Leita í fréttum mbl.is

Hafhestar og hérasteik

Þrettándinn og ég ekki í Hafnarfirði. Það verður örugglega ekki mikið líf þá í miðbænum. Annars veit ég nú mest lítið um það, hef ekki verið viðloðandi þrettánda"skemmtun" Hafnfirðinga frá því að ég var unglingur. Eina skiptið sem ég var keyrð heim af lögreglunni, þótt ég hafi ekki gefið upp nafn og ætlaði sko ekki að láta þessa kauna eyðileggja fyrir mér kvöldið, þá þekktu þeir á mér svipinn og.... beina leið heim. Svo vorum við nú svo vel staðsett þegar ég var að alast upp, við vorum algjörlega í beinni þegar þegar atorkumestu létu m.a. bát flakka niður Reykjavíkurveginn eða kveiktu í tunnum og þær látnar rúlla og svo var hlaupið og stokkið yfir garða og grindverk. Sögur herma að þegar Fiddi var settur á þrettándavakt hjá bænum og Hansi kominn í lögguna, voru þeir tveir langt á undan spellvirkjunum, stoppuðu íkveikjur og önnur uppátæki, enda sérfræðingar á ferð.

Hér á bæ er búið að pakka jólunum og kassarnir bíða bara eftir að komast í gáminn, sem stendur hér fyrir utan og er algjörlega nauðsynlegur til að geyma eitt og annað í. Verður sjálfsagt yfirbyggður og stækkaður einhverndaginn. Heimilið er að taka á sig eðlilega mynd og frúin að byrja að skipuleggja sig og gera eitthvað gagn svona á daginn. Drengurinn byrjaður í skólanum og húsbóndinn í vinnu, allt á slaginu átta í gærmorgun. Guðrun tengdadóttir er orðin dagmamma og er með sín tvö og svo koma tvö önnur, þannig að það er líf og fjör á efrihæðinni alla daga. Amma gamla á neðri hæðinni og tekur á móti bóndanum í hádeginu, með síld og heimabakað brauð. Ekki slæmt.

Eins og ég hef áður nefnt þá eigum við frábæra nágranna, þau Jón Pétur og Unu. Jón Pétur hefur verið okkur einstaklega hjálplegur með eitt og annað á byggingatímanum. Finnbogi var svo að hjálpa honum að "slagta og fletta" slátra og flá lömb. Hér er þetta gert bara heima í húsi, svo það er mikið fjör og handagangur þegar flettitíminn byrjar. Og allir karlmenn niður í 4 ára eru með að slátra og fletta. Þykir bara sjálfsagt að börnin alist upp við þetta. Við fengum efni í slátur hjá honum og var gert slátur hér á íslenska mátann og að sjálfsögðu soðin niður hamsatólg. Þeir nota garnatólg og held ég að ég sleppi því að lýsa hvað fer í þá tólg, en hún er sjálfsagt meira í ætt við vesfirsku tólgina. Amk ákvað ég að hafa þetta bara hreina hamsa þetta árið.

2 jan. var okkur boðið í havhesta hjá Jóni Pétri og Unu. hhmmm já, það eru sko fílsungar eða múkkaungar, sem voru snaraðir í ágúst, áður en þeir urðu fleygir. Þeir eru kalónaðir og settir í saltpækil eins og við gerum við hrossakjötið. Svo er þetta soðið í einhverjar klukkustundir og etið með soðnum kartöflum. Maður verður bara að vara sig á því að borða ekki fituna né skinnið, þá er þetta alveg ágætt, nauðsynlegt að kyngja þessu með bjór. Fyrsti bitinn minnti mig á selkjöt sem ég fékk hjá Erni bónda í Húsey þegar ég var þar í vist 14 ára. Þetta er alveg þess virði að borða einu sinni á ári, svona uppá stemmninguna. Eins og tengdamamma myndi segja, doltið prímitíft. Ekkert pjátur né postulín, best að nota vasahnífinn, rétt eins og þegar við fórum til þeirra í ræsta kjötið, það var líka upplifelsi fyrir sig, soðið og borið fram með soðnum kartöflum, gulrótum og rófum. Engar sósur eða salöt. Húsbóndinn brytjaði kjötið í sína fjölskyldu en við JJ máttum bara bjarga okkur sjálf, Finnbogi ekki alveg inná þessu að brytja í mannskapinn... haha.

3 jan. var mikið að gera í hanboltanum. Báðir strákaflokkarnir hjá mér kepptu þann daginn. 10 ára hér heima og spiluðu tvo leiki, einn jafntefli og unnu einn. Svo mátti ég bruna til Þórshafnar með JJ og 12 ára flokkinn, hann er útispilari hjá þeim og er hörkugóður í vörninni og hefur gott auga fyrir sóknarleiknum, en soldið hægur ennþá, en það kemur. Þeir unnu sína tvo svo að við gerðum það gott þann daginn.

4 jan. var okkur svo boðið í hérasteik heima hjá Allan og Jóhönnu, hún spilar hjá mér í 1 deildinni og hann er í stjórninni hjá SÍF/Sóljan, sem ég þjálfa hjá, svo æfir strákurinn þeirra hjá mér, hann er 12 ára og dóttir þeirra með 1 deildinni, já með móður sinni. Finnbogi fór með honum ásamt fleirrum á héraveiðarnar. Hérinn er látinn hanga í nokkra daga og svo flettur og hreinsaður, brytjaður gróft niður og steiktur svo í svörtum potti í ofni. Létt kryddaður en mikið lagt upp úr sósunni. Finnboga fannst þetta minna sig á rjúpu, en mér fannst það nú ekki, ekki það að ég sé neinn rjúpusérfræðingur, en bæði gæs og rjúpa eru bragðsterkari. Jóhanni Júlíusi fannst þetta mjög gott, einfalt og gott, soðnar kartöflur voru meðlætið og sulta að sjálfsögðu. Svo var setið og spjallað fram eftir degi, etinn desert, drukkið kaffi og kökur. Það er alltaf mikið líf og fjör heima hjá þeim hjónum, hef komið til þeirra nokkrum sinnum í kaffi og mat og það er alltaf öll stórfjölskyldan, hún á ennþá afa og foreldra á lífi og tengdaforeldra, svo kemur móðirbróðir hennar sem er giftur einni sem spilar með 2 deild ásamt tveimur dætrum sínum. Synir þeirra eru svo í flokki með Jóhanni Júlíusi, annar jafngamall og hinn ári eldri. Mér líður bara eins og ég sé heima þegar verið er að "ræða" málin, bíð spennt eftir næstu kosningum, þá verður örugglega líf við matarborðið sem er mjög stórt og margir geta setið við. Öll hafa verið meira og minna í handbolta og róðri og heimsótt Ísland og keppt. Nema afinn, hann var aftur á móti við veiðar á Íslandi í mörg ár. Já hér á fólk orðið í manni hvert bein og allir hafa einhverja tengingu við Ísland. Í Bónus og FK er okkur heilsað og sumir spjalla, allir vilja vita hvernig okkur líður og hvort að við séum ekki komin á pláss, eins og þeir segja, eða falla inn. Hvernig sé með vinnumálin og hvort að við séum virkilega búin að innrétta kjallarann. Já það er ekki slæmt að vera hér í rólegheitunum og byggdarlífinu.

Ég bið góðan Guð að blessa ykkur öll nær og fjær.


Ræst súpa og héraveiði - allt í beinni.

Gleðilegt nýtt ár öll sömul. Ég vona að þið hafið haft það gott og gleðilegt um hátíðirnar. Við hér í Færeyjum höfum haft það ljómandi gott. Enn ein jól og áramót með öðruvísi sniði og er það bara hið besta mál. Kynntumst nágrönnum okkar aðeins betur og eins nýjum mat, ekki nýjum í skilningi þess að vera ferskur, heldur nýtt bragð og eitthvað sem maður hefur ekki smakkað áður. Aðfangadagur var mjög afslappaður, þrátt fyrir að við vorum ellefu manns og eins jóladagsmorgun. Eins og áður hefur verið getið þá gisti tengdafjölskyldan hans Finns hér hjá okkur og var það mjög notalegt. Þeir gefa sko ekkert eftir í möndlugrautnum hér frekar en heima á Íslandi. haha. Við fórum svo heim til tengdaforeldra Finns á annan í jólum, þau búa í Þórshöfn, þar fórum við í fótbolta og svo góðan göngutúr eftir matinn um hverfið sem heitir Argir. Mjög notalegt hverfi með mikið af gömlum fallegum húsum. Var sjálfstætt sveitafélag þar til það var sameinað Þórshöfn fyrir nokkrum árum.

Nú svo átti frúin afmæli að vanda þann 29 s.l. Lítið var um dýrðir, en húsbóndinn hafði brugðið sér á héraveiðar með vinum okkar úr Sandavági. Þeir fóru þ. 28 og komu 30 til baka. 15 hérar og 5 karlmenn. Nú ég gerði ráð fyrir að hérapels yrði gjöfin í ár, en það var ekki svo gott, hér nýta menn bara kjötið. Finnbogi hafði það á orði að aldrei hefði hann kynnst sterkari fótafýlu af ekki stærri hópi og taldi að allt kvef og aðrar bakteríur hefðu horfið hið snarasta og menn fljótir að sofna á kvöldin. Og ekki var maturinn heldur til að veikja menn, því að étið var lambalæri sem skilið var eftir í október upp á efsta lofti í húsinu þar sem þeir gistu. Fyrst var lærið kústað og mesta skánin skoluð burt, síðan brytjað niður í stóran pott og það soðið í tvo og hálfan tíma og borið fram með soðnum kartöflum. Fannst Finnboga litur þess vera mjög skrautlegur og bragðið eftir því. Þess skal getið að hann skaut engan héra sjálfur, en náði einum á handkraft úr holu. Ein úr handboltanum færði mér 2 lambalæri, af heimaslátruðu, í afmælisgjöf og verður gaman að smakka það við tækifæri.

Þann 30. þá fórum við hjónin ásamt Finni og Guðrunu á skemmtun í beinni útsendingu, þar sem valið var íþrótta- og tónlistarmenn ársins. Þarna fóru menn yfir það helsta í íþrótta- og tónlistarlífinu 2008 í Færeyjum. Þetta var heilmikil skemmtun og var Finnur tekin í viðtal ásamt öðrum úr landsliðinu. Auðvitað var hringt í frúnna, ekki bara einu sinni heldur tvisvar og náðist í nærmynd í seinna skiptið. En ég var að taka við afmælisóskum frá vinum og fjölskyldu og skammaðist mín ekki hót. - ja, kannski pínku.

Svo komu áramótin, með mikilli veislu og spenningi. Systkyni Guðrunar komu til okkar og eldaði Finnbogi matinn að sjálfsögðu, innbakaðar svínalundir og roastbeef. Okkur var síðan boðið á félagsbrennu og í ræsta súpu eftir miðnætti í þremur húsum. Við fórum hér fyrir ofan húsin, upp í hlíðina, en þar var lítil brenna svo horfði maður yfir allan bæinn og sá að búið var að kveikja elda meðfram vegum um allt, í áldósum, og ártalið í hlíðnni gengt okkur. Mér var óneitanlega hugsað til Akureyrar, nema hvað að hér voru engir skíðamenn á ferð, enda enginn snjór. Svo söfnuðumst við saman við fjósið hjá nágrönnum okkur Eyðdísi og Marner, búa hér ská fyrir ofan okkur og þar vorum við þegar áramótin gengu í garð. Mikið var skotið upp og Emma var í fanginu á ömmu sinni og fór hrollur um hana af kátínu og spennu yfir öllum þessum ljósum og hávaða og Aron Hans í fanginu á afa Finnboga. Þeir bræður Finnur og Jóhann Júlíus voru önnum kafnir við að sprengja og leiddist ekkert. Svo fórum við inn til þeirra og fengum eitt og annað að smakka, m.a. hrútakjöt af vetrargömlum og ræsta súpu. Mikið sælgæti, svo fórum við til læknishjónanna eða presthjónanna, hann er læknir og hún er prestur, og þar var heilmikið hlaðborð og ræst súpa fyrir þá sem vildu. Svo fórum við til nágranna okkar og vina Jóns Péturs og Unu og þar var líka ræst súpa, allt mjög gott. Ræst súpa er eins og kjötsúpa með engu kjöti, en soðið er upp af ræstu kjöti sem er öllu bragðsterkara en ferskt lambakjöt. Þetta átti mjög vel við okkur hjónin og eins Jóhann Júlíus, hann spilaði billjard við lækninn og son hans til klukkan að ganga fjögur um nóttina og fannst það ekki leiðinlegt. Skiptar skoðanir voru á hversu sterkt eða gott bragðið var á hrútakjötinu og til þess að taka allan vafa af því, þá bauð Finnbogi þeim uppá hákarl sem töldu að bragðið væri of sterkt af kjötinu. Það voru ekki margir sem voru eins hrifnir og húsbóndinn. haha.

Á nýjarsdag eldaði Finnbogi dýrindis fiskisúpu og tengdaforeldrar Finns komu og borðuðu með okkur. Síðan fórum við hjónin í langan göngutúr og ræddum um árið sem gengið er í garð og það sem liðið er. Við vorum sammála um að þetta yrði gott ár og við myndum vinna sigra. Í hverju, það kemur í ljós, en fari maður af stað með því markmiði, þá sigrar maður að lokum.

Guð blessi ykkur nær og fjær.


Þorláksmessa í Færeyjum

Já það var auðvitað skötuveisla í gær, nema hvað. Finnbogi klikkar nú ekki á svoleiðis og að sjálfsögðu heimagerður þrumari og heimsgert hamsatólg. Við buðum nágrönnum okkar í veisluna og "dámaði" þeim þetta bara nokkuð vel. Við vorum líka með þurkkaða grind, sem Finnbogi "veiddi" í frystikistunni hjá Finni, en hann hafði fengið bita af grind fyrir ári síðan og frysti, þar sem hann er ekki mikið fyrir þurrkaða grind, að sjálfsögðu var grindarspik, hákarl og harðfiskur líka á borðum. Það vantaði bara íslenska brennivínið, en við vorum með Bornholms ákavíti í staðinn. Þetta var hin fínasta veisla og var mikið hlegið og spjallað. Svo fóru börnin á næsta bæ, eiginlega hálffullorðin, á þorláksmessurúntinn, en það er siður sem komst á fyrir um 20 árum síðan. Þann 23 kl. 23, fara allir sem vettlingi geta valdið á rúntinn, halarófa af bílum, flautandi og blikkandi ljósum. Við "gamla" fólkið héldum okkur nú heima, en horfðum á herlegheitin ofan úr stofu hjá Finni. Þetta var heilmikil bílalest og gekk mjög hægt. Svo stoppuðu þau á kajanum og slógu upp útiballi. Mér skyldist á dömunum hjá mér í boltanum að þær hefðu verið að til kl. þrjú í nótt. Ég hafði stutta æfingu núna kl. 12 í dag. Ég fór út að hlaupa með þeim og fékk því upplýsingarnar beint í æð.

Þegar ég var að hlaupa út úr húsi þá kom nágranninn og færði okkur skerpukjötslæri, sem er algjört sælgæti og mikil munaðarvara, og sagði að það væri hefð að borða fyrstu bitana af skerpukjötinu í hádeginu á aðfangadag. Við sátum því áðan og fengum okkur skerpukjöt og síld.

Núna ætti ég að vera að ganga frá rúmunum og klára að skúra, en datt þá um tölvuna og ákvað að senda smá pistil. Við eigum von á tengdafólkinu hans Finns. Þau borða hjá okkur hérna niðri og gista í nótt.

Finnbogi er að elda jólamatinn og hefur verið að síðan í morgun, tvær "dúnnur" endur í ofninum, með sinnhvorri fyllingunni auðvitað og Herborg, tengdamamma Finns, ætlar að elda tvær í ofninum hjá Finni, svo að það ætti að verða nægur matur handa okkur 11 sem verða hér í kvöld.

Já það er margt öðruvísi en heima og hér er það sjálfsbjargarviðleitnin og hugmyndaríkið sem gengur. T.d. höfum við ekki gert sjálf heimagerðan ís, amk. ekki í mörg ár né bakað rúgbrauðið ofl. sem við gerum hér og þetta er bara gaman. Finnbogi hefur sjálfur grafið lax og gert sósu sem verður forrétturinn svo verður rommrúsínuís og daimís á boðstólnum á morgun ásamt hangikjötinu. Möndlugrauturinn verður í kvöld að sjálfsögðu.

Jæja nú er mér ekki til setunar boðið lengur og verð að fara að gera eitthvað gagn.

Við óskum ykkur öllum gleði- og gæfuríkrar jóla og áramóta. Guð blessi ykkur öll nær og fjær.


Þrumur og þrumari - Hátíð ljóss og friðar

Í nótt voru þrumur og eldingar - skrítið að við skulum alltaf byrja á að segja þrumur, því að eldingarnar koma fyrst. Jæja, hvað um það, pottasleikir kom sumsé í þrumuveðri í nótt til Færeyja. Jóhann Júlíus og Aron Hans fara samviskusamlega að sofa á tiltölulega kristilegum tíma og reyna að haga sér sem skyldi, svo að þeir fái ekki kartöfu í skóinn. Þeir hafa sloppið hingað til. Cool Í morgun var svo veðrið þokkalegt - á okkar mælikvarða, en veðrið hefur verið mjög rysjótt, ýmist úrhellisrigning og rok, hagél og fljúgandi hálka. Hér er ekki verið að salta neitt mjög mikið, það þiðnar og frystir á svo skömmum tíma. Því miður hafa verið nokkur umferðaróhöpp og slys á fólki, einn látist og nokkri alvarlega slasaðir. Oft fer maður um á 20 km. hraða þó svo að bíllinn okkar sé vel dekkjaður, þá er þetta ekkert grín í brekkunum og beygjunum hér. Sem betur fer þurfum við ekki að fara mikið um við Finnbogi, en Finnur er á ferðinni alla daga, hann er mjög góður bílstjóri og er á góðum bíl.

Nú það var þetta með þrumarann - ég er loksins búin að afreka það að skella rúgbrauði í ofninn í fyrsta sinn algjörlega ein - en auðvitað þurfti ég að hringja í mömmu í tvígang, svona til að fá handleiðslu frá fagmanneskunni. Við erum búin að versla allt inn sem hægt er með fyrirvara og erum tilbúin í að taka á móti jólunum þegar þau skella á okkur - algjörlega að óvörum eins og alltaf. hihi. Meira hvað tíminn líður fljótt, þó svo að maður sé "ekkert" að gera. Hér felst jólaundirbúningurinn aðallega í því að reyna að klára sem mest að því sem hægt er í íbúðinni. Við erum nánast búin að koma okkur fyrir, en það eru alltaf nóg af frágangsverkefnum sem liggja fyrir og hurðarnar fyrir sérsmíðuðu eldhús-, þvottahúsinnréttinguna og skápana eru settur á verkefnalista fyrir næsta ár. Finnbogi gerði sér lítið fyrir og smíðaði innréttingarnar með aðstoð tengdaföður síns, en mamma og pabbi voru hjá okkur í október og voru tekin í vinnu, að sjálfsögðu.

Núna sit ég í stóru borðstofunni minni, búin að koma húsgögnunum fyrir og raða inní skápana, setja upp jólaskraut og læt eins og regnið/élið (getur ekki gert upp við sig) sé jólahreingerning að ofan. Já okkur mannfólkinu veitti nú ekki af stundum. Ég var einmitt að segja Finnboga í gær að jólin væru ekki lengur hátíð ljóss og friðar, heldur hátíð matar, drykkja og verslana. Það gengur allt út á það að hafa nóg að bíta og brenna, fjöldi jólapakka og hafa eitthvað gott að horfa á í sjónvarpinu. Jesús gleymist eða er lagður til hliðar í öllu þessu og virðist ekki skipta svo miklu máli. Og hann sem fæddist og dó fyrir okkur. Ef við virkilega leggjum hugann við textann í Heims um ból í stað þess að syngja hann bara þá má okkur vera ljós boðskapurinn.  

Heims um ból helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.

Það flækist stundum fyrir mér hvað niðurlagið þýðir. Ég fann þessa útskýringu á vísindavef H.Í.:

"Mörgum hefur orðmyndin meinvill í sálminum "Heims um ból" orðið að umhugsunarefni. Þar stendur:
Frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.

Lýsingarorðið meinvillur merkir 'fullkomlega ráðlaus, alveg villtur'. Mein- stendur þarna sem herðandi forliður með villur 'villtur', samanber að fara villur vega 'villast'. Í sálminum er því verið að segja að mannkindin, það er mannkynið, hafi legið fullkomlega ráðlaus í myrkrum. "

Ég held satt að segja þá liggjum við mörg ennþá fullkomlega ráðalaus í myrkrinu, reynum eftir fremsta megni að lýsa upp allt í kringum okkur með kertum og ljósum, ekki að það sé slæmt, síður en svo, ekki síst hjá okkur íbúðum í norðri þar sem sólargangurinn styttist og styttist, ekki miskilja mig. Heldur held ég að það sé miklu mikilvægara að við reynum að nálgast "frumglæði ljóssins", Jesú sjálfan og lýsa okkur upp hið innra. Þá lýsum við nefninlega að innan og út til þeirra sem við erum dagsdaglega með eða hittum á förnum vegi. Við sem búum við svona mikið myrkur, ekki síst á þessum tímum, getum lýst upp eins og Pólstjarnan þegar uppsprettan kemur frá "frelsisins lind". Það er svo mikilvægt hvað við nærum okkur á til anda, sálar og líkama. Við eigum allt í honum, gleði, heilbrigði, geðheilsu og ekki síst frið og ljós hið innra. Ekki láta ljósið sem stendur þér til boða deyja út bara af því að þú ert svo upptekin/n og hefur of mikið að gera, ekki "búin/n að öllu" fyrir jól, leyfðu því frekar að vera loga glatt hið innra og vera uppspretta og gleðin í "öllu" sem þú ætlar að gera fyrir jól.

Guð blessi ykkur öll nær og fjær og gefi ykkur aðventu ljóss og friðar.

 


Á leið í höfuðborgina í jólainnkaup

Hæ þið. Bara að segja að ég er ekki týnd og tröllum gefin og er alveg að komast í jólaskapið. Jólasveinarnir mínir allir eru komnir út í nýlakkaða gluggana og seríur komnar á alla hugsanlega og óhugsandi staði. Færeyingar halda að hér sé búið að opna verslun, svo mikil er dýrðin. Finnbogi er að ýta á eftir mér að fara í klæði. Varð bara að segja að ég hugsa til ykkar og er oft búin að blogga í huganum en ekkert komist á prent.

Guð blessi ykkur nær og fjær. Jólakveðja frá Færeyjum þar sem Geir Ólafs trónir á toppnum með lagi sínu Jólamavurinn kemur í kvöld.  LoL


Skóli og handbolti

Jóhann Júlíus byrjaði í skólanum ásamt móður sinni þann 18 ágúst s.l. Já, móðir hans fékk að fylgja honum fyrstu dagana, en það var alveg tekið skýrt fram að það var ekki til að hjálpa honum heldur til þess að móðirin væri inní námsefninu og fengi þær upplýsingar sem þyrfti til að geta aðstoðað með heimanámið. Við mættum sumsé þarna fyrsta daginn saman og hann var fljótur að láta sig hverfa inní hópinn en ég hitti einn pabba sem er nágranni okkar. Svo var hringt inn og öll börnin þustu inn í stóran sal og röðuðu sér þar eftir bekkjum. JJ fann sinn bekk og stillti sér upp næst fremst. Er svo mikið til baka þessi elska....

Þar hélt skólastjórinn þessa fínu ræðu yfir börnunum, minnti þau á að taka vel á móti nýjum nemendum og nefndi einnig þá sem voru farnir í lengri og skemmri tíma. Þetta er ekki stór skóli og mjög heimilislegur. Þarna eru 5 - 10 bekkir frá Miðvági og Sandavági. Það var líka sunginn sálmur og farið með Faðir vorið. Þetta var mjög sérstakt og fallegt og gladdi mitt hjarta. Kennararnir tóku svo við sínum bekk og fóru með þau inn í sína stofu. Ég trammaði á eftir bekknum eftir að hafa kynnt mig fyrir kennaranum henni Jónley. JJ settist aftast við hliðina á dreng sem heitir Benjamín og ég setti mig við hliðina á stúlku sem heitir Sóley og er nágranni okkar. Mér líst ljómandi vel á kennarann og bekkinn, sem er vel lifandi og það er greinilegt að hún var vel inní heimilisaðstæðum hjá hverjum og einum og hefur verið með þau lengi, þau voru líka ófeimin við að segja henni frá hvað þau hefðu gert í sumarfríinu sínu. Svo komu inn þeir kennarar sem voru með önnur fög og allir tóku vel á móti okkur íslendingunum. Reyndar var dönskukennarinn hálf hvumsa þegar ég sagði henni að hann hefði ekki neinn grunn í dönsku, en þetta er þriðji veturinn hjá þeim hér í færeyjum í dönsku. Jæja, eitthvað myndum við nú finna út úr því og það hefur gengið alveg ótrúlega vel. JJ er mjög fljótur að læra tungumál og þau liggja vel fyrir honum.

Nú ég mætti með honum þrjá morgna og þá fannst honum þetta vera orðið nokkuð gott hjá mér og mér líka. Nú yrði að sleppa spottanum og hann að bjarga sér sem hann hefur gert. Það þarf nú samt að fylgja honum vel eftir með að gleyma ekki bókunum, annað hvort heima eða í skólanum. Það hefur ekkert breyst. Hann er bara 5 mín. að lappa í skólann og er það mikill kostur. Við höfum reynt að finna út með harmonikkunám fyrir hann, en það gengur ekki eins vel. Það er annað hvort að fara til Þórshafnar eða kvöldskóli. En við finnum út úr því eins og öllu öðru.

