Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Sjósund, barnadóp og biðin langa

Já, já, það tekur á að vera svona heimavinnandi og enginn til að reka á eftir manni með verkefni nema maður sjálfur og svo auðvitað barnabörnin og sonurinn litli sem skorar á mann í Playmó og fleirri áhættuleiki.

Hér hefur tíminn liðið nokkuð hratt og allt það sem ég ætlaði að vera búin að gera áður en Finnbogi kæmi hefur einhvernveginn gleymst eða verið frestað fram á næsta dag, eins og Helgi Pé. söng á sínum tíma. Dásamlegt lag, man reyndar ekki nógu vel textann en hann fjallaði um að horfa á sjálfan sig á barninu sínu. Hér reyni ég að horfa á synina og barnabörnin og velti fyrir mér hvernig þeim muni vegna, með einkennum sínum og persónuleika. Hvað get ég gert til að auðvelda þeim lífið eða byggja þau upp á jákvæðan máta. Halda aga með hvaða hætti, gamla Sjónarhólsaganum eða leyfa þeim að finna sjálfstæðið með Laufeyjarmótununni. Vér mótmælum allir, niður með valdið, sofum þegar við viljum sofa, segjum það sem okkur dettur í hug, sama hvað. Nei, nei, þetta er ekki hægt að setja á blað með góðu móti. Þetta skilja aðeins þeir sem lifðu Grjótó, Selskarð, Tröð, Kópavoginn, Aðalstrætin bæði tvö, Sólvallargötuna og allt sem því fylgdi. Þetta voru ómetanlegir tímar, bæði á Sjónarhól og hjá Ömmu og afa í Grjótó eins og við köllum þau í dag. Blessuð sé minning þeirra allra. Mikið sakna ég nú ömmu Laufeyjar oft og hvað mann langar að vera lítil og kúra hjá Magnúsi afa og hlusta á hann lesa Andrés önd eða drögin um Svörtu skútuna. En nú er maður stór og orðin sjálf amma og lít til baka til þess sem ég hafði og hvað það er sem ég get gefið mínum barnabörnum. Bið góðan Guð að leiða mig í þeim efnum.

En ekki var það nú þetta sem ég ætlaði að setja niður á blað, en hugurinn fer af stað og fingurnir fylgja með. Heldur var það að segja ykkur frá sjósundinu okkar JJ. Veðrið var frábært hér á sunnudaginn, þó svo að það eymi lítið eftir af því í dag og í gær. Við byrjuðum á því að keyra til Norðskála í barnadóp. Já, ég sagði barnadóp, en það er barnaskírn, hefðbundin skírn í kirkju með presti og öllu sem því fylgir. Reyndar hringdi Finnur í mig þegar við JJ vorum á leiðinni, en hann var gubbi (guðfaðir) einn af þremur hjá stúlkunni og svo hafði hún líka þrjár gummur (guðmæður), og hann vantaði sárlega fjóra 20 krónu myntpeninga, sem hann varð að hafa við athöfnina. Þeir eru fórn til kirkjunnar, einn pening setti hann á altarið, einn hjá hvorum meðhjálpara fyrir sig, en þeir voru tveir og svo einn á skírnarfontin. Þetta vissi hann ekki fyrr en hann kom á staðinn. Þetta reddaðist og við sátum svo undir messuni hjá prestinum, sem ég skyldi ekki alveg nógu vel, var með hugann við barnabörnin og JJ. Finnur beið á meðan með foreldrunum, gubbunum og gummunum heima hjá foreldrum barnsins, sem var bara í næsta húsi. Svo komu þau þrammandi inn þegar hin hefðbundnu messuverk voru afstaðin í röð eins og fylking með prestin í fararbroddi. Presturin las svo yfir þeim ábyrgð þeirra og skyldur gagnvart barninu, stúlkubarn sem fékk nafnið Silja Sigtórsdóttir, ef lífið hagaði því þannig að foreldrarnir gætu ekki séð því fyrir farborða, kristilegu uppeldi og öðru veraldlegum og sálarlegum nauðsynjum, sem hverju barni er ætlað í siðmenntu samfélagi. Mikil ábyrgð og því dugar ekki minna en sex manns til að axla þá ábyrgð. Mjög umhugsunarvert. Reyndar er þetta annað barnið sem Finnur er gubbi hjá, en eldri systir Silju, Björg, er líka guðdóttir Finns. Sigtór faðir þeirra er mikill vinur Finns og er það mikill heiður og viðurkenning að vera valin til þess að vera guðfaðir. Einnig má nefna það hér að Finnbogi er einn af fjórum gubbum hennar Natösju Finnsdóttur. Hann fékk einnig svipaða ræðu frá prestinum sem skírði hana.

Nú að dópinu loknu, þá brenndum við JJ til Þórshafnar, en Finnur og fjölsk. fóru heim til Sigtórs og Ann og voru þar með nánustu fjölsk.í hádegismat og kökum fram eftir degi. Við JJ duttum hinsvegar inn á veitingastaðinn Hvönn í Sjómannsheimilinu í Þórshöfn og lentum í brunch. Ekki eins flott og á Nordica-Hilton í Rvík. en í áttinu. Og ég þurfti bara að greiða fyrir mig 225,dkr. Ekkert fyrir börn yngri en 12 ára. Frábært. Nú svo var að rölta um höfnina og lítinn garð við dómkirkjuna, njóta góða veðursins og melta allar kræsingarnar. Við lögðum okkur meðal annars á eina af flotbryggjunum í Vágsbotni, JJ að reyna að fanga síli og ég að sóla mig. JJ var reyndar búinn að koma auga á Sodíak bát sem fór með fólk í siglingu gegn greiðslu. Við röltum af stað og hann, af því hann er nú svo til baka og innísér eins og foreldrar hans, hljóp til þeirra og spurði hvort að við gætum komið með, jú jú það var auðsótt gegn 300 dkr hálftíma túr. Jæja, maður getur nú ekki alltaf verið á bremsunni og það kitlaði að fara á þeysireið um höfin blá og veðrið var stórkostlegt. Í kuldagallann, björgunarvesti og ofaní bátinn var hoppað. Svo var þeyst af stað um leið og báturinn komst út fyrir smábátahöfnina. Þetta var frábært, JJ naut sín til ítrasta, en ég var í því að reyna að segja honum til og halda sér almennilega. Við sigldum eins og 007 yfir til Nolseyjar og inní höfnina, þar voru teknar nokkrar O beygjur á fleygi ferð öllum til mikillar ánægju (flestum amk) svo var siglt meðfram eynni, undir klettunum og að stað þar sem er hellir og hellismunnurinn marar við sjólínuna og þegar dragsúgur myndast þá blæs hellirinn út úr sér lofti eins og hvalur með tilheyrandi gusugangi. Alveg magnað fyrirbæri. Svo fórum við aðeins lengra og þar er sjórinn búinn að brjóta sig í gegnum vegginn og er svipað og Drangey, bara ekki eins stórt. Áfram var þeyst um hafið blátt og þvílíkir straumar sem eru þarna á milli eyjanna. Við renndum svo meðfram Straumeynni, (þar sem Þórshöfn er) og sáum golfvöll þeirra færeyjinga og það var fólk að spila. Maður á eftir að kíkja á hann þegar golfsettin koma fram í dagsljósið úr gámnum. Ferðin var sko peninganna virði og við JJ skemmtum okkur dásamlega. Svo ákváðum við að halda extreme dæminu áfram og fórum á ströndina hjá Leynum, þar er rétt við gangnamunnan áður en farið er til Vága, eyjan sem við búum á. Við drifum okkur í sundfötin og niður á strönd og útí sjó. Þvílíkur kuldi. Atlanshafið í allri sinni dýrð beint innaf úthafinu. Það voru ekki tekin mörg sundtök, en ofaní fórum við, allt nema hausinn. Það var svo kalt að maður fékk stingi í lappirnar, svipað og nálardofa og meira að segja í rassinn þar sem fitulagið er nú í nokkuð góðu lagi. Þarna rennur á niður í sjó og JJ fór í hana, sagði að þetta væri eins og að fara í heita pottinn eftir sjóinn og reyndi að veiða silung eða lax með berum höndum. Vildi endilega hafa einhverja krassandi veiðisögu fyrir karl föður sinn, sem hann vissi að myndi sko líka það vel að lenda í þannig ævintýri. Við sulluðum svo þarna á annan tíma og ákváðum svo þegar klukkan var farin að ganga 19.00 að drífa okkur heim. Týndum saman dótið okkar og uppgötvaði sonurinn þá, þessi sem er líkur föður sínum, að skórnir voru einhversstaðar þar sem hann hefði hent þeim af sér þegar hann kom niður í sandinn. HHHMMMM og hvar var það, það var þar sem enginn sjór hafði verið þegar við komum á staðinn, en nú........ hann hljóp sem fætur toguðu þangað sem hann taldi sig hafa skilið þá eftir kom svo sigri hrósandi á móti mér, en eitthvað fannst mér svipurinn vera tvíræður. Mikið rétt, skórnir, með sokkunum inní, höfðu greinilega fengið sinn skerf af sjó og sandi. Lílega hefur einhver góðhjartaður einstaklingur bjargað skónum á þurrt, því annars hefði þeim líklega skolað á land á Íslandi eða Hjaltlandseyjum.

Finnur hringdi svo í okkur þegar við vorum rétt komin ofan í göngin og bauð okkur að koma til Sigtórs og Ann, þar væri nóg að bíta og brenna. Ég sagði honum að þau yrðu þá að taka okkur eins og við værum, nýkomin úr sjónum. Hann taldi að þetta fólk myndi alveg þola það. JJ fannst mikið fjör í því að fara í fötin í bílnum og að móður sín hafði algjörlega fataskipti, sjáið til sundfötin mín voru sko orðin þurr en ég kunni ekki við það að mæta í þeim í skírnarveislu guðdóttur sonar míns. JJ spurðið hvort að það væri vegna sjálfrar mín eða Finns vegna. Við stoppuðum á bak við Statoil og vanir menn eins og ég var ekki í vandræðum með að skipta um föt svo lítið bæri á.

Í veisluna mætti með hefðbundnum hætti eða þannig, JJ skólaus og ég með hárið eins og, já nýkomin úr sjónum. Yndislegt fólk sem tók á móti okkur og borðið sligað af brauði og tertum. Eftir frábærar móttökur og við búin að kýla kviðinn enn og aftur, börnin orðin úrvinda af þreytu, var haldið heim á leið. Ánægð og södd eftir frábæran dag. Ætlum að eiga fleirri svona extreme daga.

Annars hafa dagarnir liðið eins og áður segir, ég hef verið mikið heimavið, passa barnabörnin, þar sem dagmömmurnar eru komnar í sumarfrí og Guðrún vinnur alltaf nokkra daga í viku og stundum um helgar. Finnur á fullu í handboltanum og brjálað að gera í vinnunni, mikið um hátíðir og Ólavsvakan framundan. Var reyndar Víkingahátíð í Götu um helgina og við JJ kíktum og hittum á Hafstein og Úlfar. JJ lét loks verða af því eða öllu heldur ég lét loks undan að hann fengi að kaupa sér hring með rúnaletruðu nafninu sínu á. Núna fékk hann sér nafnið Jóhann en ætlar að fá sér annan hring með Júlíus á þegar hann verður aðeins eldri. JJ hefur enn ekki eignast neina vini hér í nágrenninu og því mikið með mér og reyni ég að standa mig í að gera eitthvað skemmtilegt, annað en að horfa á sjónvarp eða DVD, því það gæti hann gert alla daga, allan daginn, en ég verð gráhærð þegar sjónvarp á í hlut. En það er erfitt að reyna að henda honum út ef það er ekkert til að vera við úti. En það vonandi lagast núna þegar sumarfríin eru að verða búin og fólk að koma heim aftur úr ferðalögum. Hann fer reyndar í sumarbúðir næsta sunnudag og verður í viku. Vonandi kynnist hann einhverjum hér úr nágrenninu þá. Þar verða bara 11 ára krakkar, jafnaldrar hans víðsvegar að.

Svo nú sitjum við hér heima í brjáluðu veðri og bíðum og bíðum og bíðum. Finnbogi átti sem sagt að koma í gærkveldi, mánudagskvöld, en vegna óveðurs þá er hann ekki enn kominn. Þetta má maður búast við, svona vikunni fyrir Ólavsvöku segir Finnur. En Færeyjingar láta ekki veðrið koma sér úr jafnvægi, heldur halda ótrauðir í að undirbúa stærstu skemmtun sumarsins, sem er eingöngu í Þórshöfn. Við JJ erum búin að hlakka mikið til að fá Finnboga til okkar og einhvernveginn er allt á hold þar til hann kemur. Svo þegar maður er búinn að stilla sig inná einhvern tíma, þá lekur úr manni allur vindur þegar það gengur ekki upp. En það þýðir ekki að láta deigan síga, það styttir alltaf upp og því þarf maður bara að gera eitthvað skemmtilegt á meðan við bíðum. Það hvín og syngur í vindinum og öðru hvoru kemur smá sólarglæta í gegnum skýjarþykknið og það er frekar lágskýað sem er afar slæmt fyrir flugið. En hann er komin í loftið og nú segir nýjasta færslan að hann skuli lenda kl. 14.43 að staðartíma, eða er það á staðartíma?? 

Skiptir ekki máli, er farin í sturtu, geri mig klára og huggulega, og syng hástöfum: ÉG ER HÝR OG ÉG ER GÓÐ - FINNBOGI KEMUR HEIM... ÉG ER GLÖÐ OG ÉG ER GÓÐ - FINNBOGI KEMUR HEIM...

Því að heima er þar sem hjartað er, ekki satt. Mitt hjarta og hans.

Guð blessi ykkur öll nær og fjær.


Sundlaugar og sólarsamba

Eins og áður hefur verið getið þá er ekki mikið um sundlaugar hér í Færeyjum. Og þær sem eru, eru ekki uppfullar af heitu og notalegu vatni, hvað þá að hér geti maður valið um heita potta, eftir hitaþörf hvers og eins. Ó nei, hér kostar að hita upp vatnið eins og var heima á síðustu öld, það muna þeir sem eru eldri en tvævetra og muna eftir því þegar farið var í bað einu sinni í viku eða svo. Nú með sundlaugarnar. Við JJ ætlum að leggjast í leiðangur um eyjarnar næstu daga og finna og prófa þær laugar sem til eru á klasanum og veita upplýsingar um þær og gefa einkunn. Þess má geta að við höfum eingöngu farið í sundlaugina í Þórshöfn og þar í hverjum búningsklefa fyrir sig er stærðar gufubað þar sem fólk fer í eftir sund og nær upp hita og þurrkar sér eftir sundið. Nokkuð sniðugt.

Nú auðvitað erum við íslendingarinir komnir með pott í garðinn. Takið eftir ég sagði ekki heitan pott í garðinn, heldur pott. Finnur keypti sér fyrir þó nokkru plastsundlaug á útsölu og ákávðum við að ráðast í að setja hana upp s.l. sunnudag þar sem veðrið var með þvílíkum eindæmum. Sól og steikjandi hiti. Hafist var handa að velja staðinn, mæla út og svo sópa vel undir. Það er semsagt malbikaður garðurinn hjá syni mínum. Já, já, ég veit, draumur margra karlmanna en nálgast guðlast hjá mörgum konum. Hvað um það, þetta hentar vel hérna og rammlega gyrt í kring með hárri netagirðingu. Hér var dagmamma áður fyrr. Aftur að sundlaug okkar íslendinga. Hún er 3,6 m og tekur 5600 lítr. af vatni. Hreinsidælubúnaður fylgir og yfirbreiðsla og hún er blá. (vonandi fer ég að læra það að setja myndir inn fljótlega og þá munu herlegheitin sjást.) Við hófumst handa um kl. 11.00. kl. 14.00 var komið nokkra cm djúpt vatn í pottinn og þannig rjátlaði vatnið í pottinn fram eftir degi, þannig að seinnipart var hægt að fara ofan í og sulla aðeins. En það tók heila 10 klst. að fylla laugina og var því komið kvöld þegar hún varð loksins full og dælubúnaðurinn kominn á sinn stað. En sullað gátum við aðeins í sólinni og sopið hveljur, því ískalt var vatnið sem fór í.

En við erum jú íslendingar og sólin hefur leikið við okkur síðan um helgi. Við JJ höfum farið í laugina á hverjum degi, sullað aðeins og látið okkur hafa það að fara í kaf. En kalt er það. Sólin ein sér um að hita upp vatnið, sem er ryðrautt á lit. Leiðslurnar hérna eru orðnar frekar lélegar og þarf að skipta þeim út. (það bíður eftir Finnboga verkstjóra eins og svo margt annað).

Spurst hefur út um laugin, því tveir guttar komu til Finns og spurðu hann hvort að þeir mættu fara í laugin og var leyfið veitt með því skilyrði að hann eða ég, fullorðnir, værum á staðnum og fylgdumst með. Þeir stóðu við það og biðu lengi vel eftir að við gátum gefið okkur tíma, því að við vorum að moka þá útúr gámnum og leita að grindunum í grillið góða.

Niðurlag þessa pistils er því að það þýðir ekkert að gráta heitu pottana heima á íslandi og sundlauganna allra eða drolli í sturtum, heldur bjarga sér.

Eins og máltækið segir: Hafa skal það sem hendi er næst og hugsa ekki um það sem ekki fæst.    Það segir tengdamamma amk og hún veis sko hvað hún syngur.

Guð blessi ykkur öll nær og fjær


Bollur, súkklaðiálegg og gámurinn

Jæja elskurnar mínar, þið sem voruð orðin úrkula vonar um að heyra frá mér meira eða voruð orðin áhyggjufull um að ég væri sest að í sumarbúðunum getið andað léttar. Ég er komin heim, full gleði og þreytu eftir dvölina í Zarepta.

Bollur, bollur, bollur.... Fyrsta daginn minn á Zarepta var ég í því að taka á móti bollum, skyldi ekkert í þessum bollu mokstri, fólk kom inn að baka til, brosandi út að eyrum og rétti mér poka fulla af bollum. Ekki það að það væri bolludagur hér í Færeyjum, veit reyndar ekki enn hvort að þeir séu með bolludag yfir höfuð hér, en bollur steymdu inn. Ég frétti svo hjá Finni að það hefði spurst út að það væri bollulaust á Zarepta og ný lega (vikudvöl) að hefjast. Þá fór af stað bylgja af sms, hringinum og email sendingum til allra kvenna og karla sem baka bollur (það gera reyndar allir í Færeyjum) og það semsagt skilaði sér, því inn streymdu bollurnar. Hér í Færeyjum leggur þú ekki kaffibrauð á borð nema þar séu meðtaldar heimabakaðar bollur, hvítar n.b. því þeir sem reyna að setja einhverja hollustu í sínar, fengum nokkrar þannig, fá ekki háa einkunn. Þeir eru hreinlega ekki borðaðar og þýðir ekki að leggja á borð, amk. ekki á Zarepta sögðu þær mér í eldhúsinu. 

En starfið hér á Zarepta er alveg meiriháttar og var frábært að fylgjast með krökkunum hérna, reyndar var ég í eldhúsinu frá kl. 08.00 - 23.30 alla daga, fengum einn til tvo tíma í pásu yfir daginn og þá var hann nýttur eftir þörfum. Jóhann Júlíus fílaði sig mjög vel og vissi ég varla af honum. Eina sem ég hafði áhyggjur af var maturinn. Kom mér sífellt á óvart.... Hafragrautur á morgnana, nema hvað, brauð og te. Brauðið var rúgbrauð (eins og maltbrauðið heima) og svo heitar bollur eða fransbrauð....og hvað vildu börnin, nú auðvitað heitt og mjúkt fransbrauð frekar en rúgbrauðið eða heitar bollur og sultu ofaná, minnti mig á afa Magnús, hann hefði fílað að vera hér í fæði og svo var það súkkulaði áleggið, bæði í þunnum plötum og svo heimagert súkkulaði smjör. Þá gekk nú alveg fram af mér. Smjör, kaksó og flórsykur hrært saman, þetta ofaná heitar bollur.... og reyna svo að bjóða þeim eitthvað hollara með, gleymdu því. Ég var eitthvað að reyna að koma því að að hafa bara rúgbrauð einn morgun, en þær sýndu mér það svart á hvítu að börnin borðuðu nánast ekkert annað en þetta, auðvitað ekki ef það var á borðinu..... Jæja, ég var þarna aðkomandi til þjónustu en ekki til að umpóla eldhúsinu, en mikið sem mig klæjaði í fingurnar og munninn. 

Þessar sumarbúðir eru reknar á sjálfboðavinnu fólks og gjöfum, það fann ég vel fyrir þarna og það af hversu mikilli umhyggju fyrir að allt væri í lagi og að nóg væri að bíta og brenna, snerti við hjarta mínu þegar ég fór að átta mig á þessu öllu saman. Þarna kom að fólk og matur í stórum stíl, bollurnar voru bara upphafið, einstaklingur fara út í búð og kaupa inn, brauð, álegg eða bara hvað sem er, í stórum stíl og láta senda til Zarepta. Ungar stúlkur komu færandi hendi með heimabakaðar skúffukökur á kvöldin, því þær vissu hvað féll í kramið með kvöldkaffinu. Einn sjálfboðaliðinn sem var þarna þá vikuna sem ég var, var í því að keyra um eyjarnar og taka saman matargjafir og koma með þeir, þetta er stórt net sem hefur verið staðfast og stækkað s.l. 40 ár og þeir sem dvöldu hér sem börn leggja ekki síst á sig hvort sem er vinna eða sendingar. Ég upplifði það þannig að það hefðu nánast allir Færeyjingar dvalið meira og minna, hvort sem börn eða í fjölskyldudvölunum. Því hér eru líka fjölskylduvikur. Þá koma hjónin með börnin sín og dvelja í viku. Við JJ vorum síðasta sumar með Finni og fam. í eina viku. Vakin á morgnana eins og börnin með harmonikku spili og söng starfsmanna.

Þessu viku sem vorum núna við JJ kynntist ég alveg frábæru fólki og skemmtilegu. Þarna voru tvær Katrínar og einn Pétur sem voru svona í forsvari fyrir matargerðinni (stjórar) eins og þau kölluðu hvort annað. "Hver er stjórinn yfir hafragrautnum" var spurt. "Ta er jeg" hvein þá í 19 ára Pétri. Svo voru nokkrar konur þarna líka ásamt mér, dvöldu reyndar mislengi, en við Ruth, Lis og Margit dvöldum allan tímann. Karen hin danska var svo yfir krökkunum sem voru að uppvarta í matsalnum sjálfum. Læknisfrú harðfullorðin, dönsk, alvarleg doltið, en var alltaf að, allt í rólegheitunum og vildi hafa hlutina huggulega. Svo voru hjónin Ólafur og Kristin yfir uppvaskinu. Hann fyrrum pólitíkus, sjómannasambandsmaður og skrifar æviminningar og afmæliságrip. Mikill vinur Óskars heitins sem var fyrir sjómannasambandinu heima og Hafnfirðings.

Allir höfðu mikla skemmtun af því að kenna mér færeysku, með ýmsum hreimum, ekki sama hvort maður kemur úr eyjunum eða vestra, hvað þá suðureyjum. Sem Vogeyjarbúi þá segir maður Neeí og fer upp á síðasta staf nú Klakksvíkingarnir, sem voru í meirihluta þarna, segja Noj og fara sko ekki upp. Svo voru það öll áhöldin. maður síður matinn í grýtu (potti), pissar í pott (koppur) drekkur kaffi úr koppi (bolla) ber hafragrautinn fram í bolla (skál) svo fer maður inní kamarið (herbergið) leggur sig í sængina (rúmið) breiðir yfir sig dýnuna (sængina) þetta vakti mikla kátínu og í lok vikunnar voru allir í eldhúsinu farnir að leggja sig ofaná dýnuna og undir sængina.

Eitt óhapp þ.e. hjá okkur JJ, átti sér stað á miðvikudeginum, hann var úti á hoppudýnunni og lenti illa ofaná hægri fæti utan við dýnuna. Við vorum mest hrædd um að hann hefði ristarbrotnað og kom Finnur og fór með okkur á slysó í Þórshöfn. Við vorum rétt komin með Færeysku kennitöluna sem betur fer. Jæja, nema hvað að þarna komum við um kl. 21.00 og á móti okkur tók danskur læknir, sem betur fer var Finnur með okkur og túlkaði. Nú drengurinn var sendur í röntgen og þar tók á móti okkur stúlka, nema hvað, myndaði hann í bak og fyrir og dreif sig svo aftur heim. Þarna er ekki mikið um að vera og því er fólk á bakvöktum og kallað til þegar á þarf að halda. Finnur fór og keypti fyrir okkur súkkulaði. kaffi og kakómjólk til að við hefðum eitthvað að bíta og brenna á meðan við biðum eftir öllu því sem þurfti að gera, hann er semsagt heimavanur þarna á bráðamóttökunni og er vanur mikilli bið. En viti menn við þurftum að drekka kaffið á hlaupum svo hratt gekk þetta allt fyrir sig. Við vorum reyndar skömmuð fyrir að dæla í drenginn, eldri hjúkrunarkona kom að okkur að vera að svolgra þessu í okkur á biðstofunni og las okkur Finni pistilinn þar sem hann mætti alls ekki fá neitt fyrir en vissa væri fyrir því að hann þyrfti ekki að fara í aðgerð. (auðvitað) og við skömmuðumst okkur niður í skóna, bæði með töluverða reynsla af þessum hlutum og áttum því að muna þetta. Jæja, tveir kvennlæknar færeyskir fóru svo yfir myndirnar með okkur, frábær tækni í dag, skoðað í tölvu fram og til baka og ekkert brot. Slæm tognun og þá kom þessi elska sem skammaði okkur Finn, vafði fótinn á JJ með þvílíkri alúð og nærgætni, sýndi honum hvernig hann skyldi nota hækjurnar og lá við að hún kyssti hann bless. En fóturinn greri skjótt og var hann farinn að hlaupa um eftir 1 dag á hækjum. Er reyndar alveg rosalega skemmtilegur á litinn, blár, fjólublár, grænn og ekki frá því að gulu bregði fyrir, eins og fallegt litaspjald.

Gámurinn... við erum búin að opna gáminn og taka út grillið og eitthvað af smádóti, eftir því sem kemst inn hjá okkur. Við stefnum að því að vera búin að koma grillinu í lag fyrir næstu helgi, en þá er vesturstefnan, einn af riðlunum í róðrakeppninni sem endar svo á Ólafsvöku sem verður í lok mánaðarins. Vesturstefnan verður hér í Miðvági og koma því gestir til Finns og Guðrúnar og dvelja hérna hjá okkur yfir helgina. Það var sko ekki einfalt að ná grillinu út og kostaði það mikil átök og útsjónarsemi, enda ber búkur frúarinnar þess merki, bæði í auknu litaúrvali á hinum og þessu stöðum og eymsli hér og þar. Þurfti ekki að fara í ræktina þann daginn.

Læt þetta duga að sinni - þarf að sinna smá skipulagsmálum í þvottahúsinu og mála svalirnar. Þess má geta að hér skýn sól og hefur skynið frá því um helgi. Cool

Guð blessi ykkur öll.


Höfundur

Sólveig Birgisdóttir
Sólveig Birgisdóttir

Fann gamla bloggið mitt og ákvað að hripa eitthvað inn. Verður framhald..... Það verður framtíðin að leiða í ljós.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

33 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband