5.1.2009 | 16:47
Ræst súpa og héraveiði - allt í beinni.
Gleðilegt nýtt ár öll sömul. Ég vona að þið hafið haft það gott og gleðilegt um hátíðirnar. Við hér í Færeyjum höfum haft það ljómandi gott. Enn ein jól og áramót með öðruvísi sniði og er það bara hið besta mál. Kynntumst nágrönnum okkar aðeins betur og eins nýjum mat, ekki nýjum í skilningi þess að vera ferskur, heldur nýtt bragð og eitthvað sem maður hefur ekki smakkað áður. Aðfangadagur var mjög afslappaður, þrátt fyrir að við vorum ellefu manns og eins jóladagsmorgun. Eins og áður hefur verið getið þá gisti tengdafjölskyldan hans Finns hér hjá okkur og var það mjög notalegt. Þeir gefa sko ekkert eftir í möndlugrautnum hér frekar en heima á Íslandi. haha. Við fórum svo heim til tengdaforeldra Finns á annan í jólum, þau búa í Þórshöfn, þar fórum við í fótbolta og svo góðan göngutúr eftir matinn um hverfið sem heitir Argir. Mjög notalegt hverfi með mikið af gömlum fallegum húsum. Var sjálfstætt sveitafélag þar til það var sameinað Þórshöfn fyrir nokkrum árum.
Nú svo átti frúin afmæli að vanda þann 29 s.l. Lítið var um dýrðir, en húsbóndinn hafði brugðið sér á héraveiðar með vinum okkar úr Sandavági. Þeir fóru þ. 28 og komu 30 til baka. 15 hérar og 5 karlmenn. Nú ég gerði ráð fyrir að hérapels yrði gjöfin í ár, en það var ekki svo gott, hér nýta menn bara kjötið. Finnbogi hafði það á orði að aldrei hefði hann kynnst sterkari fótafýlu af ekki stærri hópi og taldi að allt kvef og aðrar bakteríur hefðu horfið hið snarasta og menn fljótir að sofna á kvöldin. Og ekki var maturinn heldur til að veikja menn, því að étið var lambalæri sem skilið var eftir í október upp á efsta lofti í húsinu þar sem þeir gistu. Fyrst var lærið kústað og mesta skánin skoluð burt, síðan brytjað niður í stóran pott og það soðið í tvo og hálfan tíma og borið fram með soðnum kartöflum. Fannst Finnboga litur þess vera mjög skrautlegur og bragðið eftir því. Þess skal getið að hann skaut engan héra sjálfur, en náði einum á handkraft úr holu. Ein úr handboltanum færði mér 2 lambalæri, af heimaslátruðu, í afmælisgjöf og verður gaman að smakka það við tækifæri.
Þann 30. þá fórum við hjónin ásamt Finni og Guðrunu á skemmtun í beinni útsendingu, þar sem valið var íþrótta- og tónlistarmenn ársins. Þarna fóru menn yfir það helsta í íþrótta- og tónlistarlífinu 2008 í Færeyjum. Þetta var heilmikil skemmtun og var Finnur tekin í viðtal ásamt öðrum úr landsliðinu. Auðvitað var hringt í frúnna, ekki bara einu sinni heldur tvisvar og náðist í nærmynd í seinna skiptið. En ég var að taka við afmælisóskum frá vinum og fjölskyldu og skammaðist mín ekki hót. - ja, kannski pínku.
Svo komu áramótin, með mikilli veislu og spenningi. Systkyni Guðrunar komu til okkar og eldaði Finnbogi matinn að sjálfsögðu, innbakaðar svínalundir og roastbeef. Okkur var síðan boðið á félagsbrennu og í ræsta súpu eftir miðnætti í þremur húsum. Við fórum hér fyrir ofan húsin, upp í hlíðina, en þar var lítil brenna svo horfði maður yfir allan bæinn og sá að búið var að kveikja elda meðfram vegum um allt, í áldósum, og ártalið í hlíðnni gengt okkur. Mér var óneitanlega hugsað til Akureyrar, nema hvað að hér voru engir skíðamenn á ferð, enda enginn snjór. Svo söfnuðumst við saman við fjósið hjá nágrönnum okkur Eyðdísi og Marner, búa hér ská fyrir ofan okkur og þar vorum við þegar áramótin gengu í garð. Mikið var skotið upp og Emma var í fanginu á ömmu sinni og fór hrollur um hana af kátínu og spennu yfir öllum þessum ljósum og hávaða og Aron Hans í fanginu á afa Finnboga. Þeir bræður Finnur og Jóhann Júlíus voru önnum kafnir við að sprengja og leiddist ekkert. Svo fórum við inn til þeirra og fengum eitt og annað að smakka, m.a. hrútakjöt af vetrargömlum og ræsta súpu. Mikið sælgæti, svo fórum við til læknishjónanna eða presthjónanna, hann er læknir og hún er prestur, og þar var heilmikið hlaðborð og ræst súpa fyrir þá sem vildu. Svo fórum við til nágranna okkar og vina Jóns Péturs og Unu og þar var líka ræst súpa, allt mjög gott. Ræst súpa er eins og kjötsúpa með engu kjöti, en soðið er upp af ræstu kjöti sem er öllu bragðsterkara en ferskt lambakjöt. Þetta átti mjög vel við okkur hjónin og eins Jóhann Júlíus, hann spilaði billjard við lækninn og son hans til klukkan að ganga fjögur um nóttina og fannst það ekki leiðinlegt. Skiptar skoðanir voru á hversu sterkt eða gott bragðið var á hrútakjötinu og til þess að taka allan vafa af því, þá bauð Finnbogi þeim uppá hákarl sem töldu að bragðið væri of sterkt af kjötinu. Það voru ekki margir sem voru eins hrifnir og húsbóndinn. haha.
Á nýjarsdag eldaði Finnbogi dýrindis fiskisúpu og tengdaforeldrar Finns komu og borðuðu með okkur. Síðan fórum við hjónin í langan göngutúr og ræddum um árið sem gengið er í garð og það sem liðið er. Við vorum sammála um að þetta yrði gott ár og við myndum vinna sigra. Í hverju, það kemur í ljós, en fari maður af stað með því markmiði, þá sigrar maður að lokum.
Guð blessi ykkur nær og fjær.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.