14.3.2015 | 13:39
Blogg vs hljóðupptökur vs nýjustu netmiðlar
Aftakaveður um land allt 14.3.2015 - strætó gengur ekki, fólk er beðið um að halda sig innandyra - bátar í vari - vatnselgir og flóð og við Golden förum ekki í Skorrann eins og fyrirhugað var.
Var að gúgla svona mér til dundurs hérna í óveðrinu og fann þá aftur gamla bloggið mitt. Hef hvorki hugsað til þess, fundið þörf fyrir að blogga hvað þá setja eitthvað vitrænt á blað. Er ekki mikill fésbókarfærsluaðili og ennþá lélegri í öllu því sem heitir tíst, twist, instagröm, snapp, tjatt og hvað núalltþetta heitir í dag. Er samt að reyna eitt og annað. En svona að því að ég fann bloggið mitt aftur og komst inná síðuna, fór ég að velta fyrir mér hvort að bloggið eins og dagbækur og aðrar bókmenntir væru orðnar úreltar. Veit ekki, hef ekki verið nógu "tengd" við umhverfið til að skynja það og skilja. En allavegana komst ég að því að bloggið "lifir" í heimi tækninnar. Þannig að ef ég hugsa um það að vilja skilja eitthvað eftir fyrir komandi kynslóðir, væri það hugsanlega þessi vettvangur. Svo það er aldrei að vita hvað maður setur niður á "blað" en eitt er víst að það borgar sig að vanda til verksins, því ekki getur maður hreinsað úr bókahillunum og brennt draslinu ef þannig liggur á manni. Talandi um að skilja eftir sig, þá sendi ein frænka mín okkur frændsystkynum sínum, link á hljóðupptökur sem voru gerðar á Grund árið 1968, viðtöl við langömmu mína hana Þuríði Björnsdóttur, hún var amma hennar mömmu, mamma ömmu Laufeyjar Jakobsdóttur. http://www.ismus.is/i/person/id-1000581 stórkostlega skemmtilegt og merkilegt finnst mér amk. Þarna lýsir hún draugasögum, bernskunni, huldufólk og ýmislegt. Gott framtak þarna á ferð.
Nú heyrist mér að vindurinn sé eitthvað farinn að lægja, hér fyrir utan virðist allt vera á sínum stað, en það er víst víða töluverð tjón. Það er gott að búa í Kópavogi, já fyrir ykkur sem ekki vitið þá búum við hér vestast á Kársnesinu, horfi yfir á Bessastaði, á uppáhaldsfjallið mitt Keili og Snæfellsjökul í vestri. Nú riðst sólin fram með geisla sína og ég sé Keili í sólarregnroksmistrinu en Snæfellsjökull sést hvergi. Bessastaðir eru á sínum stað og allt virðist með felldu þar á bæ. Enda húsin þar vel byggð. Þá er mál að girða sig í brók, hressa aðeins uppá andlitið, hárið í teygju. Ég bý við þau forréttindi að eiga úrval af fatnaði, allt eftir því hvernig veðrið er. Ég segi oft, það er ekki spurning um veður, heldur hvernig maður klæðir sig. Meiri stormur - skjólbetri fatnaður.
Takið því alvæpni Guðs til þess að þið getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli þegar þið hafið sigrað allt.
14Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju 15og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. 16Takið umfram allt skjöld trúarinnar sem þið getið slökkt með öll logandi skeyti hins vonda. 17Setjið upp hjálm hjálpræðisins og grípið sverð andans, Guðs orð. 18Gerið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda.
Þetta kallar maður sko að klæða sig eftir veðri.
Guðs blessun yfir ykkur öll nær og fjær.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.