Og svo er það handboltinn hjá frúnni. Hún er orðin starfandi handknattleiksþjálfari hjá S.Í.F., 1 deild kvinnum. Það er svo önnur deild fyrir ofan sem heitir Sunset Það hefur gengið alveg ótrúlega vel, nema hvað að undirrituð hef verið á fullu með þeim í æfingunum sem ég hef sett fyrir þær og svo eru þær svo fáar að þegar við skiptum í lið og spilum handbolta hef ég verið með líka. Og það tekur á skal ég segja ykkur. Eiginlega ekki þegar ég er að gera æfingarnar eða spila handbolta, því þá gleymi ég mér og keppnisskapið er gjörsamlega með yfirhöndina. Það er þegar ég kem heim og daginn eftir. Þá man ég eftir því að ég er að verða 47 ára en þær eru frá 16 - 27 ára. Svo koma þessar eldri, sem ég veit ekki enn hvað eru gamlar, og æfa með okkur einu sinni í viku. Þær eru skráðar í 2 deild með lið. Þær byrja í næstu viku að æfa, en við æfum 3svar í viku. Það stendur líka til að ég þjálfi einn yngir flokk og líklega verða það drengur 10 - 12 ára, en það er enn ekki frágengið. Það er svona frekar afslappað hér að ganga frá hlutunum.

Læt fylgja hér link á netfrétt - maður er náttúrulega búinn að rata inná fréttavef portal.fo - http://www.sportal.fo/mitt.php?page=hond

Guð blessi ykkur öll nær og fjær


Bráðræðisgolf í Færeyjum

Verð að segja ykkur frá því þegar það greip um okkur hjónin og Finn bráðræðisgolf. Veit eiginlega ekki hvað á að kalla það annað, en við vorum búin að vera að ræða það að við þyrftum aðeins að ná að sveifla kylfu áður en við hjónin færum í golfhelgarferð til Danmerkur. Nú nú, þetta var aldrei neitt meira en rætt og auðvitað horft á brekkurnar hér allt í kring sem verið var að slá og heyja alveg á fullu. Við yrðum örugglega ekki vel séð að fara inná og spæna upp grassvörfinn.

Nema hvað að daginn sem Snorri Steinn skoraði úr vítakastinu á móti Dönum og mamma varð íslandsmeistari í golfi, þá var ekki lengur til setunnar boðið og við rukum af stað með 5 bolta hvert og tvær kylfur, algjörlega í skýjunum yfir árangri strákanna okkar og ekki síst mömmu sem rúllaði upp sínum flokki. Við keyrðum sem leið lá yfir í hlíðina hinumegin við voginn, fórum nógu langt til að vera ekki inná neinu afgirtu túni heldur bara út í móa og nánast fram á klettabrún. Svo var ákveðinn upphafspunktur, sem var þá "teigurinn" og "holan" sem var stór steinn sem við sáum upp í hlíðinni. Það var fyrsta holan, reyndar var það nóg að hitta steininn eða að boltinn myndi stöðvast innan einnarkylfulengdar frá steininum. Þetta gekk alveg ótrúlega vel og við hjónin náðum að lenda við steininn eftir nokkur högg og Finnur skaut beint í hann og boltinn flaug svo langt til baka, en það var "oní". Svo var valinn næsti "teigur" og holan ákveðin, það var að vísu ekki alveg ljóst á hvaða stein af þeim þremur sem við stefndum að á "annarri holu" en það varð skýrara eftir því sem við komum nær steinunum. Svo voru það þústirnar þrjár sem var þriðja holan og síðasta holan var svo lengst ofan úr hlíðinni og niður að stóra steininum sem við notuðum sem fyrstu holu. Það var þvílíkur tiger teigur og um að gera að ná boltunum nógu hátt og nokkurn veginn í áttina að steininum. Maður horfði yfir Miðvog og Sandavog, með þvílíkt útsýni alla leið út á flugvöll. En niðurferðin og löngu dræfin urðu til þess að það töpuðust boltar og sólin var um það bil að setjast á bak við flugvöllinn. En þetta var alvega rosalega gaman og hressandi...... Og vitið þið hver vann, nema hvað undirrituð. Ég týndi nefnilega engum bolta. Uppá það var spilað.

Svo golfarar nær og fjær, ef þið viljið koma í áhættugolf, þá erum við komin með skipulagið og ekki vantar svæðin til að rölta á eftir kúlunni, með undraverðu útsýni.

Guð blessi ykkur nær og fjær.

p.s. Myndirnar úr golfinu eru komnar inná almbúmið.


Sjóræningjadagurinn í Klaksvík

Stíflan brostin og nú skal blogga sem aldrei fyrr. En í örsögum ef svo má segja.

Við litla fjölskyldan fórum á svokallaða sjómannadagsskemmtun til Klaksvíkur 14 ágúst. Þeir halda miklar hátíðir þarna í Klaksvík og eru mjög skemmtilegir heim að sækja. En allavegna þá héldu þeir sjómannadagshátíð þarna um miðjan ágúst og byrjuðu herlegheitin á miðvikudegi og stóðu fram á sunnudag. Þeir áttu að vísu líka 100 ára afmæli og saumuðu það saman við sjómannadaginn. Þetta er ekki eins og okkar hefðbundni sjómannadagur um allt land, heldur sérstök hátíð sem þeir tóku upp fyrir 4 árum síðan ef ég man rétt. Þetta er svona meira í áttina að Fiskideginum mikla á Dalvík, nema þeir eru ekki með fiskisúpuna frægu.

Hvað um það við ákváðum að fara á fimmtudeginum til Klaksvíkur en þá var dorgveiðikeppni fyrir börn og svo sigling út á fjörðinn með bátum og vatnsblöðru stríð á milli báta á pollinum á eftir. Við klæddum okkur upp sem sjóræningjar, þ.e. sérstaklega undirrituð, enda annáluð fyrir að detta í víkinga/sjóræningjagír og á græjur í það. Var með sítt, úfið kolsvart hár, bleikan klút á hausnum, leðurólar, augnalepp og ýmis dinglumdangl um mig alla. JJ ákvað að vera bara með klút um hárið og Finnbogi ákvað að vera bara með myndavélina. Ekki alveg samtaka með þetta, en ég lét mig hafa það.

Við komum þegar dorgveiðikeppnin var akkúrat að byrja og voru rúmlega 200 börn, svo mikill var fjöldinn og ekki margir klæddir sem sjóræningjar og því var ég litinn stórum augum af blessuðum börnunum og ekki síður af foreldrunum, sem brostu góðlátlega að þessari veru sem virtist vera ein á ferð, þar sem þeir feðgar gengu ýmist langt á undan mér eða á eftir mér. JJ fékk að veiða með krökkum sem við höfðum kynnst á Zarepta og var vel fagnað af þeim. Hann veiddi ekki mikið enda var hann meira spenntur fyrir sjóræningjastríðinu heldur en dorginu. Öll börnin fengu svo plastflöskur og bréf og áttu að skrifa á það og setja svo í flöskuna. Svo var farið á bátunum út á sjó, það komu um 8 fiskibátar, allt í eigu einstaklinga þarna í Klaksvík og tóku börn og foreldra um borð og svo var siglt út á fjörðinn. Það var mikið hlegið og hóað á milli báta. Svo þegar við vorum komin út að miðjan fjörðinn, þann sem liggur á milli Eystureyjar, Borðeyjar, Kalseyjar og Kuneyjar, stoppuðu bátarnir og svo var talið niður og allar flöskurnar með flöskuskeytunum í var kastað í sjóinn. Straumurinn sér svo um að skola þeim eitthvað á land, jafnvel heim til Íslands, þannig að ef þið finnið flösku með rauðum tappa og bréfi í, þá endilega kíkið og látið vita. Svo var siglt á fullu til baka aftur og var mér nú um og ó yfir glæfraganginum í þeim sem stýrðu skipunum, svo mikið var kappið í mannskapnum að komast sem fyrst inná pollinn. Þetta voru sko ekki neinir smábátar, heldur frekar stórir svifaseinir fiskveiðibátar. Þeir sigldu hver á eftir öðrum upp að bryggju og vopnin voru tekin um borð. (Vatnsblöðrurnar) svo var siglt út á pollinn og eins nálægt næsta skipi og hægt var og bomburnar látnar fjúka. Þetta var mikið fjör og ekki síst fyrir pabbana og einstaka mömmu sem var með handboltatakana á hreinu, að láta vaða á blessuð börnin og foreldrana á hinum bátunum. Nú ekki nóg með að þetta væri nægilega mikið fjör, þá tóku karlmennirnir upp á því að ná í smúlana á bátunum og svo var látið vaða yfir á milli skipa. Það var ekki þurr þráður á mörgum þegar komið var aftur að bryggju og voru blessuð börnin orðin helköld og þeir foreldrar sem héldu að þeir væru að fara í smá skemmtisiglingu á þurrviðrisdegi eins og hundar dregnir á sundi. En mikið rosalega var þetta gaman. Við ætlum aftur næsta ár.

Guð blessi ykkur nær og fjær.


Enga gamla bíla til Færeyja takk fyrir

Verð barasta að segja ykkur frá einum af þessum ógleymanlegum stundum þegar maðurinn minn verður kjaftstopp, gjörsamlega hneykslaður og misboðið, allt á sömu stundinni.

Þannig var það að ég fór eins og lýðnum er ljóst, með Norrænu siglandi frá Seyðisfirði til Færeyja, eftir að hafa ekið yfir hálft Ísland í fylgd foreldra minna og áleiðis af manninum mínum, legið meiri hlutann af sjóferðinni í koju, frekar heilsulítil og lítt spennandi félagsskapur fyrir son minn, sem undi sér hið besta um borð og kom svo til Þórshafnar óguðlega snemma á föstudagsmorgni og heilsaði tollverði með því blíðasta brosi sem ég átti til þá stundina. Hann ætlaði nú barasta að hleypa okkur beint í gegn, en þegar hann sá tjaldvagninn góða, aftan í þá stoppaði hann mig og spurði hvort að ég ætlaði svo áfram til Noregs seinna með ferjunni. Ó nei ekki aldeilis ég væri sko að flytja til Færeyja, svaraði ég á minni nýbökuðu færeysku. Hann horfði á mig, svo á bílinn og svo á tjaldvagninn. Spurði hvort að ég ætlaði að vera með bílinn í Færeyjum? Jú, jú, mikil ósköp, ég ætlaði mér að eiga drossíuna áfram. Þá þyrfti ég að umskrá hann, það vissi ég nú og sagði honum að það stæði einmitt til. Þá leit hann á tjaldvagninn og spurði hvað þetta væri? ÉG var í alvöru að hugsa um að móðgast, en ákvað að skella fram smá húmör, á færeysku náttúrulega og sagði að þetta væri nú gamli tjaldvagninn minn, hvort ekki væri hægt að notast við tjaldvagna í færeyjum og ferðast aðeins um eyjarnar? Veit ekki alveg hvort að hann skyldi mig, en ákvað amk. að veifa bara til mín og bauð mig velkomna.

Nú vagninn hefur enn ekki verið notaður, nema ég náði í úr honum eitt og annað góss, m.a. íslenskan lakkrís, nokkur kíló og svo plastglös til að hafa þegar við erum að hugga okkur hér utan við húsið í hitanum. Bílinn hefur hinsvegar verið fullnýttur og við farið mikið, sérlega eftir að Finnbogi kom og fjárfest var í kerru til að aka í aðföng í smíðina. Reyndar höfum við ekki greitt nein gangnagjöld enn, þar sem við ætluðum okkur að kaupa þau í magninnkaupum eftir að við værum komin á færeysk númer og búin að umskrá bílinn í landið. Finnur sagði nefnilega að þeir nenntu ekki að eltast við erlenda aðila en það er nú verulega farið að hitna undir mér, finnst mér, í hvert skipti sem ég ek í gegnum gjaldandi gögnin. Þau eru tvenn hér í Færeyjum, ein frá Vogeynni, þar sem við búum og svo hin til Klaksvíkur, þangað höfum við farið í tvígang.

En aftur að bílnum og umskráningunni. Við megum sumsé aka á íslenskum (erlendum) númerum í allt að 3 mánuði hér í Færeyjum, þegar maður er að flytja til landsins, en eftir það þá ber manni að umskrá bílinn ellegar eiga hættu á að klippt verði af honum og númerin eyðilögð. Nema maður hreinlega sendi hann heim aftur. Við fórum af stað hjónin í Akstofuna og fékk þar upplýsingar hvernig ég bæri mig að, fékk eyðublað til að fara með, að ég hélt, til tollstofunnar og svo til bílasala þar sem ég hafði ekki handbæra pappírana yfir kaupin á bílnum á sínum tíma. Þyrfti að fá verðið á bílnum, virðismat og listaprísur. Hélt nú að ég hafi skilið þetta allt vel, fékk tíma í endurkomu, eða öllu heldur skoðun á bílnum eða þegar umskrá þyfti bílinn hjá stúlkunni og fór mína leið. Nokkrum dögum síðar þá fórum við hjónin af stað á bílasöluna og þar aðstoðaði okkur bílasali, einkar vinalegur, frekar afslappaður, enda fyrsti morgun eftir Ólafsvöku. Síðan fórum við á tollskrifstofuna en þá var ekki opið þar nema á milli kl. 10 - 12 alla daga, þar sem sumarfríin væru í gangi. Sæi þetta ganga heima. Jæja, við gerðum okkur ferð bara nokkrum dögum seinna, þetta þarf að sækja allt til Þórshafnar og því fer maður ekki nema maður eigi nokkur erindi. Mætti á svæðið með alla pappíra til að vera nú alveg klár hjá tollinum. Þar hitti ég fyrir elskulega konu sem leiðbeindi mér ítarlega og jú jú, ég væri búin að eiga bílinn í 2 ár og sjálf búa á íslandi í 3 ár, þannig að gagnvart þeim, þá væri þetta bara flytjigóss og þyrfti ekki að tolla neitt. En hún sagði mér að ég skyldi áður en ég gerði nokkuð annað, kanna hjá akstofunni hvað það kostaði að umskrá bílinn inní landið. Hún lagði mikinn þunga á þetta því að lögin hefðu breyst 1 júní s.l. og ég skyldi vera alveg viss um að ég vildi borga það sem akstofan setti upp áður en ég tæki ákvörðun um að skrá hann í landið. Við hjónin brunuðum upp á akstofu, þó svo að við ættum ekki tíma fyrr en í vikunni á eftir, ég með alla pappíra, verðmatið á bílnum og allt.

Þá kom þetta móment sem kemur svo örsjaldan fyrir með manninn minn. Konan tók við pappírunum, frekar stíf til brosins, eftir að ég hafi útskýrt fyrir henni að ég ætti ekki tíma fyrr en seinna, vildi bara vita hvort að ég væri ekki komin með alla pappíra sem við þyrfti að éta og hvað það myndi nú kosta mig að umskrá bílinn.

Í fyrsta lagi, var ég ekki með réttan pappír frá bílasalanum. Hún vildi fá núvirði á nýjum samskonar bíl og ég ætti. Það væri listaprísurinn. Nú, ég hélt að ég væri að flytja minn 11 ára gamla bíl inn Toyota Rav með FH merkinu inn, en ekki nýjan bíl.

Í öðru lagi þá gat hún sjálf flett upp listaprísnum, á einhverri heimasíðu hjá bílasölu Toyota. Hhhmmm, veit þá ekki alveg afhverju ég var að snúast þetta þá. En jæja, svo fór hún að reikna.

Minn bíll var verðmetinn á 40.000,- dkr af bílasalanum yndislega og gjaldið sem greiða þyrfti fyrir að umskrá bílinn til Færeyja er dkr. 50.000,-. Ég fór að hlæja og hélt að þetta væri nú bara einhver vitleysa en Finnbogi varð sumsé, kjaftstopp, forhneysklaður og misboðið allt í senn. Sem betur fer kom Finnur akkúrat að á þessu andartaki og ég horfði á hann í algjöru hláturskasti og spurði hvað er konan eiginlega að segja. Hann fór yfir þetta með henni og jú jú, þetta kostar að flytja inn árgerð ´97 Toyota Rav4 ekin 200þús km.  Ég leit á konuna og hún sagðist bara vinna þarna og það þýddi ekkert að skammast í sér, en ég hló bara og sagði að hún hlyti að sjá það að ég myndi aldrei fara að umskrá bílinn í landið, þá væri ég kúkú, og undirstrikaði það með alþjóðlegri handahreyfinu við gagnaugað. Sagði að ég myndi að sjálfsögðu senda bílinn bara heim aftur. Henn var ekki skemmt og ekki Finnboga heldur, þar var einnig staddur hinn bílasalinn á bílasölunni sem við fórum til og hann hikstaði nú aðeins á þessu öllu saman. Við fengum svo hvort sitt eintakið af nýju lögunum sem er uppá nokkrar síður og við gætum lesið okkur til um þetta þar. Þar með var hennar afgreiðslu lokið.

Ég hlæjandi og Finnbogi og Finnur yfirhneykslaðir. Finnbogi tilbúinn að fara heim aftur með norrænu, fulla af varningi til að selja heima uppí kostnaðinn af þessari vitleysu. Ég bauð honum að koma með mér í kaffi til að reyna að ná honum aðeins niður til Hans, tengdaföður Finns, en hann er með verslun þarna rétt hjá. Ekki var það til að bæta ástandið, því hann trúði ekki þessari vitleysu og fór í það að hringja út um allar trissur, í þingmanninn PM og stjórann í Akstofunni hann Jákúb, hann svaraði reyndar ekki símanum og þá snaraðist hann út úr búðinni, sagði okkur að gæta hennar á meðan, þetta gæti bara ekki verið, hann ætlað að hitta á stjórann sjálfann. Kom svo til baka með þá vitneskju að þetta væri rétt. Þá fór hann aftur í símann og nú í Samskip því að þeir myndu koma bílnum heim á skikkanlegum prís, hann myndi sjá um það.

Svo nú nýtum við bílinn til hins ýtrasta á meðan við höfum til þess heimildir, en við þurfum að flytja hann úr landi eigi síðar en 19 september. Annars koma þeir með klippurnar.

Færeyjingar vilja enga gamla bíla til landsins, nóg er af þeim fyrir. Takk fyrir.

Guð blessi ykkur nær og fjær og munið að það borgar sig ekki alltaf að gera hlutina vel í tíma.


THE EAGEL HAS LANDED - Ólafsvakan 2008

Ó já, hann er sko lentur. Tók að vísu smá tíma þar sem það var ófært á mánudeginum, en svo gat flugstjórinn lent eftir að hafa hringsólað í um 30 mín yfir Færeyjum á þriðjudeginum, skellti sér svo niður á milli hryðja og þokuslæðings, svo var ekkert flogið fyrr en á fimmtudeginum á eftir. En Finnbogi minn komst á leiðarenda og var ekki fyrr komin inn um dyrnar þegar allt fór á hvolf. Það var farið í gáminn, kannað hvað væri komið inn og staðan tekin. Hún var tekin fljótt og ákveðið. Inn skyldi hjónarúmið "hans" kommóður fyrir fötin, borðstofusettið, kassar og ýmislegt fleirra sem þyrfti að losa úr gámnum svo hann kæmist í verkfærin. Þau voru nefnilega innst. Tölvusambandið lagað, þannig að nú er ég með þráðlausa tengingu niðri í svefnherberginu okkar. Jóhann Júlíus komin í sér herbergi með tveimur rúmum, þar verður gestaherbergi í framtíðinni.

Ekki nóg að þetta færi inn, því að hvar ætti það að vera. Jú, það var ekki mál, aflóga sólarbekkur var í einu herberginu niðri og sturta, hér var sem sé einnig rekin sólbaðsstofa og einn bekkurinn skilinn eftir. Engin léttavara og ekkert einfalt að taka hann í sundur og koma honum út. En það vafðist ekki fyrir Finnboga, frekar en margt annað. Hann sá í hendi sér að þarna væri eldhúsið hans komið, þ.e. bráðabirgðaeldhúsið, þar sem hann gæti fengdið sér kaffisopa, morgunmat og svona eitt og annað án þess að trufla þau á efri hæðinni. Lítill ísskápur var einnig skilinn eftir og hann var tekin til handabrúks og auðvitað smíðaði snillingurinn hillu svo hægt væri að hafa þvottabala til brúks til uppvasks.  Grillið góða var endanlega komið saman, svo að hægt væri að elda á því og nú er frystiskápurinn kominn inn, búið að sótthreinsa eftir ferðalagið.

"Eldhúsið" okkar, er alveg meiriháttar, þetta er svona kotbúskapur og allt gert í rólegheitum, þar sem ekki er um mikið rými né tæki. En þó, Senso kaffivélin, hraðsuðuketillinn, ísskápur, brauvél, örbylgjuofn, kryddhillur komnar á veggina, stór spegill, sem var þar fyrir, vel uppraðaðir kassar við einn vegg og stór gluggi á öðrum, sturta sem er komin með hillu og þó nokkuð af krókum og skrúfum til að hengja eitt og annað, því þarna eru bæði burstaðar tennur og bollar þvegnir. Við notumst við sparihnífaparasettið (það kom upp úr einni kommóðunni) og pappadiskar notaðir oftast og plastglös á meðan birgðir endanst. Reyndar tók ég upp könnur sem voru ofarlega og svo hefur eitt og annað týnst uppúr kössunum góðu, enda voru þeir vel merktir og gott að sjá hvað í þeim felst.

Eina sem ég hef áhyggjur af núna er að það verður bara klárað að gera baðherbergið og herbergi fyrir JJ. Finnbogi er semsagt búinn að koma sér upp þvílíkri flottri vinnuaðstoðu, má segja hálfgert verkstæði, smíðaði sér vinnuborð og kominn inn með allskonar vélar sem ég vissi ekki einu sinni að væru til, enda sum beint úr kassanum. Það er svæðið þar sem eldhúsið, stofa og borðstofa eru hugsuð. Reyndar erum við ekki enn komin með endanlegar teikningar. Við leggjum aðaláhersluna á að klára baðið og herbergið fyrir JJ. Það gengur vel, en það þarf að gera alveg frá grunni, klæða og einangra veggi, loft og gólf og gera eitt hurðargat, ásamt öllu öðru sem þarf að gera. Nú sit ég og bíð eftir að hann komi með meira efni úr Þórshöfn svo að hægt sé að halda áfram.

JJ er í sumarbúðunum og búinn að vera í bráðum viku. Kemur heim á morgun. Það verður gaman. Við tókum okkur frí frá smíðavinnunni og fórum á Ólafsvöku. Fengum lánað hús hjá vinafólki okkar og hugguðum okkar bara tvö frá sunnudegi fram á miðvikudag. Það var mjög gaman og mikið líf og fjör á Ólafsvökunni. En aðallega vorum við að njóta þess að vera saman, Finnbogi dekraði við mig í mat og drykk og svo gengum við um allan bæ hönd í hönd, bæði í sól og svo svartri þoku. Veit ekki hvort var skemmtilegra. Held þokan, því þá gengum við um dal eftir göngustíg sem við höfðum aldrei gengið áður, ofan úr Hoyvík frá Kobba Jóns, hanboltamanni, niður í bær, þau hjónin buðu okkur í skerpukjöt og tvíreykt hangikjöt á mánudagskvöldinu. Reyndar fékk ég þvílíkar harðsperrur og blöðrur undir ilina. Þetta var alveg kyngimagnað að ganga svona í svartri þokunni, sáum ekki nema 2 metra frá okkur. Við hittum mikið af skemmtilegu fólki á Ólafsvökunni og finnst færeyjingum það mjög áhugavert að við íslendingarnir skulum vera flutt til Færeyja. Við reynum að tala eins mikla færeysku og við höfum getu til. Það er oft spaugilegt, því maður er kannski að nota einhver orð sem þýða eitthvað allt annað og þá kemur svona einhver svipur á fólk. M.a. sem við hittum á Ólafsvökunni og tókum tal af var gamall harmonikkuleikari sem gaf okkur upp nafn á harmonikkukennara og svo ungan bónda á Mykjunesi. Hann bauð okkur Finnboga að koma og veiða hvenær sem væri. Held að hann hafi samt aðallega að bjóða Finnboga, sérstaklega þegar ég fór að ræða hvað það væri hættulegt og erfitt að komast í Mykjunes. Auðvitað hittum við líka mikið af íslendingum, mikið fjör og mikið gaman. Ég var nú alvega rosalega stolt að fylgjast með syni mínum Finni Hanssyni, þar sem hann var ásamt íslenska hestinum í skrúðgöngunni við setningarathöfnina á Ólafsvökuna. Það kom upp í mér mikill íslendingur þá, klædd í íslenska lopapeysu í fánalitunum, hönnuð af Öldu frænku, gefin mér af Grétu frænku og með íslenskt og færeyskt fánabarmmerki í kraganum. Og núna er ég búin að gráta úr mér augun, hrærð og stolt að hlusta á setniningarathöfn Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetaembættið. Ekki að Ólafur komi mér til að vökna mikið um augun heldur söngurinn og athöfnin sem slík. Svona er ég nú bara gerð. Hef ekkert lagast og mun sjálfsagt ekki gera. Segi líka alltaf að ég sé í ætt við Jónu frænku á Hamrinum og "it´s my party and I cry if I want to". Þetta er ríkjandi þáttur í föðurfjölskyldunni að vökna um augun af stolti og eiga erfitt um mál sérstaklega þegar hjartansmál eru annarsvegar. Og það er bara gott, þetta er gjöf frá Guði og hana skal maður ekki fyrirverða sig á.

Er að velja inn myndir til að setja inn, þar verður eitt og annað skýrt í myndum og stuttu máli þegar tökin á tækninni verða fullnuma.

Guð blessi ykkur öll nær og fjær.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sólveig Birgisdóttir
Sólveig Birgisdóttir

Fann gamla bloggið mitt og ákvað að hripa eitthvað inn. Verður framhald..... Það verður framtíðin að leiða í ljós.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

245 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband