24.12.2008 | 14:18
Þorláksmessa í Færeyjum
Já það var auðvitað skötuveisla í gær, nema hvað. Finnbogi klikkar nú ekki á svoleiðis og að sjálfsögðu heimagerður þrumari og heimsgert hamsatólg. Við buðum nágrönnum okkar í veisluna og "dámaði" þeim þetta bara nokkuð vel. Við vorum líka með þurkkaða grind, sem Finnbogi "veiddi" í frystikistunni hjá Finni, en hann hafði fengið bita af grind fyrir ári síðan og frysti, þar sem hann er ekki mikið fyrir þurrkaða grind, að sjálfsögðu var grindarspik, hákarl og harðfiskur líka á borðum. Það vantaði bara íslenska brennivínið, en við vorum með Bornholms ákavíti í staðinn. Þetta var hin fínasta veisla og var mikið hlegið og spjallað. Svo fóru börnin á næsta bæ, eiginlega hálffullorðin, á þorláksmessurúntinn, en það er siður sem komst á fyrir um 20 árum síðan. Þann 23 kl. 23, fara allir sem vettlingi geta valdið á rúntinn, halarófa af bílum, flautandi og blikkandi ljósum. Við "gamla" fólkið héldum okkur nú heima, en horfðum á herlegheitin ofan úr stofu hjá Finni. Þetta var heilmikil bílalest og gekk mjög hægt. Svo stoppuðu þau á kajanum og slógu upp útiballi. Mér skyldist á dömunum hjá mér í boltanum að þær hefðu verið að til kl. þrjú í nótt. Ég hafði stutta æfingu núna kl. 12 í dag. Ég fór út að hlaupa með þeim og fékk því upplýsingarnar beint í æð.
Þegar ég var að hlaupa út úr húsi þá kom nágranninn og færði okkur skerpukjötslæri, sem er algjört sælgæti og mikil munaðarvara, og sagði að það væri hefð að borða fyrstu bitana af skerpukjötinu í hádeginu á aðfangadag. Við sátum því áðan og fengum okkur skerpukjöt og síld.
Núna ætti ég að vera að ganga frá rúmunum og klára að skúra, en datt þá um tölvuna og ákvað að senda smá pistil. Við eigum von á tengdafólkinu hans Finns. Þau borða hjá okkur hérna niðri og gista í nótt.
Finnbogi er að elda jólamatinn og hefur verið að síðan í morgun, tvær "dúnnur" endur í ofninum, með sinnhvorri fyllingunni auðvitað og Herborg, tengdamamma Finns, ætlar að elda tvær í ofninum hjá Finni, svo að það ætti að verða nægur matur handa okkur 11 sem verða hér í kvöld.
Já það er margt öðruvísi en heima og hér er það sjálfsbjargarviðleitnin og hugmyndaríkið sem gengur. T.d. höfum við ekki gert sjálf heimagerðan ís, amk. ekki í mörg ár né bakað rúgbrauðið ofl. sem við gerum hér og þetta er bara gaman. Finnbogi hefur sjálfur grafið lax og gert sósu sem verður forrétturinn svo verður rommrúsínuís og daimís á boðstólnum á morgun ásamt hangikjötinu. Möndlugrauturinn verður í kvöld að sjálfsögðu.
Jæja nú er mér ekki til setunar boðið lengur og verð að fara að gera eitthvað gagn.
Við óskum ykkur öllum gleði- og gæfuríkrar jóla og áramóta. Guð blessi ykkur öll nær og fjær.
Athugasemdir
Innilega til hamingju með afmælið þitt Sólveig mín. Við verðum með þér í andanum, lokum augunum og finnum bragðið af marenstertunni og syngjum afmælissönginn!!!! Slæmt fyrir þig að heyra ekki í okkur!!
Kær kveðja koss og knús Mamma og Pabbi
Inga Magg (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 16:04
Til hamingju með afmælið gamla, varð hugsað til þín í dag eins og reyndar jafnan þann 29. des. Að sjálfsögðu var ekki erfitt að finna þig.......Vona að þið hafið það sem best hjá vinum okkar í Færeyjum. Afmælisknús og kær kveðja.
Ellý Erlings.
Ellý Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 23:41
Já en Jóhann Júlíus, Aron og stelpurnar í handboltanum sungu fyrir mig, bæði á íslensku og færeysku, þannig að ég fékk afmælissöngva. Elsku Ellý, takk fyrir afmæliskveðjuna, já við höfum það sko gott hérna. Þú nærð mér bráðum, eins og alltaf. haha.
Sólveig Birgisdóttir, 5.1.2009 kl. 15:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.