29.6.2008 | 22:59
Lofa skal mey að morgni og dag að kveldi
Jæja, þá er dagur eitt búinn í sjálfboðavinnunni á Zarepta. "Unga" stúlkan sem hóf störf full orku og gleði kl. 16.00 að staðartíma, situr nú með sára fingur og auma úlnliði og ekki svo ýkja ung lengur. En þetta var gaman, taka til hendinni í að sortera skemmdar kartöflur frá heilum, framreiða kaffi, kvöldmat, sem samanstóð af súpu, te, brauði og áleggi, kvöldkaffi með brauðbollum, magaríni og sultu, skúffurkökur af ýmsum gerðum og ávexti. N.B. kvöldkaffið er frá kl. 22.00 - 22.30, þannig að sykurinntakan er þó nokkur svona rétt fyrir svefninn. Hér eru 16 - 17 ára unglingar þessa vikuna og um 250 manns í það heila.
Það var mjög gaman að reyna að átta sig á skipulaginu hér í dag, ég á semsagt að vera í eldhúsinu, ekki í uppvaskinu, búrinu né frammi í matsal. En hver segir íslenskri konu hvar hún á að vera. Ef ekkert er að gera í eldhúsinu en uppvaskið á floti, þá fer maður náttúrulega í uppvaskið eða hendir fram á borð þegar búið er af borðunum, fer út með ruslið í gáminn, hhmm, það eiga karlmennirnir að gera. Þetta verður spennandi vika, bæði fyrir mig og JJ. Við erum í herbergi með annarri konu og tveimur drengjum 10 og 11 ára. Þeir eru frændur. JJ er að kenna þeim spil sem hann er með, einhverjar orkufígúrur. Hann er ekki feiminn sem betur fer.
Á föstudagskvöldið upplifði ég að vera með ein með öllum mínum afkomendum. Guðrún fór í sumarbústað með vinkonum sínum og Natasja kom til okkar og var hjá okkur um nóttina. Það vel með okkur, komum yngstu börnunum í svefn á skikkanlegum tíma og gláptum svo á sjónvarpið til hálf tvö.
Á föstudaginn fórum við JJ til Þórshafnar og skelltum okkur í sund. Það er í annað skiptið síðan við komum. Ekki að það sé einhver frétt, en maður fer ekki svo oft í sund hér enda ekki mikið um sundhallir. Sundhöllin, innilaug, er með einni 25 m. sundlaug, tveimur barnalaugum og einni dýfingarlaug. Allt ískalt, þ.e. 25 og 27° en það er reyndar ágætt að hafa enga heita potta til að liggja í því maður verður að synda til að halda á sér hita. JJ er orðin ótrúlega flinkur að hoppa af stokkbrettunum, hæsti er 5 metra og hann lætur sig vaða ofan af honum líka. Nú svo var enn önnur nostralgíjan eins og mágarnir kalla það, maður má bara vera í eina klst. ofan í og svo er kallað upp eftir lit á teygjunni, held ég eða skápunum. Við JJ erum reyndar ekki alveg búin að átta okkur á þessu en verðum víst að fara að læra þetta ef við ætlum að stunda sund mikið svo að við verðum ekki sett í straff. Þegar ég var að fara uppúr sá ég litla rauðhærða stúlku í annarri barnalauginni, fannst hún kunnuleg og fór að leita eftir með hverjum hún væri, jú,jú, mikið rétt þarna sá ég annað rauðhærðan koll, örlítið stærri og þar var Natasja hans Finns, með stjúppappa sínum og hálfsystir. Það var mjög gaman að hitta hana þarna. Við náðum svo í hana heim til hennar, en hún býr í Þórshöfn, þegar við vorum búin að útrétta í kaupstaðnum og fór hún með okkur JJ vestureftir.
Svo svona til að upplýsa þá sem bíða spenntir eftir upplýsingum um súrdeigsbrauðið, þá varð úr því þrjú brauð sem barnabörnin mín voru mjög ánægð með og svo var gerð chili sulta í dag áður en við fórum af stað til Zarepta.
Læt þetta duga að sinni og bið Guð að blessa ykkur öll.
Athugasemdir
Heihei,
gott að geta fylgst með ykkur mæðginum.
kv.
Kolla
Kolla (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 08:27
Sæl elskurnar. Allt gott héðan,veðrið meira að segja bara nokkuð rólegt þessa stundina.Við Inga María erum að brytja rabbabara og setja í poka í frystir,nennum ekki að sjóða strax! Hvernig fór með sultuna hjá þér JJ? Hvað verðið þið lengi í sumarbúðunum,vantar ekki bráðum gamla matráðskonu?
Afi er að vinna síðustu vaktina í kvöld í þessari törn,svo fer meistaramótið að byrja en hann ætlar ekki að vera með í því,búinn að fá nóg í bili. Vona að allt gangi vel hjá ykkur,við söknum ykkar,koss og krús.
Inga María mamma amma langamma (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 22:19
Hæ frænka mín, vonandi gengur allt vel hjá ykkur, gaman að fylgjast með, ég addaði þér em vini svo auðveldara sé að fylgjast með þérog ykkur.
kær kveðja Alva.
alva (IP-tala skráð) 4.7.2008 kl. 13:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.