11.1.2009 | 22:35
Fögur fyrirheit og fjölgun
Þá er fyrsta heila vikan liðin og allt að falla í fastar skorður. Handboltinn kominn á fulla ferð og skólinn hjá Jóhanni Júlíusi. Finnbogi vann sína fyrstu fullu vinnuviku í Kovanum við smíðar og hrognin eru að koma, kerin gerð klár, þúsund þorksar á færibandi þokast nær. Svo hljómaði textinn einhvernveginn hjá Bubba sem er væntanlegur til Færeyja með tónleika í lok janúar. Hér er talað um kreppu eins og heima og fyrirtæki að draga saman seglin og reyna að haga þeim eftir vindi. Ekki mikið framboð af vinnu, ja nema að maður sé pedagogur, félags-, þroskaþjálfi eða eitthvað þvíumlíkt sem ég hef ekki til að flagga. Var samt að spá í að leggja inn umsókn og láta fylgja að það sé mikið um pedagoga í fjölskyldunni, hvort að það væri ekki næganlegt. Nei, segi bara svona. Ég er nú svo svakalega afslöppuð í vinnumálunum, hef nóg að gera í handboltaþjálfuninni, öll kvöld bókuð og nánast allar helgar fram að páskum.
Eins og svo mörg áramót þá ræddum við fjölskyldan um betra líf og blóm í haga, heilbrigðari lifnaðarhætti og það sem mætti laga. Fögur fyrirheit sumsé um hollari matarvenjur og meiri hreyfingu. Það er svo skítið hvað áramótin eða öllu heldur lenging dagsins hefur góð áhrif á mann. Amk. hvað mig varðar. Mér finnst alltaf yndislegt að sjá dagrenninguna ekki það að ég sé eitthvað niðurbeygð í skammdeginu, það er bara svo gott að fá sér gott í kroppinn.... ég meina sólarvítamín haha. Við hjónin vorum að horfa á Næturvaktina og svo Dagvaktina, alla þættina, í fyrsta skiptið, þvílíkt og annað eins. Nú skilur maður betur frasana sem fólk var að bera fyrir sig í tíma og ótíma. Já sæll, eigum við að ræða það eitthvað frekar og Georg Bjarnfreðarson, við erum búin að liggja í kasti yfir honum, þ.e. Næturvaktarþáttunum sérstaklega, mér fannst Dagvaktin vera út úr kú. Við Finnbogi erum viss um það að Jón Gnarr hefur verið í læri hjá einum af okkar fyrrum nágrönnum. Hvaðan.... það verðið þið að finna út.
Og nú fjölgar í fjölskyldunni hérna í Færeyjum. Já, já, lengi er von á einum. Hjá Finni og Guðruni, nei, amk. ekki svo ég viti, þau eru í góðum málum með sín tvö eins og er. Það er hjá okkur gömlu sem er að fjölga..... Hund, nei við erum ekki að fá okkur hund, hænur né rollur. haha. En það kemur örugglega þegar við erum búin að semja við tengdadótturina og soninn um skika af lóðinni. Nei, hann Annel Helgi Finnbogason er að flytja til okkar, aldraða foreldra sinna og bræðra, svona til að breyta til. Hann er nú orðinn 22 ára gamall og í góðum gír, langar að spila fótbolta og komast í einhverja vinnu hér. Auðvitað er ég búin að bóka hann á æfingu strax á miðvikudaginn, hann kemur á morgun. Ég var að spyrja eldri strákana sem ég er að þjálfa öðru hvoru, þeir eru nefnilega meira í fótbolta en handbolta og koma á æfingar með okkur einu sinni í viku, hvernig væri með æfingar hjá fótboltanum og þeir urðu allir ein augu og eyru. Ég sagði þeim að stjúpsonur minn væri að flytja til okkar og spilaði fótbolta. Þeir spurðu hvort að hann væri góður, ég sagðist ekki hafa vit á fótbolta, en hann væri í rosalegu formi og hrikalega hress. Ekki spurning að hann ætti að koma og æfa með þeim, þeir væru með betri völl en MB. haha. Já það verður bara gaman að fá hann og fylgjast með honum í boltanum og hvernig hann fellur inn í rólegheitarlífið hér í Færeyjum. Og hratt flýgur fiskisagan, því í gær á handboltamóti hjá Jóhanni Júlíusi, þá spurði ein mamman Finnboga um soninn sem væri að flytja, hvað hann væri gamall, hvort hann væri einhleypur og ýmislegt í þeim dúr, það eru margar frambærilegar stúlkur hér í sveitinni. Íslendirngar eru nefnilega þekktir fyrir herramennsku og að vera miklir sjarmörar... verð að blogga um aðalsjarmörinn hann Finnboga við fyrsta tækifæri. Jú sjáið til hann er annálaður hér í sveitinni fyrir sjarmörheit. Meir um það síðar.
Guð blessi ykkur nær og fjær.
Athugasemdir
Sælt veri fólkið mitt! Það kemur mér ekkert á óvart að tengdasonur minn sé orðinn heimagangur á bæjunum þarna,hitt hefði mér þótt alvarlegra ef hann ætti erfitt með að kynnast nágrönnunum!! Hafið þið heyrt í Sverrir í Kirkjubæ á nýja árinu? Þau hefðu örugglega gaman að koma í kaffi til ykkar einhvern daginn! Hvernig líst Annel á sig þarna. Kom ekki allt til skila í töskunni? Ég er að fara í sjúkranudd í fyrramálið svo það er best að koma sér í rúmmið Guð gefi ykkur góða nótt og fallega drauma (fékkstu fallega mailið frá mér) koss og knús til ykkar allra mamma
Inga Mamma amma langamma (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 23:58
Það þarf nú engar mömmur í Færeyjum til að segja okkur að hann Bogi okkar sé stórsjamör, vissum við það ekki..!!??
Hafið það sem best gullin mín,
Kolla
Kolla (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 08:48
Jú allt skilaði sér og takk fyrir tölvupóstinn. Mikill fögnuður var þegar tekið var uppúr töskunni góðu. Farið verður með það sem gull og algjört bann lagt á að bruðla með góssið. Annel var mikið þreyttur og voru þeir bræður báðir komnir snemma í rúmið, eins og englar báðir tveir að sjálfsögðu. Takk kærlega fyrir okkur. Sverri hef ég ekki heyrt í en það er á planinu.
Það er rétt Kolla, við vitum vel hvað hann Finnbogi er mikill sjarmör. Sömuleiðis hafðu það sem allra best.
Sólveig Birgisdóttir, 13.1.2009 kl. 09:21
Hæhæ færeysku innflytjendurnir
Þetta er aldeilis fín höll sem þið hafið búið ykkur til, Finnbogi lætur þetta líta út sem lítið mál. Við erum ennþá að reyna að ákveða hvernig glugga við eigum að fá okkur í húsið hér fyrir norðan, Finnbogi væri líklega búin að byggja nýtt hús á þeim tíma....
bið kærlega að heilsa öllum
(og kreppukrílið er frumburðurinn, en ég víst að gjóta í apríl n.k. Mikil spenna hér)
gunnhildur frænka (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 19:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.