6.8.2008 | 13:11
Enga gamla bíla til Færeyja takk fyrir
Verð barasta að segja ykkur frá einum af þessum ógleymanlegum stundum þegar maðurinn minn verður kjaftstopp, gjörsamlega hneykslaður og misboðið, allt á sömu stundinni.
Þannig var það að ég fór eins og lýðnum er ljóst, með Norrænu siglandi frá Seyðisfirði til Færeyja, eftir að hafa ekið yfir hálft Ísland í fylgd foreldra minna og áleiðis af manninum mínum, legið meiri hlutann af sjóferðinni í koju, frekar heilsulítil og lítt spennandi félagsskapur fyrir son minn, sem undi sér hið besta um borð og kom svo til Þórshafnar óguðlega snemma á föstudagsmorgni og heilsaði tollverði með því blíðasta brosi sem ég átti til þá stundina. Hann ætlaði nú barasta að hleypa okkur beint í gegn, en þegar hann sá tjaldvagninn góða, aftan í þá stoppaði hann mig og spurði hvort að ég ætlaði svo áfram til Noregs seinna með ferjunni. Ó nei ekki aldeilis ég væri sko að flytja til Færeyja, svaraði ég á minni nýbökuðu færeysku. Hann horfði á mig, svo á bílinn og svo á tjaldvagninn. Spurði hvort að ég ætlaði að vera með bílinn í Færeyjum? Jú, jú, mikil ósköp, ég ætlaði mér að eiga drossíuna áfram. Þá þyrfti ég að umskrá hann, það vissi ég nú og sagði honum að það stæði einmitt til. Þá leit hann á tjaldvagninn og spurði hvað þetta væri? ÉG var í alvöru að hugsa um að móðgast, en ákvað að skella fram smá húmör, á færeysku náttúrulega og sagði að þetta væri nú gamli tjaldvagninn minn, hvort ekki væri hægt að notast við tjaldvagna í færeyjum og ferðast aðeins um eyjarnar? Veit ekki alveg hvort að hann skyldi mig, en ákvað amk. að veifa bara til mín og bauð mig velkomna.
Nú vagninn hefur enn ekki verið notaður, nema ég náði í úr honum eitt og annað góss, m.a. íslenskan lakkrís, nokkur kíló og svo plastglös til að hafa þegar við erum að hugga okkur hér utan við húsið í hitanum. Bílinn hefur hinsvegar verið fullnýttur og við farið mikið, sérlega eftir að Finnbogi kom og fjárfest var í kerru til að aka í aðföng í smíðina. Reyndar höfum við ekki greitt nein gangnagjöld enn, þar sem við ætluðum okkur að kaupa þau í magninnkaupum eftir að við værum komin á færeysk númer og búin að umskrá bílinn í landið. Finnur sagði nefnilega að þeir nenntu ekki að eltast við erlenda aðila en það er nú verulega farið að hitna undir mér, finnst mér, í hvert skipti sem ég ek í gegnum gjaldandi gögnin. Þau eru tvenn hér í Færeyjum, ein frá Vogeynni, þar sem við búum og svo hin til Klaksvíkur, þangað höfum við farið í tvígang.
En aftur að bílnum og umskráningunni. Við megum sumsé aka á íslenskum (erlendum) númerum í allt að 3 mánuði hér í Færeyjum, þegar maður er að flytja til landsins, en eftir það þá ber manni að umskrá bílinn ellegar eiga hættu á að klippt verði af honum og númerin eyðilögð. Nema maður hreinlega sendi hann heim aftur. Við fórum af stað hjónin í Akstofuna og fékk þar upplýsingar hvernig ég bæri mig að, fékk eyðublað til að fara með, að ég hélt, til tollstofunnar og svo til bílasala þar sem ég hafði ekki handbæra pappírana yfir kaupin á bílnum á sínum tíma. Þyrfti að fá verðið á bílnum, virðismat og listaprísur. Hélt nú að ég hafi skilið þetta allt vel, fékk tíma í endurkomu, eða öllu heldur skoðun á bílnum eða þegar umskrá þyfti bílinn hjá stúlkunni og fór mína leið. Nokkrum dögum síðar þá fórum við hjónin af stað á bílasöluna og þar aðstoðaði okkur bílasali, einkar vinalegur, frekar afslappaður, enda fyrsti morgun eftir Ólafsvöku. Síðan fórum við á tollskrifstofuna en þá var ekki opið þar nema á milli kl. 10 - 12 alla daga, þar sem sumarfríin væru í gangi. Sæi þetta ganga heima. Jæja, við gerðum okkur ferð bara nokkrum dögum seinna, þetta þarf að sækja allt til Þórshafnar og því fer maður ekki nema maður eigi nokkur erindi. Mætti á svæðið með alla pappíra til að vera nú alveg klár hjá tollinum. Þar hitti ég fyrir elskulega konu sem leiðbeindi mér ítarlega og jú jú, ég væri búin að eiga bílinn í 2 ár og sjálf búa á íslandi í 3 ár, þannig að gagnvart þeim, þá væri þetta bara flytjigóss og þyrfti ekki að tolla neitt. En hún sagði mér að ég skyldi áður en ég gerði nokkuð annað, kanna hjá akstofunni hvað það kostaði að umskrá bílinn inní landið. Hún lagði mikinn þunga á þetta því að lögin hefðu breyst 1 júní s.l. og ég skyldi vera alveg viss um að ég vildi borga það sem akstofan setti upp áður en ég tæki ákvörðun um að skrá hann í landið. Við hjónin brunuðum upp á akstofu, þó svo að við ættum ekki tíma fyrr en í vikunni á eftir, ég með alla pappíra, verðmatið á bílnum og allt.
Þá kom þetta móment sem kemur svo örsjaldan fyrir með manninn minn. Konan tók við pappírunum, frekar stíf til brosins, eftir að ég hafi útskýrt fyrir henni að ég ætti ekki tíma fyrr en seinna, vildi bara vita hvort að ég væri ekki komin með alla pappíra sem við þyrfti að éta og hvað það myndi nú kosta mig að umskrá bílinn.
Í fyrsta lagi, var ég ekki með réttan pappír frá bílasalanum. Hún vildi fá núvirði á nýjum samskonar bíl og ég ætti. Það væri listaprísurinn. Nú, ég hélt að ég væri að flytja minn 11 ára gamla bíl inn Toyota Rav með FH merkinu inn, en ekki nýjan bíl.
Í öðru lagi þá gat hún sjálf flett upp listaprísnum, á einhverri heimasíðu hjá bílasölu Toyota. Hhhmmm, veit þá ekki alveg afhverju ég var að snúast þetta þá. En jæja, svo fór hún að reikna.
Minn bíll var verðmetinn á 40.000,- dkr af bílasalanum yndislega og gjaldið sem greiða þyrfti fyrir að umskrá bílinn til Færeyja er dkr. 50.000,-. Ég fór að hlæja og hélt að þetta væri nú bara einhver vitleysa en Finnbogi varð sumsé, kjaftstopp, forhneysklaður og misboðið allt í senn. Sem betur fer kom Finnur akkúrat að á þessu andartaki og ég horfði á hann í algjöru hláturskasti og spurði hvað er konan eiginlega að segja. Hann fór yfir þetta með henni og jú jú, þetta kostar að flytja inn árgerð ´97 Toyota Rav4 ekin 200þús km. Ég leit á konuna og hún sagðist bara vinna þarna og það þýddi ekkert að skammast í sér, en ég hló bara og sagði að hún hlyti að sjá það að ég myndi aldrei fara að umskrá bílinn í landið, þá væri ég kúkú, og undirstrikaði það með alþjóðlegri handahreyfinu við gagnaugað. Sagði að ég myndi að sjálfsögðu senda bílinn bara heim aftur. Henn var ekki skemmt og ekki Finnboga heldur, þar var einnig staddur hinn bílasalinn á bílasölunni sem við fórum til og hann hikstaði nú aðeins á þessu öllu saman. Við fengum svo hvort sitt eintakið af nýju lögunum sem er uppá nokkrar síður og við gætum lesið okkur til um þetta þar. Þar með var hennar afgreiðslu lokið.
Ég hlæjandi og Finnbogi og Finnur yfirhneykslaðir. Finnbogi tilbúinn að fara heim aftur með norrænu, fulla af varningi til að selja heima uppí kostnaðinn af þessari vitleysu. Ég bauð honum að koma með mér í kaffi til að reyna að ná honum aðeins niður til Hans, tengdaföður Finns, en hann er með verslun þarna rétt hjá. Ekki var það til að bæta ástandið, því hann trúði ekki þessari vitleysu og fór í það að hringja út um allar trissur, í þingmanninn PM og stjórann í Akstofunni hann Jákúb, hann svaraði reyndar ekki símanum og þá snaraðist hann út úr búðinni, sagði okkur að gæta hennar á meðan, þetta gæti bara ekki verið, hann ætlað að hitta á stjórann sjálfann. Kom svo til baka með þá vitneskju að þetta væri rétt. Þá fór hann aftur í símann og nú í Samskip því að þeir myndu koma bílnum heim á skikkanlegum prís, hann myndi sjá um það.
Svo nú nýtum við bílinn til hins ýtrasta á meðan við höfum til þess heimildir, en við þurfum að flytja hann úr landi eigi síðar en 19 september. Annars koma þeir með klippurnar.
Færeyjingar vilja enga gamla bíla til landsins, nóg er af þeim fyrir. Takk fyrir.
Guð blessi ykkur nær og fjær og munið að það borgar sig ekki alltaf að gera hlutina vel í tíma.
Athugasemdir
Hæ Solla,
Ég gat nú ekki annað en brosað, því þetta þekkir maður vel !...Ég hefði getað sagt ykkur þetta allt saman... Enda eruð þið innilokuð í dönsku skatta systemi !!
Velkomin til Danmerku
kveðja frá Jótlandi
Friðrik í Horsens
Friðrik í DK (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 13:27
Ég lenti í nákvæmlega sömu vitleysunni, þegar ég flutti til Íslands frá Englandi árið 1975!!!!!
Bestu kveðjur til ykkar allra
Sigrún Jónsdóttir, 6.8.2008 kl. 16:30
Ég þekki ekki hvernig þetta var á íslandi 1975 en í dag er mikill munur. Tollar á bílum í Danmörku eru 180 % en á Íslandi 30-45%, það er smá munur :)
kv, F
Friðrik í DK (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 17:16
Heil og sæl, við mamma komum með rauð í september og förum svo með Rav-inn. Þið notið svo bara Rauð þar til klippt verður af honum, sem verður væntanlega í vor. Þá komum við aftur með Rav-in og þið notið hann þar til hann verður klipptur. Kveðja Magnús
Magnús (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 21:48
JA HÉRNA! Það hefði verið góður leikur að fara bara með þann rauða og vera á honum því þeir þarna hefðu áreiðanlega ekki staðið í því að klippa af honum. En svona er þetta nú, tillagan hjá Magnúsi er bara nokkuð góð, finnst ykkur ekki?Koss og knús
Mamma amma og langamma (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 22:48
Sæl verið þið.
Það er ekki amalegt að eiga von á bróður sínum með fullan bíl af matvörum, ég reikna ekki með öðru úr þeirri áttinni . Geri hér með pöntun á eftirfarandi:
Kær kveðja
Jói (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 22:55
Já hvernig væri það að þið kæmuð bara Maggi og mamma með Rauð. Þeir sögðu við okkur nágrannar okkar að við skyldum ekki vera að stressa okkur yfir því að láta umskrá bílinn eða senda hann heim. En ég ætla nú ekki að fara að standa í því með Ravin - en með Rauð væri ég alveg til. Það gæti borgað sig, því að hér er mjög gott verð á Íslensku og NýSjálensku lambakjöti, svo ég tali nú ekki um nautakjötið og fuglakjötið allt.
Sólveig Birgisdóttir, 8.8.2008 kl. 13:52
Það væri gaman að vita hvernig þetta er í Noregi. Ég er búinn að fá tilboð í jeppann minn þaðan, og ef þetta er eins þar þá líst mér ekki á að það sé vit í því
Johann k (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 17:08
Já mín kæra Sólveig.... hefði getað sagt ykkur þetta.... hehe.
Við fórum með gamlan Lanser gráan að lit til DK 1996 og vorum á honum þar í nokkurn tíma. Hann var á svörtum númerum og menn heldu að hér væri um bíl frá danska hernum. Ég fór einusinni sem oftar á honum að skúra á brautarstöðinn í Aarhús og lagði honum þar á bakvið hús. Eitt kvöldið þegar ég var ´búinn að skúra og vara að fara inn í bílinn um miðnætti var ég umkringdur af frakkaklæddum mönnum sem stoppuðu mig og báðu mig um skilríki. Ég brosti mínu grimmasta brosi og ætlaði að vippa mér inn í bílinn, en þá var tekið í öxlina á mér og spurningin endurtekin. Ég sýndi þeim ökuskýrteinið mitt appelsínugula frá landinu helga og þá fóru þeir að hlæja blessaðir. Þeir bentu mér á að þessi bíll væri á öryggissvæði þar sem einungis bílar frá hernum mættu vera á. Ég sagði það vitleisu, ég kæmi þarna þrisvar í viku að skúra.! Jú... en nú væri ég að leggja bílnum mínum við hliðina á lestarvagni hennar hátingnar Þórhildar og hennar spúsa og bentu mér á vagning sem var um 10 metra frá bílnum. Mjög flottur lestarvagn sagði ég. Við skyldum sem vinir ég og frakkamennirnir með i pod heyrnartækin. Skömmu seinna var klippt af bílnum en það var ekki vegna þessa atburðar, heldur var annar bíll á íslenskum númerum sem var gómaður í hverfinu okkar og sáu klyppararnir okkar bíl þar skammt frá. Ég fékk nú númerin aftur og bar við fávisku minni og sendi hann aftur til Íslands með skipi og seldi hann þar. En eins og ég sagði,,, ég gat alveg sagt ykkur þetta...!!
kveðja frá Odense, Brói.
Þorleifur Magnús Magnússon. ( Brói ), 18.8.2008 kl. 18:23
Það er kannski möguleiki að versla bíla í Færeyum og fá niðurfellda tolla og flytja þá til Íslands.... ég veit að bílar eru ódýrari í danmörku frá umboðunum vegna þessara rosalegu tolla þar. Kannski hægt að hafa upp í Norrænu-ferðirnar.
Þorleifur Magnús Magnússon. ( Brói ), 18.8.2008 kl. 18:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.