17.12.2008 | 14:10
Þrumur og þrumari - Hátíð ljóss og friðar
Í nótt voru þrumur og eldingar - skrítið að við skulum alltaf byrja á að segja þrumur, því að eldingarnar koma fyrst. Jæja, hvað um það, pottasleikir kom sumsé í þrumuveðri í nótt til Færeyja. Jóhann Júlíus og Aron Hans fara samviskusamlega að sofa á tiltölulega kristilegum tíma og reyna að haga sér sem skyldi, svo að þeir fái ekki kartöfu í skóinn. Þeir hafa sloppið hingað til. Í morgun var svo veðrið þokkalegt - á okkar mælikvarða, en veðrið hefur verið mjög rysjótt, ýmist úrhellisrigning og rok, hagél og fljúgandi hálka. Hér er ekki verið að salta neitt mjög mikið, það þiðnar og frystir á svo skömmum tíma. Því miður hafa verið nokkur umferðaróhöpp og slys á fólki, einn látist og nokkri alvarlega slasaðir. Oft fer maður um á 20 km. hraða þó svo að bíllinn okkar sé vel dekkjaður, þá er þetta ekkert grín í brekkunum og beygjunum hér. Sem betur fer þurfum við ekki að fara mikið um við Finnbogi, en Finnur er á ferðinni alla daga, hann er mjög góður bílstjóri og er á góðum bíl.
Nú það var þetta með þrumarann - ég er loksins búin að afreka það að skella rúgbrauði í ofninn í fyrsta sinn algjörlega ein - en auðvitað þurfti ég að hringja í mömmu í tvígang, svona til að fá handleiðslu frá fagmanneskunni. Við erum búin að versla allt inn sem hægt er með fyrirvara og erum tilbúin í að taka á móti jólunum þegar þau skella á okkur - algjörlega að óvörum eins og alltaf. hihi. Meira hvað tíminn líður fljótt, þó svo að maður sé "ekkert" að gera. Hér felst jólaundirbúningurinn aðallega í því að reyna að klára sem mest að því sem hægt er í íbúðinni. Við erum nánast búin að koma okkur fyrir, en það eru alltaf nóg af frágangsverkefnum sem liggja fyrir og hurðarnar fyrir sérsmíðuðu eldhús-, þvottahúsinnréttinguna og skápana eru settur á verkefnalista fyrir næsta ár. Finnbogi gerði sér lítið fyrir og smíðaði innréttingarnar með aðstoð tengdaföður síns, en mamma og pabbi voru hjá okkur í október og voru tekin í vinnu, að sjálfsögðu.
Núna sit ég í stóru borðstofunni minni, búin að koma húsgögnunum fyrir og raða inní skápana, setja upp jólaskraut og læt eins og regnið/élið (getur ekki gert upp við sig) sé jólahreingerning að ofan. Já okkur mannfólkinu veitti nú ekki af stundum. Ég var einmitt að segja Finnboga í gær að jólin væru ekki lengur hátíð ljóss og friðar, heldur hátíð matar, drykkja og verslana. Það gengur allt út á það að hafa nóg að bíta og brenna, fjöldi jólapakka og hafa eitthvað gott að horfa á í sjónvarpinu. Jesús gleymist eða er lagður til hliðar í öllu þessu og virðist ekki skipta svo miklu máli. Og hann sem fæddist og dó fyrir okkur. Ef við virkilega leggjum hugann við textann í Heims um ból í stað þess að syngja hann bara þá má okkur vera ljós boðskapurinn.
Heims um ból helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.
Það flækist stundum fyrir mér hvað niðurlagið þýðir. Ég fann þessa útskýringu á vísindavef H.Í.:
"Mörgum hefur orðmyndin meinvill í sálminum "Heims um ból" orðið að umhugsunarefni. Þar stendur:
Frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.
Lýsingarorðið meinvillur merkir 'fullkomlega ráðlaus, alveg villtur'. Mein- stendur þarna sem herðandi forliður með villur 'villtur', samanber að fara villur vega 'villast'. Í sálminum er því verið að segja að mannkindin, það er mannkynið, hafi legið fullkomlega ráðlaus í myrkrum. "
Ég held satt að segja þá liggjum við mörg ennþá fullkomlega ráðalaus í myrkrinu, reynum eftir fremsta megni að lýsa upp allt í kringum okkur með kertum og ljósum, ekki að það sé slæmt, síður en svo, ekki síst hjá okkur íbúðum í norðri þar sem sólargangurinn styttist og styttist, ekki miskilja mig. Heldur held ég að það sé miklu mikilvægara að við reynum að nálgast "frumglæði ljóssins", Jesú sjálfan og lýsa okkur upp hið innra. Þá lýsum við nefninlega að innan og út til þeirra sem við erum dagsdaglega með eða hittum á förnum vegi. Við sem búum við svona mikið myrkur, ekki síst á þessum tímum, getum lýst upp eins og Pólstjarnan þegar uppsprettan kemur frá "frelsisins lind". Það er svo mikilvægt hvað við nærum okkur á til anda, sálar og líkama. Við eigum allt í honum, gleði, heilbrigði, geðheilsu og ekki síst frið og ljós hið innra. Ekki láta ljósið sem stendur þér til boða deyja út bara af því að þú ert svo upptekin/n og hefur of mikið að gera, ekki "búin/n að öllu" fyrir jól, leyfðu því frekar að vera loga glatt hið innra og vera uppspretta og gleðin í "öllu" sem þú ætlar að gera fyrir jól.
Guð blessi ykkur öll nær og fjær og gefi ykkur aðventu ljóss og friðar.
Athugasemdir
Gaman að lesa þennan pistil Sólveig.
Sjálf man ég vel jólin sem við fjölskyldan héldum í Danmörku þegar við bjuggum þar. Þá söknuðum við gamla Íslands og hátíðlegu jólahefðanna á Fróni.
Ég held að hvergi í veröldinni sé hátíðlegra á jólum en hér á Íslandi (nema ef vera skyldi í Færeyjum).
Megið þið eiga góða aðventu og gleðileg jól.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.12.2008 kl. 18:45
Það er gott að lesa færslurnar þínar Sólveig, alltaf á ljúfu nótunum.
Ég óska ykkur gleðilegra jóla í Færeyjunum og farsæls komandi árs
Sigrún Jónsdóttir, 18.12.2008 kl. 12:34
Heil og sæl mín kæra.
það er sérstaklega gaman að komast inn í litla herbergi og vera settur í það hlutverk að fá að svara þér.
Staðan á heimilinu þessa stundina er:Húsmóðirin hleypur á leifturhraða milli eldhúss þvottahúss og annara vistarvera og tekur til við hitt og þetta sem þarfnast handa hennar , Reyndar varð krukka með sýrðum gúrkum óþægilega nálægt hægra handarbaki hennar og eru foreldrar þínir báðir búnir að skríða ótal ferðir í leit að glerbrotum um eldhúsgólfið, sem hefur öðlast súrsætt sykurbað og stóraukinn viðloðunar- eiginleika við þá skó sem á því troða. (En von er um að sá eiginleiki dvíni eftir fjórðu eða fimmtu sápumeðferð!)
Einnig hefur húsbóndinn nýlokið við að ryksuga öll gólf og situr nú við sjónvarpið og hlustar á hinar ómissandi fréttir af okkur , hinni einstöku þjóð hér norður við norðurpólinn.
Niðursetningurinn á bænum gerir sér upp helti mikla og fær því að leika sér við tölvuna á milli þess sem "hún" hámar í sig kökur og alls kyns krásir og skerppur á bæi, til dæmis til til læknis og til Helgu syss , sem greindi heltina sem Púrtvínsgikt af sinni miklu reynslu.
Það sr sjálfsagt alveg rétt greining nema hvað púrtvínið var ekki til staðar, en auðvitað getur verið að maður geti læknað þetta hvimleiða mein með púrtvíni, það mætti reyna það!!
Annars er einhver undirgangur hér við dyrnar og inn koma þær Inga María og Laufey systir þín.
Mikið held ég og reyndar veit að jólin hér á Holtinu verði Öðruvísi þegar þið eruð ekki hér , en allt er breitingunum undirorpið og eðli stækkunar fjölskyldna er, að þær þurfa stærra pláss og því er eðlilegt að stórar fjölskyldur dreyfist um landið - og löndin.
Jæja ef að þetta rugl nær til þín , ´þá vil ég fyrst og fremst senda ykkur innilegar kveðjur frá niðursetningnum á Holtinu
Guð veri með ykkur öllum Ykkar gamla Edda
Þau biðja innilega að heilsa og munu áreiðanlega svara þegar mesta tiltektarvíman er runnin af þeim.
heiti krankleikans verið vegna þess að maður get
edda magg (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 22:38
Sæl elskurnar, þá erum við " flutt " heim aftur. Færeyjarfólkið okkar er farið norður í jólahaldið, það var ánægjulegt að geta gert eitthvað fyrir þau í þakklætiskini fyrir gestrisni þeírra í fyrra. Það tókst mjög vel að koma Helgu systir á óvart í gærkvöldi á Fjörukránni,það mættu ótrúlega margir með svona stuttum fyrirvara til að samfagna henni með afmælið, svo var kaffi hjá henni í dag. Magnús og fjölskylda fóru til Bolungarvíkur í dag og voru 10 tíma á leiðinni en allt gekk vel. Nú snúum við, Laufey og fjölsk. og við, okkur að því að undirbúa okkar jólahátíð saman svo við verðum ekki " meinvillt" eins og segir í sálminum góða, í öllu jójastressinu.og þakka fyrir að eiga svona mikið ríkidæmi í okkar yndislegu fjölskyldu og vinum. Takk fyrir þitt góða og uppbyggilega bréf Sólveig mín, knús og kossar til ykkar allra, Mamma
Inga Magg (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 00:24
Óska ykkur friðsamra og fallegra jóla í Föröyum. Allt gott að frétta af mér og mínum.
Jólakveðja,
Kolla
Kolla frænka (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 14:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.