómsætu brauði. Og enn í dag er þetta notað, börn og fullorðnir eru ginnt út í allskyns ólifnað með beitu af einhverju gómsætu eða loforði um slíkt. En hvað höfum við foreldrarnir ekki gert í gegnum tíðina, ef þú verður góður, klárar matinn þinn, bíður stilltur í bílnum skal ég gefa þér ís, nammi, færð eftirrétt osfrv. Ekki að það er rangt, en fær mann til að hugsa um að kannski er þetta svona einfalt fyrir þá sem eru með illt í huga að ginna börn sem vita að ef þau klára saltfiskinn, sem þeim finnst vondur, fá þau eitthvað gott á eftir?? Þetta þarf ég að melta aðeins betur.

Fór í Dáin í gær með húsbóndanum á heimilinu, Finni. Það er gróðrarstöð og blómabúð í Sandavági sem er næsta sveitafélag. Ákváðum í sameiningu að gera upp eina beðið sem er í litlu sólarskoti hér fyrir utan húsið. Ég fór að róta í beðinu með barnaskólfu að vopni, þar sem engin garðverkfæri eru til á heimilinu, og reif upp njóla og arfa sem voru í meirihluta. Ásamt því sem kallað er Grátt undir steini. Það eru pöddur, líkastar kakkalökkum af því sem ég hef séð, nema þær eru gráar og það er nóg af þeim hér. Var ekki alveg að gera sig hjá frúnni, svo að Finnur fékk lánaða skóflu hjá nágrannanum og hjólbörur og mokaði uppúr beðinu, tókum reyndar þjár plöntur sem við töldum að yrðu vænlegar til brúks í beðinu, settum nýja mold í og frúin tók sig svo til að planta. Stúlkan í Dáin, greinilega mikil garðyrkjubóndi, ráðlagði okkur heilt eftir því sem hún gat eftir lýsingum okkar um beðið og heimilsmeðlimi. Þarf að taka tillit til þess að börnin geta verið aðgangshorð við beðið og að sjálfsögðu dottið í hug að smakka á þessum fallegu jurtum. Fengum dverggullsóp, sem hún kallaði nú eitthvað annað, en við urðum sammála um að þetta væri plantan, tvær aðrar plöntur sem ég kann ekki skil á en líkjast helst birkikvisti, eru þar samt ekki, hann var þarna líka til, og svo sítrónutimían og mintufjallagrasi. Komin vísir að kryddjurtagarði. Wink

Svo er það vatnið. Íslendingar á Íslandi, drekkið vatn og mikið af því á meðan þið hafið besta vatn í heimi og að því sem ég best trúi, endalaust af því. Hér kaupi ég íslenskt vatn á flöskum. Hér þarf að sjóða vatn til drykkjar. Ótrúlegt en satt. Einn daginn varð það mórautt af ryði held ég frekar en mold og var ekki hægt að sjóða það einu sinni. En maðurinn minn sem getur allt, kann allt og veit allt kemur og reddar þessu. Því trúi ég staðfastlega og tek þessu því með stóískri ró á meðan. Jafn mikilli ró og að gera súrdeigið. Á meðan get ég ekki annað en þakkað Guði fyrir allt það góða sem ég hef og hef átt.

Og heita vatnið, njótið þess að fara í langa sturtu, hér er ekkert heitt vatn úr jörðu og olíukynndingar í húsum og verðið á uppleið hér eins og annarsstaðar í heiminum. Við bruðlum ekki með heita vatnið hér, þetta er bara eins og á Reykjavíkurveginum í gamla daga. Gott að ég hlustaði á Geir forsetisráðherra á 17 júní, við eigum jú að draga aðeins úr neyslunni. Það geri ég svo sannarlega.


Mánudagur - stúlkurnar í Færeyjum

"Stúlkan verður við á mánudaginn sem sér um tessi mál, hún er miklu meira inní tessu øllu og getur upplýst tig miklu betur en ég", sagði maðurinn á kommúnuskrifstofu Miðvágs á føstudaginn, tegar ég mætti með flutningspappírana og spurði allskonar spurninga varðandi hvað ég tyrfti að gera meira. LoL Gat ekki annað en hlegið innra með mér. Tað tarf semsagt stúlku í málin hér eins og heima. Tað kenndi mér góður samstarfsmaður úr VÌS að ef koma tyrfti skipulagi á hlutinu tyrfti stúlku í málið og var tetta oft haft yfir bæði í gamni og alvøru. Á mánudagsmorgun var svo stúlkan komin og búin að hringja í Finn og fá giftingardaginn okkar Finnboga tar sem hann vantaði á pappírana og senda allt til Tórshafnar tar sem gengið yrði frá persónnummar fyrir okkur. Svo spurði ég um tómstundanámskeið fyrir JJ en ekkert svoleiðis er í boði hjá kommúninni, en tað væri fótbolti og róður, hún hringdi nokkur símtøl og kannaði málið, en komumst ekki að neinni niðurstøðu annað en tað að hún vissi að tjálfari yngri flokka drengja væri í fríi erlendis og líklega væru engar æfingar á meðan. Vildi allt fyrir okkur gera og bauð okkur velkomin í Miðvág.

Nú svo brennum við JJ til Tórshafnar til að leysa út gáminn. Vonandi hafa teir nóg af stúlkum tar hugsaði ég með mér. Og jú, jú, tað var kølluð til stúlka til að aðstoða mig hjá Skipafélaginu með pappírana tví tetta hafði einhvernveginn snúið øfugt hjá okkur. Fyrst voru pappírarnir skráðir með Finnboga sem sendanda og Finn móttakanda á gámnum. Hann kom til Færeyja 8 maí (gámurinn) og Finnur fór á staðinn tá strax, en neeei. Hann var ekki að flytja til Færeyja og tví mátti hann ekki vera móttakandi, nema tá að borga tolla af innflutningi á notaðri búslóð, sagði konan hjá tollinu, en ekki málið, stúlkan hjá skipafélaginu breytti bara pappírunum tannig að Finnbogi var bæði sendandi og móttakandi og Finnur fór aftur til konunnar hjá Tollinum. En neeei, hann var ekki Finnbogi og tví mátti hann ekki leysa út gáminn. Sem betur fer er Finnur vel kynntur hér í Færeyjum og tekkir marga, tannig að tegar hann var að velta fyrir sér støðunni kom til hans einn starfsmaður skipafélagsins og leysti málið. "Við geymum bara gáminn fyrir tig Finnur minn, tar til mamma tín kemur og leysir út gáminn, tid turfið ekki að borga neitt geymslugjald."Minnir mig á lagið, Hún mamma kemur í bæinn bráðum og borgar skuldina mína..... en ég hef ekki enn hitt "búðarmanninn" til að kyssa hann fyrir liðlegheitin.

Jæja, nema hvað við JJ hittum stúlkuna hjá Skipafélaginu og hún breytti pappírunum eina ferðina enn tannig að Finnbogi var sendnandi og ég móttakandi, konan hans. Tað mátti og tá var að finna gáminn og tollskoða. Tar komu piltur og stúlka, einkennisklædd, ég aðvaraði tau um að opna gámin varlega tví að nokkuð víst væri á að borðplatan af sófaborðinu myndi hrynja út og ryksugan ásamt skúringarskaftinu. Á meðan við biðum eftir starfsmanni skipafélagsins til að vísa okkur á gáminn tókum við tal saman, pilturinn og ég, kom í ljós að hann var hálfur íslendingur, mamma hans var islensk (betri helmingurinn sagði hann sjálfur). Ég sagði honum að ég væri hafnfirðingur tó svo að ég væri að flytja frá Kópavogi. Hann sagði að allt sitt fólk væri í Reykjavík, nema hvað að hann hefði átt ømmubróðir í Hafnarfiði, hefði verið kallaður Einar rakari. ha, hvort ég hefði ekki tekkt hann? Ó jú og son hans Steintór sem byggi í Kópavogi og ætti son sem hefði verið með JJ í bekk. Ekki stór heimur tað. Gámurinn var opnaður og út kom borðplatan og skaftið. Teim féllust hendur að fara að hreyfa eitthvað til í gámnum enda vel pakkað í hólf og gólf. Fékk stimpil og gámurinn verður sóttur á næstu døgum.

Svo var að fara í vinnumálaskrifstofuna og landstýrið, en tað gekk vel, tarf enga pappíra eða vottorð ef ég ætla að sækja um vinnu hér. Ákvað að koma við á íslensku ræðisskrifstofunni og spyrja hvort að við tyrftum að hafa eitthvað sérstakt í huga og hvort að tau vissu eitthvað um sumarnámskeið fyrir børn sem væru að flytja til Færeyja og hefja skólagøngu í ágúst. Hafði heyrt að eitthvað tannig væri haldið í Tórshøfn. Gekk inn í yndislega gamalt og fallegt lítið hús við Tinganes, sama hús og Turid Samro hafði fataverslun fyrir nokkrum árum. Engin var á neðri hæðinni, en niður stigann kom sjálfur Eiður Guðnason, ræðismaður okkar íslendinga hér í Færeyjum, reyndar var hann ekkert glaður á svipinn og bauð okkur ekki einu sinni velkomin, allt í fasi hans gaf til kynna að við værum að trufla. Og auðvitað efldist ég til muna um að spyrja hann spjørunum úr, kynnti mig og var kurteis, hann gaf ekki einu sinni færi á handabandi, en ég hefði getað gengið nærri honum og trifið í spaðann, en hélt mér á mottunni. Bað mig endilega að koma á fimmtudaginn, tá yrði stúlkan komin.  Reyndar hringdi hann fyrir mig í Høgna í Stórustovu tví hann vissi ekki hvar skrifstofan hans er (skrifstofa VÍS í Færeyjum) og lét mig um að tala við hann sjálf. Svo endurtók hann enn og aftur að við skyldum koma aftur seinna tví að stúlkan sem gæti upplýst okkur um alla hluti miklu betur en hann.

Ég gekk út í sólskinið, brosti hringinn, tví allsstaðar eru stúlkur sem sjá um málin. Ég verð ekki í neinum vandræðum með að fá vinnu. Ég get nefnilega líka verið stúlkan ef tannig liggur á mér.

 

 


Bloggið og frúin....

Sæl øll nær og fjær. Tví miður gengur blogið ekki nógu vel, ekki að mig skorti orð eða umræðuefni, heldur er tæknin að fara með mig. Ef thið í tølvudeild VÍS lesið tetta tá megið tið vita að tølvan hefur fengið hótanir en ég reyni að stilla mig thar sem ég hef ekki aðgang að ykkur til að bjarga mér. En hvað um thað, nú skal reyna að klára amk smá fréttir. Best að setja tær inn í smáskømtum, kannski að tað gangi betur.

Upplifði sunnudagsmorgun, eins og heima á Reykjavíkurveginum, nema hvað að hryggurinn var upphitaður frá kvøldinu áður, og sunnudagsmessa í útvarpinu. Við JJ vorum heima með børnin tar sem foreldrarnir voru að heiman. Tengdadóttirin í vinnu og sonurinn með handboltaliðinu í fjallgøngu. Uppbygging á móralska hlutanum, hann spilar með Neistanum úr Tórshøfn næsta vetur.

http://www.neistin.fo/

Nú svo uppgøtvaði frúin kl. 13.40 að staðartíma að hún var enn á náttføtunum, ógreidd og ekki búin að líta einu sinni í spegil, svo mikið var að gera í barnauppeldinu. Gekk erfiðlega að koma hafragrautnum í tau en amma kunni ráð við tví, setti bara cherios ofaná. Ømmur mega nota allskonar svoleiðis trix. Wink

Fórum svo í biltúr til Tórshafnar tegar Guðrún (tengdadóttirin) var búin að vinna, á besta kaffihúsið í Tórshøfn - Café Herborg - semsagt heima hjá mømmu hennar. Enda var amman frá Íslandi algjørlega búin eftir daginn með yndislegu barnabørnin sín. Grin


Allt að komast í fastar skorður í Færeyjum

Jæja þá eru þau mæðgin, Jóhann Júlíus og Sólveig komin á áfangastað.

Ferðin gekk stór-slysalaust þrátt fyrir velting og hálfgerða sjóveiki. ( einhver talaði um að fara aldrei með báti aftur á milli landa)

Þessa dagana er verið að leysa út gáminn úr tolli, fá kennitölu, stofna bankareikninga og færa sig inn í daglegt líf í öðru landi. 

Tölvumálin hjá þeim mæðginum eru ekki enn komin í lag svo Finnbogi fyllir í eyðurnar fram að því. ( vonandi fyrir helgi)

Heimilisfangið okkar í Færeyjum er Húsanesvegur 24 Miðvágur og heimasími 00298333466

Sólveig er með gsm. 00298265561 og e-mail dollabina@internet.is

Kveðja Finnbogi 


Á leið til fyrirheitna landsins...loksins

Þá erum við, ég og Jóhann Júlíus á leiðinni til Færeyja með Norrænu.

Sumarið, Finnur, Guðrún, Natasja, Aron og Emma bíða okkar og verður notalegt að koma sér fyrir með fjölskyldunni í nágrannalandinu.

Finnbogi kemur til okkar 21 júlí og þá er fjölskyldan sameinuð á ný á sama landinu.

Hér setjum við inn það helsta sem á daga okkar drífur og myndir af einhverju skemmtilegu.

Kveð í bili, það þarf að taka upp úr töskunum og gera klárt fyrir framhaldið.

Kveðja: Solla Færeyingur


Höfundur

Sólveig Birgisdóttir
Sólveig Birgisdóttir

Fann gamla bloggið mitt og ákvað að hripa eitthvað inn. Verður framhald..... Það verður framtíðin að leiða í ljós.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

245 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband