Leita í fréttum mbl.is

Hafhestar og hérasteik

Þrettándinn og ég ekki í Hafnarfirði. Það verður örugglega ekki mikið líf þá í miðbænum. Annars veit ég nú mest lítið um það, hef ekki verið viðloðandi þrettánda"skemmtun" Hafnfirðinga frá því að ég var unglingur. Eina skiptið sem ég var keyrð heim af lögreglunni, þótt ég hafi ekki gefið upp nafn og ætlaði sko ekki að láta þessa kauna eyðileggja fyrir mér kvöldið, þá þekktu þeir á mér svipinn og.... beina leið heim. Svo vorum við nú svo vel staðsett þegar ég var að alast upp, við vorum algjörlega í beinni þegar þegar atorkumestu létu m.a. bát flakka niður Reykjavíkurveginn eða kveiktu í tunnum og þær látnar rúlla og svo var hlaupið og stokkið yfir garða og grindverk. Sögur herma að þegar Fiddi var settur á þrettándavakt hjá bænum og Hansi kominn í lögguna, voru þeir tveir langt á undan spellvirkjunum, stoppuðu íkveikjur og önnur uppátæki, enda sérfræðingar á ferð.

Hér á bæ er búið að pakka jólunum og kassarnir bíða bara eftir að komast í gáminn, sem stendur hér fyrir utan og er algjörlega nauðsynlegur til að geyma eitt og annað í. Verður sjálfsagt yfirbyggður og stækkaður einhverndaginn. Heimilið er að taka á sig eðlilega mynd og frúin að byrja að skipuleggja sig og gera eitthvað gagn svona á daginn. Drengurinn byrjaður í skólanum og húsbóndinn í vinnu, allt á slaginu átta í gærmorgun. Guðrun tengdadóttir er orðin dagmamma og er með sín tvö og svo koma tvö önnur, þannig að það er líf og fjör á efrihæðinni alla daga. Amma gamla á neðri hæðinni og tekur á móti bóndanum í hádeginu, með síld og heimabakað brauð. Ekki slæmt.

Eins og ég hef áður nefnt þá eigum við frábæra nágranna, þau Jón Pétur og Unu. Jón Pétur hefur verið okkur einstaklega hjálplegur með eitt og annað á byggingatímanum. Finnbogi var svo að hjálpa honum að "slagta og fletta" slátra og flá lömb. Hér er þetta gert bara heima í húsi, svo það er mikið fjör og handagangur þegar flettitíminn byrjar. Og allir karlmenn niður í 4 ára eru með að slátra og fletta. Þykir bara sjálfsagt að börnin alist upp við þetta. Við fengum efni í slátur hjá honum og var gert slátur hér á íslenska mátann og að sjálfsögðu soðin niður hamsatólg. Þeir nota garnatólg og held ég að ég sleppi því að lýsa hvað fer í þá tólg, en hún er sjálfsagt meira í ætt við vesfirsku tólgina. Amk ákvað ég að hafa þetta bara hreina hamsa þetta árið.

2 jan. var okkur boðið í havhesta hjá Jóni Pétri og Unu. hhmmm já, það eru sko fílsungar eða múkkaungar, sem voru snaraðir í ágúst, áður en þeir urðu fleygir. Þeir eru kalónaðir og settir í saltpækil eins og við gerum við hrossakjötið. Svo er þetta soðið í einhverjar klukkustundir og etið með soðnum kartöflum. Maður verður bara að vara sig á því að borða ekki fituna né skinnið, þá er þetta alveg ágætt, nauðsynlegt að kyngja þessu með bjór. Fyrsti bitinn minnti mig á selkjöt sem ég fékk hjá Erni bónda í Húsey þegar ég var þar í vist 14 ára. Þetta er alveg þess virði að borða einu sinni á ári, svona uppá stemmninguna. Eins og tengdamamma myndi segja, doltið prímitíft. Ekkert pjátur né postulín, best að nota vasahnífinn, rétt eins og þegar við fórum til þeirra í ræsta kjötið, það var líka upplifelsi fyrir sig, soðið og borið fram með soðnum kartöflum, gulrótum og rófum. Engar sósur eða salöt. Húsbóndinn brytjaði kjötið í sína fjölskyldu en við JJ máttum bara bjarga okkur sjálf, Finnbogi ekki alveg inná þessu að brytja í mannskapinn... haha.

3 jan. var mikið að gera í hanboltanum. Báðir strákaflokkarnir hjá mér kepptu þann daginn. 10 ára hér heima og spiluðu tvo leiki, einn jafntefli og unnu einn. Svo mátti ég bruna til Þórshafnar með JJ og 12 ára flokkinn, hann er útispilari hjá þeim og er hörkugóður í vörninni og hefur gott auga fyrir sóknarleiknum, en soldið hægur ennþá, en það kemur. Þeir unnu sína tvo svo að við gerðum það gott þann daginn.

4 jan. var okkur svo boðið í hérasteik heima hjá Allan og Jóhönnu, hún spilar hjá mér í 1 deildinni og hann er í stjórninni hjá SÍF/Sóljan, sem ég þjálfa hjá, svo æfir strákurinn þeirra hjá mér, hann er 12 ára og dóttir þeirra með 1 deildinni, já með móður sinni. Finnbogi fór með honum ásamt fleirrum á héraveiðarnar. Hérinn er látinn hanga í nokkra daga og svo flettur og hreinsaður, brytjaður gróft niður og steiktur svo í svörtum potti í ofni. Létt kryddaður en mikið lagt upp úr sósunni. Finnboga fannst þetta minna sig á rjúpu, en mér fannst það nú ekki, ekki það að ég sé neinn rjúpusérfræðingur, en bæði gæs og rjúpa eru bragðsterkari. Jóhanni Júlíusi fannst þetta mjög gott, einfalt og gott, soðnar kartöflur voru meðlætið og sulta að sjálfsögðu. Svo var setið og spjallað fram eftir degi, etinn desert, drukkið kaffi og kökur. Það er alltaf mikið líf og fjör heima hjá þeim hjónum, hef komið til þeirra nokkrum sinnum í kaffi og mat og það er alltaf öll stórfjölskyldan, hún á ennþá afa og foreldra á lífi og tengdaforeldra, svo kemur móðirbróðir hennar sem er giftur einni sem spilar með 2 deild ásamt tveimur dætrum sínum. Synir þeirra eru svo í flokki með Jóhanni Júlíusi, annar jafngamall og hinn ári eldri. Mér líður bara eins og ég sé heima þegar verið er að "ræða" málin, bíð spennt eftir næstu kosningum, þá verður örugglega líf við matarborðið sem er mjög stórt og margir geta setið við. Öll hafa verið meira og minna í handbolta og róðri og heimsótt Ísland og keppt. Nema afinn, hann var aftur á móti við veiðar á Íslandi í mörg ár. Já hér á fólk orðið í manni hvert bein og allir hafa einhverja tengingu við Ísland. Í Bónus og FK er okkur heilsað og sumir spjalla, allir vilja vita hvernig okkur líður og hvort að við séum ekki komin á pláss, eins og þeir segja, eða falla inn. Hvernig sé með vinnumálin og hvort að við séum virkilega búin að innrétta kjallarann. Já það er ekki slæmt að vera hér í rólegheitunum og byggdarlífinu.

Ég bið góðan Guð að blessa ykkur öll nær og fjær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sólveig Birgisdóttir
Sólveig Birgisdóttir

Fann gamla bloggið mitt og ákvað að hripa eitthvað inn. Verður framhald..... Það verður framtíðin að leiða í ljós.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

33 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband