Leita í fréttum mbl.is

Blogg vs hljóðupptökur vs nýjustu netmiðlar

Aftakaveður um land allt 14.3.2015 - strætó gengur ekki, fólk er beðið um að halda sig innandyra - bátar í vari - vatnselgir og flóð og við Golden förum ekki í Skorrann eins og fyrirhugað var.

Var að gúgla svona mér til dundurs hérna í óveðrinu og fann þá aftur gamla bloggið mitt. Hef hvorki hugsað til þess, fundið þörf fyrir að blogga hvað þá setja eitthvað vitrænt á blað. Er ekki mikill fésbókarfærsluaðili og ennþá lélegri í öllu því sem heitir tíst, twist, instagröm, snapp, tjatt og hvað núalltþetta heitir í dag. Er samt að reyna eitt og annað. En svona að því að ég fann bloggið mitt aftur og komst inná síðuna, fór ég að velta fyrir mér hvort að bloggið eins og dagbækur og aðrar bókmenntir væru orðnar úreltar. Veit ekki, hef ekki verið nógu "tengd" við umhverfið til að skynja það og skilja. En allavegana komst ég að því að bloggið "lifir" í heimi tækninnar. Þannig að ef ég hugsa um það að vilja skilja eitthvað eftir fyrir komandi kynslóðir, væri það hugsanlega þessi vettvangur. Svo það er aldrei að vita hvað maður setur niður á "blað" en eitt er víst að það borgar sig að vanda til verksins, því ekki getur maður hreinsað úr bókahillunum og brennt draslinu ef þannig liggur á manni. Talandi um að skilja eftir sig, þá sendi ein frænka mín okkur frændsystkynum sínum, link á hljóðupptökur sem voru gerðar á Grund árið 1968, viðtöl við langömmu mína hana Þuríði Björnsdóttur, hún var amma hennar mömmu, mamma ömmu Laufeyjar Jakobsdóttur. http://www.ismus.is/i/person/id-1000581 stórkostlega skemmtilegt og merkilegt finnst mér amk. Þarna lýsir hún draugasögum, bernskunni, huldufólk og ýmislegt. Gott framtak þarna á ferð.

Nú heyrist mér að vindurinn sé eitthvað farinn að lægja, hér fyrir utan virðist allt vera á sínum stað, en það er víst víða töluverð tjón. Það er gott að búa í Kópavogi, já fyrir ykkur sem ekki vitið þá búum við hér vestast á Kársnesinu, horfi yfir á Bessastaði, á uppáhaldsfjallið mitt Keili og Snæfellsjökul í vestri. Nú riðst sólin fram með geisla sína og ég sé Keili í sólarregnroksmistrinu en Snæfellsjökull sést hvergi. Bessastaðir eru á sínum stað og allt virðist með felldu þar á bæ. Enda húsin þar vel byggð. Þá er mál að girða sig í brók, hressa aðeins uppá andlitið, hárið í teygju. Ég bý við þau forréttindi að eiga úrval af fatnaði, allt eftir því hvernig veðrið er. Ég segi oft, það er ekki spurning um veður, heldur hvernig maður klæðir sig. Meiri stormur - skjólbetri fatnaður.

Takið því alvæpni Guðs til þess að þið getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli þegar þið hafið sigrað allt.
14Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju 15og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. 16Takið umfram allt skjöld trúarinnar sem þið getið slökkt með öll logandi skeyti hins vonda. 17Setjið upp hjálm hjálpræðisins og grípið sverð andans, Guðs orð. 18Gerið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda.

Þetta kallar maður sko að klæða sig eftir veðri.

Guðs blessun yfir ykkur öll nær og fjær.


Þreytt og þurrausin.

Getur maður virkilega bloggað af einhverju viti þegar maður er þreyttur og þurrausinn. Vafraði í gegnum fésið, las fréttirnar frá Haíti og björgunarsveitinni "okkar" og svo voru strákarnir "okkar" að gera það gott í handboltanum. Íslendingar eru reyndar aðalfréttirnar hérna í netfréttunum. www.portal.fo  Þar fer fremst í flokki, Siv Friðleifsdóttir, sem mun halda fyrirlestur um hvort að konur séu nothæfar í pólitík eða eins og fyrirlesturinn heitir - Politikari - ber tað til á høgum hælum?  Fyrirlesturinn verður í norræna húsinu og fer fram á norsku.

Svo eru það björgunarsveitin okkar, einn af borgarfulltrúum Havnar vill að söfnun Rauða kross Færeyja fati öll til Íslands, eyrnamerkt björgunarsveitinni og Bubbi og Jógvan. Læt fréttirnar tala sínu máli:

Gevið íslendska bjargingarliðnum pengarnar

Bjargingarliðið úr Íslandi, sum var tað fyrsta at útlendska hjálparliðið á Haiti, eigur at fáa pengarnar frá Reyða Krossi Føroya, heldur Jákup Símun Simonsen, býráðslimur í Havn.

  Vanlukkan á Haiti svíður svárt í hjørtum okkara, og mangir spurningar fara millum okkum øll; hvat kunnu vit gera?
Jákup Símun Simonsen vísir á, at Ísland var fyrsta landið, sum kom við hjálp, og lendu tvey flogfør við eini 40 fólkum stutt eftir jarðskjálvtan og við vandari manning góvu seg í tænastu at hjálpa.
- Hóast tey hava sínar heimligu trupulleikar buðu tey sær til beinanvegin at hjálpa. Slíkt er stórt! - Tí er mín áheitan á Reyða kross Føroya: at senda innsavnaða peningin frá føroyingum til Reyða kross í sambandi við vanlukkuna á Haiti, at hann verður sendur Reyða krossi Íslands, og eyðmerktur til bjargingartænastuna í Íslandi, sigur Jákup Símun Simonsen.

Og síðast en ekki síst má ekki gleyma Eurovision eða Grand prix eins og það er nefnt hér. Það var nokkuð skondið í fyrra þegar ég var að tala um eurovision, þá vissi enginn um hvað ég var að tala og ég vissi um hvað þeir voru að tala þegar talað var um grand prix. haha. 

Bubbi: Jógvan vinnur

Bubbi Morthens væntar sær nógv av Jógvani Hansen í íslendska Grand Prixnum. Jógvan synguri kvøld sang, sum Bubbi hevur skrivað.

Annað innleiðandi umfar í íslendska Tónleika Grand Prixnum verður í kvøld. Fimm sangir skulu kappast um tvey bæði finaluplássini, sum standa upp á spæl í kvøld. Ein teirra er Jógvan Hansen, sum tekur lut fyri triðju ferð í Grand Prixnum.
Sangurin, sum Jógvan skal syngja, eitur One MoreDay og er skrivaður av Bubbi Morthens og Óskar Páll Sveinsson.
- Eg ivist ikki í, at Jógvan fer at vinna Grand Prixið. Sangurin, sum vit hava skrivað til hansara, er góður, og Jógvan hevur alt, sum skal til, fyri at vinna eina slíka kapping, sigur Bubbi Morthens.
Fýra innleiðandi kappingar eru í íslendska Grand Prixnum, og átta sangir taka lut í finaluni, sum verður fyrst í februar mánaði.
Sjónvarp Føroya sendir íslendska Grand Prixið í kvøld frá klokkan 20.10.

Við verðum í sófanum í kvöld, að fylgjast með spennt.

 

 Mínir strákar voru reyndar líka að gera það gott í dag.

Jóhann Júlíus var að taka þátt í sinni fyrstu liðakeppni í Badmintoni. Spilaði tvíliða-og tvendarleiki og lentu þau í úrslitum um 1 sæti en töpuðu 3-2, naumlega. Gaman að sjá þessa krakka hvað þau eru ótrúlega fær með spðana.

Finnur er á Kýpur með Færeyska landsliðinu, töpuðu stórt í gær á móti Svisslendingum en töpuðu 39-32 í dag á móti Hvítrússum. Finnur gerði 7 mörk, öll á síðustu 15 mín. eftir að hafa átt slaka byrjun og var tekin útaf, en hent aftur inn, þegar ekkert mark var skorað í heilar 11 mín. af hálfu Færeyinga.  Honum var sumsé orðið frekar heitt í hamsi og víkingahamurinn hlaupinn á hann. Síðasti leikur á morgun á móti Kýpurverjum. Verður spennandi að sjá hvað verður. 

Ég er enn að þjálfa stelpurnar í Neistanum, en nú hafa orðið þjálfaraskipti, kominn annar aðalþjálfari, færeyskur og heitir Birgir Hansen og annar aðstoðarþjálfari, Sigrun Mikkelsen, gömul kempa og fyrrum þjálfari. Samstarfið hjá okkur þremur gengur ágætlega og vonandi heldur þetta út tímabilið. Ég er farin að taka meiri beinan þátt í þjálfuninni og er svo með utanumhaldið um að teipa, nudda, blanda orkudrykkina, sjúkrataskan sé í lagi og að klappa þeim og kenna þeim að vera mýkri, með stinnari rassa oþh. sem er mjög mikilvægt, þegar handboltanum sleppir. haha. 

Líklega fer græni gamli góði bíllinn minn til Íslands á næstu viku og ég verð því að gyrða mig í brók og halda fram að skokka í vinnuna. Hef reyndar gert það þessa vikuna, einhversstaðar verður maður að byrja, lifnaðurinn í desember og út jólatíðina, var ekki til fyrirmyndar og bæði finnst það og sést á heimilisfólkinu. En já, maður er það sem maður étur, stendur einhversstaðar. Svo nú stefni ég að því að borða bara fallega framreiddan mat, skokka svo um eins og girnilegur aðalréttur. LOL. Jæja, nú er euro byrjað. Farin.

Guð blessi ykkur nær og fjær.

 


Ný byrjun - fögur fyrirheit.

Ja hérna hér. Já nú hefi ég heitið því að byrja að nýju að blogga, að hreyfa mig, að setja fleirri myndir inn, að vera duglegri...og svo framvegis. Svona eins og svo mörgum sinnum í upphafi nýs árs. 

Jólin, hjá okkur í kjallaranum voru afspyrnu róleg. Aðfangadagskvöld vorum við bara þrjú í kotinu og borðuðum yndislega andarsteikur, að hætti húsbóndans og tókum svo upp pakka og heyrðum í okkar nánustu. Finnur og fjölskylda var í Þórshöfn hjá tengdafólkinu hans Finns. Jóhanni Júlíusi fannst þetta vera nú frekar dapurlegur aðfangadagur og var lítt hrifinn af öllum mjúku pökkunum, fékk ekki nema eina bók og eitt spil. Sagðist ekki vera orðinn unglingur ennþá og gæti alveg þegið fleirri harða pakka. Já það er erfitt að vera á þessum aldri þar sem maður sveiflast á milli þess að vilja vera unglingur og barn. Jóladag fór frúin gangandi til messu í Miðvágskirkju og fann hversu mikið hún saknaði þess að vera ekki með stórfjölskyldunni og hvað tíminn er fljótur að líða. Og samt í sama mund hvað ég á mikið af yndislegum minningum sem tilheyra jólahaldinu, með fjölskyldunni, kirkjukórnum í Kálfahlíð og Veginum. Ég sat uppi við hliðina á orgelinu og naut þess að hlusta, syngja, gráta og rifja upp, ein með sjálfri mér og Guði. Gekk svo heim í yndislegu veðri og þar beið mín andakássa, húsbóndinn og sonurinn, nývaknaður. Finnur og fjölsk.kom svo um kvöldið og við borðuðum saman íslenskt hangikjöt, annað tvíreykt sem yndisleg kona sendi okkur frá Íslandi.  Við fórum svo í mat til Herborgar og Hans (tengdafor.Finns) á annan í jólum, komum seint heim og sváfum svo lengi. Ég hef setið mikið við prjónaskap um hátíðirnar og svo handboltaæfingar. Mikið etið og lítið um hreyfingu eða útiveru. Einhvernveginn, þá er allt svo mikið í rólegheitum að við drifum ekki mikið. En það má líka, bara vera í rólegheitum, saman litla fjölskyldan. Okkur var svo boðið í hérasteik hjá Jóhönnu í Horni og Allan, Jóhanna vinnur með mér, á þriðja í jólum. Þau búa í Sandavági og röltum við þangað. Hér hefur verið hvít jörð frá því löngu fyrir jól og það þykir til mikilla tíðinda og hefur ekki gerst lengi. Börnin drifu út á sleðana, en nú er búið að þiðna og frjósa svo oft á víxl að það er varla stætt sökum hálku. Finnbog fór á héraveiðar 28-29 des. og skaut sjálfur 1 héra, en fékk 4 í sinn hlut. Fóru siglandi á Slættarnes, sem er hér norðanfyrir á sömu eyju. 

Finnur sótti um að hafa áramótabrennu, þær eru settar upp af einstaklingum hér, ekki félagasamtökum og þarf bara að sækja um og sjá til þess að alls öryggis sé gætt. Að sjálfsögðu var brennan með stærra móti, enda íslendingar á ferð. Við borðuðum kl. 18.00 og svo var kveikt í brennunni hér fyrir ofan okkur kl. 20.00. Nokkrir nágrannar komu og var nokkrum flugeldum skotið upp og svo var velst um í snjónum með börnin, heimsmálin rædd og huggað sér með öl og snafs. Ártalið 2010 var svo tendrað í hlíðinni hinumegin við voginn og eldur kveiktur upp í áldósum eftir öllum aðalgötunum hér í Miðvági og út í Sandavág. Það er stórkostlega fallegt í frosti og snjó. Það kemur mikill Akureyrarfílingur í mig þegar ég sé ártalið, það breytist reyndar ekki eins og fyrir norðan, enda ekki mikið um skíðafæri hér. Við vorum svo fyrir utan hjá nágrannanum um miðnætti og var skotið upp eins og okkur einum er lagið, en það er ekki mikið um flugelda hér í Færeyjum. Þegar búið var að skála og skjóta upp, var boðið inn til Unu, nágranna okkar, í ræsta súpu. Þeir kunna sko að halda manni gangandi þessir færeyingar, kraftmikil kjötsúpa. Ég var svo södd að ég vakanði upp um morguninn, enn södd eftir súpuna. Nýársdagur verður í minni hafður sökum leti. Hann á að tákna upphaf af "rörsluári" okkar fjölskyldunnar í neðra. hihi. Rörsla er sumsé hreyfing. Vorum að taka út letina fyrirfram.  2.jan komu svo tengdafólkið hans Finns í mat til okkar og voru 3 lambalæri á boðstólnum, eitt eldað í 24 tíma. Þvílíkt lostæti. 

Ég fór svo í kirkju í morgun í Livdini í Havn. Það var frábært. Held að ég hafi loksins fundið minn stað, kirkjulega hér í Færeyjum. Ætla alla vegana að prófa að fara aftur. Hef verið í miklu andlegu og sönglegu svelti og finn hvað það hefur mikið að segja á alla mína líðan. Handboltinn hefur tekið mikinn tíma frá því ég flutti til Færeyja og hef ég stundum velt því fyrir mér hvort að það sé minn rétti vettfangur. Hef reyndar verið í vetur aðstoðarþjálfari hjá Neistakonanum í Havn, með þjálfara frá Rúmeníu, sem hefur verið hér í 11 ár. Okkur semur mjög vel, en það hefur gengið misvel með stúlkurnar. Nú er þriðji þjálfarinn kominn í spilið svo það er ekki gott að segja hvað nýtt ár ber í skauti sér. Við höfum haft æfingar nú um hátíðarnar en mætingarnar ekki alveg eftir væntingum og enn óljóst hvernig við komum til með að skipta með okkur verkum. Hvað sem verður þá hef ég kynnst fullt af skemmtilegu og góðu fólki. Ein í liðinu er frá Litháen og er ég á fullu að prjóna handa henni íslenska lopapeysu, með lundamynstri sem hún sá á netinu. Ég hef nefnilega notað lopapeysurnar óspart á æfingunum. Við eigum nokkrar saman ég og Finnbogi. hihi. Allar hans eru mínar og allar mínar eru mínar. Hún var svo hrifin og spurði hvort að ég gæti útvegað sér þessa lundapeysu. Sagði henni að það væri nú lítið mál að prjóna eina lopapeysu, en munstrið fann ég hvergi og varð því að pikka það upp eftir myndinni. Vona að það gangi upp, er að verða hálfnuð með munsturbekkinn og hann lofar góðu.  

Jæja, þá er mál að linni, að sinni.

Góð vinkona mín frá Íslandi, hún Guðlaug Tómasdóttir, setti inná fésið nú um daginn spakmæli frá Thomasi hinum sænska: It's not a shame to fall, but it is a shame not to get up again". 

Með þessum orðum ætla ég að kveðja að sinni, standa upp og halda á vit nýrra ævintýra á nýju ári, ný byrjun með sama meistara. Guð blessi ykkur öll nær og fjær. 


Eitt og sama lagið

Bara smá athugasemd til greinarhøfundar. Blowing in the wind og Where have all the flowers gone er eitt og sama lagið...... When will they ever learn? Grin
mbl.is Mary Travers er látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjallur, prutl, ömmustóll og bíll

Ja hérna hér, komin mars og jólin voru hérna í gær. Svona er þetta þegar maður vinnur frá morgni og langt fram á kvöld og finnst það bara gaman. Hér er ekki slegið slöku við frekar en fyrri daginn, ég er búin að fara á tvö námskeið til Havnar (Tórshavn) og annað tveggja daga á dönsku takk fyrir. Já já maður er komin á sölunámskeið Ladegaard, danskur kennari sem að sjálfsögðu með sínum danska "humör" spýtti útúrsér námsefninu með dæmum við hverja setningu um sjálfan sig og svo óborganlega fyndnar og skemmtilegar að hann náði varla andanum, hann hló svo mikið, og ég íslendingurinn humörslausi horfði á, með sljóum og skilningsvana augum, hvernig hann rikkjaðist og engdist fram og aftur og reyndi að brosa á réttum stöðum, svona bara að því ég er svo vel upp alin. Þegar færeyjingarnir, samnemendur mínir á námskeiðinu, spurðu mig hvernig mér gengi að skilja námsefnið, þá sagðist ég nú ná þræðinum, þó svo að ég skyldi ekki hvert einasta orð, en ég ætti soldið erfitt með að skilja brandarana...haha "Það gerum við nú ekki heldur", var svarið. Já þetta er dásamlegt líf. Mér gengur bara vel í vinnunni og er að tengjast þeim í Havn líka nokkuð vel, enda kona ekki mjög svo til baka. hihi. Það er nú ekki hægt að segja um hann Finnboga minn að hann hugsa ekki vel um mig..... hvað haldið þið að hann hafi komið með um daginn. Prutl.... mmmhhh. Það er vespa, að vísu í KA litunum en hún sést vel og frúin er þvílíkt gul í gula hjólagallanum á gula hjólinu. Eins og páska ungi á ferðinni..... sssssúúúúmmmmm. Alveg uppí 50 held ég barast að ég hafi náð að fara uppí um daginn. Þeta er þvílíkur fílingur, næstum eins og á alvöru mótorhjóli..... eða þannig. En þetta kemur sér vel þegar ég þarf að flýta mér á æfingar eftir vinnu.

Loksins hef ég fengið langþráðan stól í borðstofuna, ömmustól með skammeli í hornið, svo nú sit ég með tölvuna á hnjánum, prjónakörfuna við hliðina og horfi inní eldhús á yndislegan eiginmann minn gera kálböggla, góð staðsetning á stólnum.InLove Ekki má gleyma að afi er líka kominn með sinn stað út í horni. Reyndar ekki stól eins og amma, heldur eitthvað miklu meira spennandi. Haldið ekki að karlinn sé búinn að smíða sér hjall. Staðsetning....við svefnherbergisgluggann undir svölunum. Mér datt nú í hug smíðakofinn hans Emils í Kattholti, ha ha. En þarna er hann búinn að hengja upp, íslenskt hangikjöt að sjálfsögðu, færeyskt skerpukjöt og nú var hann að hengja upp til viðbótar íslenskt lambalæri sem hann var búinn að kafsalta í einhverja sólarhringja og nú er það látið hanga í einhverjar vikur. Þetta er norsk þurrkaðferð sem hann lærði hjá Muggi fyrrum nágranna okkar úr Skólagerðinu. Mjög spennandi að sjá hvernig tekst til. Þetta finnst afagormunum spennandi og ekki leiðinlegt að fá væna flís af hangikjötinu þegar þau eru úti að leika og afi heima. Halo

Svo ég vaði nú úr einu í annað, þá hefur gengið vel að halda utan um handboltann, en það er greinilegt á öllum að nú er að vora í lofti og fótboltinn að verða meira ofaná. Reyndar eigum við ekki mikið eftir, 12 ára hópurinn, flokkurinn hans Jóhanns Júlíusar, klárar nú um helgina og í versta falli lendum við í 3 sæti en í besta í 2 sæti. 10 ára strákarnir eiga fleirri leiki eftir og klára um aðra helgi. Ég verð á fullu á laugardaginn, fyrst hér í Giljanesi og svo þarf ég að brenna suður til Havnar. 10 ára stelpurnar eru að klára núna um helgina líka, reyndar var C riðillinn að klára um síðustu helgi og vorum við með b liðið okkar þar. Ég fór með þeim til Klaksvíkur þar sem aðalþjálfarinn þeirra var erlendis og fengum við medalíur fyrir 4 sæti, það voru bara 4 lið í riðlinu og var ákveðið að allar fengju verðlaun, vel til fundið og vel staðið utan um mótið hjá þeim í Klaksvík. Þar er vagga kvennahandboltans og besta liðið í toppdeildinni, Stjörnan. Við stelpurnar í 1 deild eigum leik við 1 deildar liðið hjá þeim á sunnudaginn, þá eigum við ekki eftir nema tvo leiki. Klárum í byrjun apríl ef allt gengur eftir. Þá get ég farið að einbeita mér að sjálfri mér og mínum vonandi eitthvað meira.

Haldið ekki að það hafi verið fjárfest í bíl í gær. Já Finnbogi misnotaði aðstoðu sína og fór með mig veika til Havnar, er búin að liggja í slæmri flensu frá því á laugardaginn, gjörsamlega útúr í 2 sólarhringa en er að skríða saman núna og fór til vinnu í dag. En hvað um það, ég var sumsé látin fara með bússinum til Havnar í gærmorgun, Finnbogi var farin fyrir allar aldir. Ég þurfti að fara til læknis, íslendings að sjálfsögðu, Harri Guðmundsson, til að láta líta á litlafingurinn minn, en hann skaddaðist í haust í boltanum. Nema hvað ég komst til Havnar með bússinum og náði í bílinn minn, gamla góða Ravinn FH-inginn, sem færeyingar vilja láta mig greiða offjár fyrir að umskrá, í vinnuna til Finnboga, renndi svo í þau erindi sem ég þurfti að útrétta í borginni. Um eittleytið var svo Finnbogi búinn í vinnunni og við klár að keyra vestur, með smá viðkomu á bókamarkaðinn, mjög skemmtilegt reyndar, og svo á bílasölur sem mér finnst ekki eins skemmtilegt. Og hvað haldið þið, auðvitað var keyptur bíll eins og ekkert sé fyrir litlar 158.000,- dkr. óskoðaður, þar sem bíllinn var í Klaksvík. Ég látin skrifa undir alla pappíra, orkaði ekki að mótmæla mikið þar ég var gjörsamlega búin á því, þá stundina. Finnbogi er ekki haldin valkvíða né þarf að velta sér mikið uppúr hlutunum, bara rétt eins og verið sé að kaupa í matinn. Hann er reyndar lengur að kaupa í matinn þegar hann kemst í Miklagarð í Havn. Wink Svo nú á ég Toyota Rav, Prutl, Hjól, Ömmustól og Toyota Corolla station bláann. Svona Helgu bíll. Finnbogi fór svo til Havnar í morgun og náði í bílinn og allir voða glaðir. Nú er bara að hugsa það hvað gera á við gamla græna FHinginn. Það hlýtur eitthvað að rætast úr með vorinu.

Guð blessi ykkur nær og fjær.

 


Vinna og að vinna...

Já það er ekki það sama að vinna og að vinna, en nú gerðist það gleðilega að ég fékk vinnu og Finnur vann bikarmeistaratitil. Frúin er sumsé ekki lengur heimavinnandi húsmóðir á daginn, heldur orðin starfsstúlka hjá Tryggingafélagi Færeyja hér í vestri. Nánar tiltekið í Sandavági sem er næsta þorp sunnan við okkur. Bæjarmörkin eru reyndar hér ofar í götunni, en það tekur mig samt um 10 mín. að skokka í vinnuna, allt eiginlega niðurí móti. Byrjaði fyrstu 2 dagana að hjóla en þá fór að snjóa og hefur snjóað síðan, nú þá fer maður bara á tveimur jafnfljótum.

Skrifstofan sem ég starfa á er landsbyggðarútibú og erum við þrjár "stúlkur" sem þar vinna. Ég er sú eina sem er í 100% starfi, hinar 50% og 70% held ég, er ekki alveg búin að ná þessu enn. Allavegana þá verð ég ekki skilin eftir einsömul fyrstu vikurnar. Það var tekið mjög vel á móti mér og eftir að hafa verið sjálf þeim megin við borðið að taka á móti nýju fólki, þá fannst mér þau standa sig mjög vel. Fyrsta morguninn, þá kom yfirmaður okkar frá Þórshöfn og þá var búið að kaupa rúnnstykki og pekanthnetuvínarbrauð með kaffinu. Mér var færður blómvöndur og kort frá starfsmannastjóranum. Nú svo var tölvan sem ég fékk eitthvað sein á sér og því var sendur maður beint vestur, já já, strax fyrsta daginn og hann kominn á fjórar fætur undir borð hjá mér. Ný mús, nýtt lyklaborð og ný tölva, þvílíkur lúxus. Reyndar er hún ekki alveg sú fljótasta, en riggar vel, eins og þeir segja hér. Búið að setja upp öll kerfi og senda mér aðgangskóda þar sem við átti. Drengurinn úr tölvudeildinni, var hinn ljúfasti og var mér nú hugsað til vina minna í tölvudeild VÍS, skyldu þau nú ekki sakna mín...... haha. Brasið og masið, ég verð nú að segja sjálfri mér til hróss að ég sat algjörlega á mér að atast ekki í drengnum þar sem hann skreið undir borðið, en hló því meira innra með mér...ekki eins lipur og Stína og Binni, en samviskusamur var hann og allt gekk það upp hjá honum. Svo kom dagur tvö, þá komu Abot og Castello, eða kannski frekar Einar Kristján og Kalli, nema hvað þessir voru í vinnugöllum frá TR. Þeir voru að flytja borð á milli, svo að ég fengi upphækkanlegt borð eins og þær hinar á skrifstofunni. Enn á ný þá sat ég á mínum ráðskonurassi, amk. um hvernig ætti að snúa borðinu til að koma því á milli herbergja, hvað þyrfti að skrúfa í sundur og þess háttar. Þær "stúlkurnar" voru alveg fullfærar um að segja þeim til. Ég hefði ekki boðið í Einar Kristján undir þessum "tilmælum" þeirra. haha, þvílíkt bíó. En ég tók allt úr sambandi, símana, tölvurnar og prentarann og að sjálfsögðu setti saman aftur. Ég er nefnilega svo vel upp alin hjá VÍS. En þetta er nú ekki búið enn, því að sama dag komu líka tveir skoðunarmenn, reyndar í sitt hvoru lagi. Annar stoppaði lengi og fékk kaffi og meðlæti en hinn bara til að kíkja á nýju stúlkuna. Þær hlóu mikið hér á skrifstofunni, sögðu að allir kæmu þeir bara til að skoða mig, nýju stúlkuna. Þetta hefur gengið vel þessa fyrstu viku mína í tryggingunum, sit og les, færeyska skilmála, verkefni úr tryggingskólanum hér, það er allt á dönsku takk fyrir og hræri svo í tölvukerfunum eins og mér einni er lagið. Enginn hefur hringt eða sent mér skammarbréf....enn. En maður verður nú að læra á þetta allt saman, og eins og ég hef alltaf sagt, maður lærir best á því að prufa sig áfram sjálfur, tala nú ekki um ef maður gerir nú einhverja vitleysu. Svo henti ég mér í djúpu laugina í gær og svaraði símanum, alveg tvisvar sinnum. haha. Það gekk bara alveg ágætlega, er alveg að ná málinu. Svo á að senda mig á sölunámskeið í enda mánaðarins, auðvitað er kennarinn dani, svo ég kvíði dáltið fyrir því. Fékk undirbúningstest í dag í tölvutæku og á að svara því, sem er á dönsku. ÓMG. Men vi islendinger vi have studeret danskt i skule, ikke?? Já já, ég ber svo bara fyrir mig að ég hafi verið misskilinn og allt slitið úr samhengi, ef ég fell á námskeiðinu.

Helgin síðast var góð, hvað varðar að VINNA. Finnur og liðið hans Neistinn, urðu bikarmeistarar eftir þvílíkan dramatískan endi, eins dramatíkst og hægt er í handbolta. 15 sek. eftir..jafnt. Neistinn fær fríkast og stillt upp, Finnur skýtur og skorar. Kyndill, hitt liðið, kemst í sókn, dæmt VÍTI, 5 sek.eftir. Elsti og reyndasti markmaðurinn biður um að fara inná, ekki spilað allan leikinn, ver vítið og þeir sigra. Það varð allt galið í höllinni, þvílík stemmning. Svo á sunnudeginum þá fengum við skilaboð að Ágúst hennar Laufeyjar hefði orðið bikarmeistari með FH í sínum flokki og stelpurnar sem ég hef verið að hjálpa til með að þjálfa komust í bikarúrslitin, en töpuðu sínum leik með einu marki. Það var nú samt slegið upp móttöku fyrir þær þegar þær komu vestur, enda góður árangur hjá þeim að komast í lokaúrslit.

Já það má segja að við vinnum og Vinnum þessa dagana. Reyndar segja færeyingarnir hér að við íslendingarnir arbeiðum ekki fyrir laununum okkar, heldur vinnum við þau bara. Wink

Guð blessi ykkur nær og fjær.


Ekta uxahalasúpa, handbolti og kæfugerð.

Mikið er nú lífið dásamlegt. Ný ríkisstjórn heima á Íslandi, sem fólkið í landinu hefur trú á vona ég, og hefur visku og vísdóm til að rétta við skútuna fögru. Höfum að sjálfsögðu verið að fylgjast með fréttum alla daga og hlusta á útvarpið. Nú er einmitt að vera að spila lagið "Það reddast" með Ríó Tríóinu. Já allt reddast þetta einhvernveginn allt saman, en er það nægjanlegt, veit það ekki, þurfum að vera einbeittari og skipulagðari með ákveðin markmið að stefna að. Hef aldrei verið hlynnt því að hlutunum sé bara reddað einhvernvegin, en það er samt okkur íslendingum svo eðlislægt og við björgum okkur oft alveg úr ótrúlegustu kringumstæðum. Ég vill nú meina að það sé sjálfsbjargarviðleitnin sem býr í okkur enn, alveg frá forfeðrum okkar víkingunum. Þannig að hlutunum er reddað en þeir reddast ekki bara af sjálfum sér. Það eru nefnilega yfirleitt "stúlkurnar" sem sjá um að redda hlutunum. Ekki meira um það.

Við hjónin fórum í enn eitt matarboðið hér í sveitinni, ekta uxahalasúpa, Anderson snaps (smakkast alveg eins og brennivín) og öl. Þetta var sko súpa sem vert er að elda oft á vetri. Uxahalarnir voru hamflettir og brytjaðir í pott og soðnir í langan tíma. Kjötið síðan skafið af halanum soðið með grænmeti og kartöflum. Allt í einum potti, honum skellt á borðið og boðið upp á brauðbollur með. Þvílík kjarnasúpa. Að sjálfsögðu er Finnbogi búinn að útvega sér uxahala og ætlar að gera sjálfur ekta uxahalasúpu. Verður, ef ég þekki minn mann rétt, bragðbætt með hvítlauk og grænum kryddum.

Mikið hefur verið að gera í handboltanum hjá okkur mæðginunum. Jóhann Júlíus og hans flokkur, sem ég þjálfa líka, hefur staðið sig mjög vel og erum við í 2 sæti í B riðli. Náðum jafntefli við besta liðið um helgina. Og í 10 ára flokknum erum við í 1 sæti í B riðli. Þetta er frábær árangur hjá þeim og gaman að sjá hvernig þeir dafna drengirnir í boltanum. Nú fer að vora og þá tekur fótboltinn við hjá þeim, þannig að það verður barátta að halda þeim á æfingum og klára mótið. Mér skilst að það sé alltaf þannig. Reyndar hef ég tromp á hendi, þar sem Finnur og Annel Helgi hafa komið með mér á æfingar og hjálpað til, bæði hjá strákunum og stelpunum, það finnst þeim spennandi og skemmtilegt. Það gengur ekki eins vel hjá okkur stelpunum í 1 deild, en við erum að byggja upp liðið og stefnum á að koma sterkar inn næsta vetur, þessi vetur hefur verið góður skóli, bæði fyrir mig sem þjálfara og fyrir þær yngri sem eru að koma inn í liðið.

Finnur og hans lið Neistinn, eru að berjast um Færeyjartitilinn og eru komnir í úrslit í bikarkeppninni. Það fer sumsé mikil orka í handboltann hér á þessu heimili. Svo er Finnur í Færeyska landsliðinu og hafa þeir verið að keppa í vetur, gengið upp og ofan. Kepptu vinarleik við Grænland um daginn og töpuðu, enda leiknum troðið inn á milli undanúrslitaleikjanna í bikarnum og mjög þétt prógramm í deildinni líka. Skil ekki alveg þessa dagsetningu, en það er heldur ekki mitt að stjórna því. Ekki enn amk. hihi. Svo hafa þeir farið erlendis og spiluðu m.a. fyrir tómu húsi í Bosníu, þar sem heimaáhorfendur höfðu látíð dólgslega og voru í banni. Finnur sagði að það hefði verið mjög sérstakt. Eins fóru þeir til Rússlands í Pétursborg og þaðan beint til Ítalíu, Sikiley, að keppa, beint í gin ljónsins eða öllu heldur í innsta hring mafíunnar. Borgin sem þeir kepptu í er heimaborg mafíunnar, lentu í ótrúlegum ævintýrum og uppákomum sem seint gleymast. Og auðvitað Pétursborg er heilt ævintýri útaf fyrir sig. Að sjálfsögðu færði hann móður sinni tvær babúskur, enda vel uppalinn.

Í morgun fékk erfðaprinsinn á heimilinu uppáhaldsnesti með sér í skólann. Heimabakað íslenskt rúgbrauð og heimagerð íslensk lambakæfa. Já hér er eldað, bakað og sultað að öllu jöfnu. Finnbogi var í þvílíku stuðu þessa vikuna, gerði chillisultu, bakaði rúgbrauð, bjó til kæfu og nú hangir uxahali ásamt hálfri kvígu hér í næsta húsi sem verður niðurbrytjuð um næstu helgi. Eins gott að standa sig í því að eta það sem fyrir er í frystinum. Við hin á heimilinu reyndum að standa okkur í því að smakka, borða og vera aðstoðar án þess að þvælast mikið fyrir. Hann er sko engum líkur hann Finnbogi.

Svo má koma því hér á framfæri að við hjónin ásamt Jóhanni Júlíusi erum búin að fjárfesta í flugmiðum til Íslands um hvítasunnuna, Finnur og fjölsk. kemur líka. Mamma verður 70 ára í mars, þau eiga svo gullbrúðkaupsafmæli í apríl, Finnur verður þrítugur í maí og Maggi bróðir fimmtugur í júlí. Ákveðið var að fjölskyldan yrði að koma saman og samgleðjast eina helgi og varð hvítasunnan ofaná. Ég verð að viðurkenna að ég hiksta algjörlega á þessum tölum. En maður gleðst líka yfir því að tölurnar hækka og við erum öll með góða heilsu og erum á lífi.

Guð blessi ykkur nær og fjær.


Sjarmörinn hann Bogi á mjólkurbílnum

Já, verð að koma þessari frá mér einni og sér. Þannig var það að þegar við Finnbogi vorum að smíða íbúðina þá fórum við oftar en ekki saman í vinnugöllunum í brugsen (FK) og Bónus. Ég náttúrulega á hvítan málningarsmekkbuxur og svo bláan og appelsínugulan smíðagalla, sem ég fór í til skiptis, svona til að halda einhverri reisn með útlitið. Ójá og derhúfu á hausnum til að halda hárinu í skefjun. Eða eins og Inga svilkona orðaði það svo flott, a bad hairday. Finnbogi aftur á móti á ekki nema einn bláan galla og hann er nú aldeilis búinn að endast og slitinn eftir því. Hér voru fastir kaffitímar og matartímar, allt eftir samningunum og við reyndum að halda uppi vinnustaðahúmornum eftir bestu getu. Það tók nú stundum í að halda í við Finnboga og hans vinnustaðahúmor. (Eitt skiptið hringdi ég í Gunnu í Fjölsmiðjunni og grátbað hana að taka hann aftur því ég væri að verða gráhærð. haha.) En við skemmtum okkur nú yfirleitt konunglega þegar við vorum með Útvarp Færeyja á og alla óskalagaþættina. Þar lærðum við helling í færeyskunni, sérstaklega um þakklæti fyrir allt mögulegt. Skora á ykkur að fara inná uf.fo og hlusta Tit skriva, vit spæla og Tónatíminn. Ég neita heldur ekki fyrir það að stundum var nú hiti í okkur og sérstaklega þegar krafta þurfti til, þá varð nú Sjónarhólsskapinu beitt og hlutirnir kláraðir á þrjóskunni einni saman. Já, maður getur hlegið núna, en ég hló ekki þá. K.Finnbogason vs Bjössi á Sjónarhól og Laufey í Grjótó, þvílík hjón. LOL. En nú sit ég í þessari líka yndislegri íbúð og Finnbogi minn kominn í fasta vinnu. Farinn að keyra flutningabíl útí Sandey þrjá daga í viku og tvo daga á lagernum, aðallega í að pakka mjólk. Fyrirtækið er PM, sama fyrirtæki og Finnur vinnur hjá. Held að hann verði sko ekki bara sjarmör í Vágey, heldur líka í Sandey, ef ég þekki hann rétt.

Drög að baðinnréttinguSem minnir mig á það sem ég ætlaði nú aðallega að skrifa um, þ.e. sjarmörinn hann Finnboga. Það var þannig að einn morguninn, þá fór hann einn í brugsen, ég var í miðri málningu eða eitthvað, svo hann dreif sig að kaupa inn með morgunkaffinu. Það byrjaði alltaf kl. 10.00 á staðartíma. Nema hvað hann þurfti að bregða sér á salernið (reyni að orða þetta eins pent og ég get Rúnu vegna) áður en hann fór af stað. Daginn eftir þá fór ég eftir Aroni Hans til dagmömmunar sem hann var hjá. Hún er stórgerð kona og alveg meiriháttar hress, enda gömul handboltakempa. Við vorum búnar að hittast tvisvar áður og aðeins að spjalla. Hún spyr mig svo með sínu breiða brosi, hvort að það geti ekki verið að hún hafi hitt manninn minn í brugsinu daginn áður, ég var nú ekki alveg viss um það þá hvað það þýddi og dró eitthvað svarið. Þá sagðist hún hafa hitt þennan líka fitta (sem þýðir að maður er heillandi, góður, fallegur oþh.) íslending í búðinni. Hann hafi verið á eftir sér við kassann og hún hafi eitthvað verið að vandræðast með innkaupapokana. Þá hefði þessi sjarmör spurt hana hvort að hana vantaði aðstoð og brosað svo yndislega til sín. Svo var hún eitt spurningarmerki og ég að reyna að átta mig á öllu sem hún sagði. Svo sagði hún: Hann var stór og svo myndarlegur". Ég eins og auli ábyggilega í framan að melta færeyskuna, ekki misskilja mig að ég veit manna best hvað hann Finnbogi er stór og myndarlegur, en eitthvað fannst henni ég vera óviss. Getur það ekki passað spurði hún?? ja jú, örugglega" hikstaði ég. Það hlaut bara að vera, það eru nú ekki svo margir íslendingar hér, amk. ekki sem hún þekkti ekki til og hún og allar dagmömmurnar eru sko með hlutina á hreinu skal ég segja ykkur. Svo klikkti hún út með því sem ég taldi að geðri útslagið um að þarna hefði Finnbogi ekki verið að ferð. Hann lyktaði svo vel af perfume. Ónei, það gat nú ekki verið hann Finnbogi minn. Í grútskítugum vinnugallanum, lyktaði frekar af málningu, timbri og svita, frekar en af parfume. Hann leggur það nú ekki í vana sinn þessi elska að spreyja á sig lykt áður en hann fer í brugsið. Svo ég aftók það með öllu að þetta hafi verið maðurinn minn. Og með það kvaddi ég og fór með ömmudrenginn heim. Ég spurði svo Finnboga um það hvort að hann hafi aðstoðað stórvaxna konu í brugsinu deginum áður, jú það gat passað, það hafði verið hann, hún hafi einmitt verið dáltið fljótfær og hávær, en kát var hún og fór mikinn. Ég sagði honum þá frá samtali mínu við hana og spurði hann svo útí ilminn. Hann varð eitt spurningarmerki og við hlógum ógurlega, hvaða lykt skyldi hún meta jafna að verðleikum og parfume?? Það var okkur báðum dulið.

En það skýrðist auðvitað svo strax daginn eftir, þegar Finnbogi minn þurfti að bregða sér á salernið, sem er mjög hollt og gott og nauðsynlegt að sé í lagi. Ganga örna sinna eins og sumir segja. Hann kom til mín blaðskellandi og hló við. Ég var náttúturulega dáldið hissa, en brosti á móti og samgladdist honum, því ég gat séð að honum var mikið létt eftir veru sína á salerninu. En þá kom það, hann hafði leyst gátuna með ilminn. Já það er ekki fyrir neitt að sagt er að maður fari og tefli við páfann þegar menn þurfa að hægja sér. Lausn gátunnar var nefnilega að finna á salerninu, eða vesinu eins og það heitir á færeysku. Þannig var að ég ákvað mjög fljótlega eftir að við vorum búin að koma upp salernisaðstöðu hér á neðri hæðinni, að kaupa lyktarsprey sem maður festir á vegginn og getur svo úðað úr eftir taflið. Svona til að létta á andrúmsloftinu, þar sem vesið er inní miðri íbúð og enginn gluggi á til að hleypa út loftinu. Hann hafði sumsé eftir setu sína, samviskusamlega notað úðann en ekki farist betur úr hendi en það að það úðaðist yfir hann sjálfann. Já, er ekki lífið dásamlegt og fullt af litlum óhöppum sem eru svo tækifæri til hláturs og gleði um ókomna tíð.

Auðvitað varð ég að leiðrétta mig svo við dagmömmuna daginn eftir, þegar ég náði aftur í ömmudrenginn, um að sjálfsögðu hefði þetta verið minn eigin fitti, vellyktandi maður sem hefði verið svona almennilegur við hana í búðinni, ég meina þannig er hann innréttaður drengurinn. Hún var þá stödd ásamt fleirri dagmömmun í spælastofunni, það er lítið dagheimili sem þær hafa aðgang að og fara einu sinni til tvisvar í viku með öll börnin. Eins og áður hefur verið lýst, þá er hún ekki að skafa af hlutunum og þegar ég var rétt búin að segja við hana að þetta hafi verið maðurinn minn, þá endurtók hún allt saman fyrir þær dagmömmur sem þarna voru um fitta, íslenska sjarmörinn sem hefði aðstoðað hana svo mikill herramaður og undirstrikaði með ítölskum tilþrifum, saug upp í nefið af áfergju, um leið og hún sagði hátt: Hann lugtaði svvooo vel af parfume...... Mér varð eiginlega allri lokið en hélt bara brosinu og kvaddi. Ég kem aldrei til með að segja henni frá "nýja" ilminum hans Finnboga. Enda maðurinn þekktur fyrir riddaraskap og góða lykt.

Guð blessi ykkur öll nær og fjær.


Fögur fyrirheit og fjölgun

Þá er fyrsta heila vikan liðin og allt að falla í fastar skorður. Handboltinn kominn á fulla ferð og skólinn hjá Jóhanni Júlíusi. Finnbogi vann sína fyrstu fullu vinnuviku í Kovanum við smíðar og hrognin eru að koma, kerin gerð klár, þúsund þorksar á færibandi þokast nær. Svo hljómaði textinn einhvernveginn hjá Bubba sem er væntanlegur til Færeyja með tónleika í lok janúar. Hér er talað um kreppu eins og heima og fyrirtæki að draga saman seglin og reyna að haga þeim eftir vindi. Ekki mikið framboð af vinnu, ja nema að maður sé pedagogur, félags-, þroskaþjálfi eða eitthvað þvíumlíkt sem ég hef ekki til að flagga. Var samt að spá í að leggja inn umsókn og láta fylgja að það sé mikið um pedagoga í fjölskyldunni, hvort að það væri ekki næganlegt. Nei, segi bara svona. Ég er nú svo svakalega afslöppuð í vinnumálunum, hef nóg að gera í handboltaþjálfuninni, öll kvöld bókuð og nánast allar helgar fram að páskum.

Eins og svo mörg áramót þá ræddum við fjölskyldan um betra líf og blóm í haga, heilbrigðari lifnaðarhætti og það sem mætti laga. Fögur fyrirheit sumsé um hollari matarvenjur og meiri hreyfingu. Það er svo skítið hvað áramótin eða öllu heldur lenging dagsins hefur góð áhrif á mann. Amk. hvað mig varðar. Mér finnst alltaf yndislegt að sjá dagrenninguna ekki það að ég sé eitthvað niðurbeygð í skammdeginu, það er bara svo gott að fá sér gott í kroppinn.... ég meina sólarvítamín haha. Við hjónin vorum að horfa á Næturvaktina og svo Dagvaktina, alla þættina, í fyrsta skiptið, þvílíkt og annað eins. Nú skilur maður betur frasana sem fólk var að bera fyrir sig í tíma og ótíma. Já sæll, eigum við að ræða það eitthvað frekar og Georg Bjarnfreðarson, við erum búin að liggja í kasti yfir honum, þ.e. Næturvaktarþáttunum sérstaklega, mér fannst Dagvaktin vera út úr kú. Við Finnbogi erum viss um það að Jón Gnarr hefur verið í læri hjá einum af okkar fyrrum nágrönnum. Hvaðan.... það verðið þið að finna út. 

Og nú fjölgar í fjölskyldunni hérna í Færeyjum. Já, já, lengi er von á einum. Hjá Finni og Guðruni, nei, amk. ekki svo ég viti, þau eru í góðum málum með sín tvö eins og er. Það er hjá okkur gömlu sem er að fjölga..... Hund, nei við erum ekki að fá okkur hund, hænur né rollur. haha. En það kemur örugglega þegar við erum búin að semja við tengdadótturina og soninn um skika af lóðinni. Nei, hann Annel Helgi Finnbogason er að flytja til okkar, aldraða foreldra sinna og bræðra, svona til að breyta til. Hann er nú orðinn 22 ára gamall og í góðum gír, langar að spila fótbolta og komast í einhverja vinnu hér. Auðvitað er ég búin að bóka hann á æfingu strax á miðvikudaginn, hann kemur á morgun. Ég var að spyrja eldri strákana sem ég er að þjálfa öðru hvoru, þeir eru nefnilega meira í fótbolta en handbolta og koma á æfingar með okkur einu sinni í viku, hvernig væri með æfingar hjá fótboltanum og þeir urðu allir ein augu og eyru. Ég sagði þeim að stjúpsonur minn væri að flytja til okkar og spilaði fótbolta. Þeir spurðu hvort að hann væri góður, ég sagðist ekki hafa vit á fótbolta, en hann væri í rosalegu formi og hrikalega hress. Ekki spurning að hann ætti að koma og æfa með þeim, þeir væru með betri völl en MB. haha. Já það verður bara gaman að fá hann og fylgjast með honum í boltanum og hvernig hann fellur inn í rólegheitarlífið hér í Færeyjum. Og hratt flýgur fiskisagan, því í gær á handboltamóti hjá Jóhanni Júlíusi, þá spurði ein mamman Finnboga um soninn sem væri að flytja, hvað hann væri gamall, hvort hann væri einhleypur og ýmislegt í þeim dúr, það eru margar frambærilegar stúlkur hér í sveitinni. Íslendirngar eru nefnilega þekktir fyrir herramennsku og að vera miklir sjarmörar... verð að blogga um aðalsjarmörinn hann Finnboga við fyrsta tækifæri. Jú sjáið til hann er annálaður hér í sveitinni fyrir sjarmörheit. Meir um það síðar.

Guð blessi ykkur nær og fjær. 


Jólakortamyndataka...

Má til með að setja inn nokkrar myndir af þeim hundrað sem teknar voru til að gera jólakortamyndir. Við Guðrun tengdadóttir mín, héldum nú að við gætum gert þetta sjálfar. Ég með þessa líka fínu myndavél, sem ég er allt of lin við að nota að staðaldri, en fer svo hamförum þegar ég loksins man eftir henni. Börnin strokin og fín og bakgrunnurinn í jólaþema. En það var nú ekki alveg svo einfalt, börn eru jú bara börn. Við vorum sveittar og þreyttar eftir að hafa gert heiðarlega tilraun fá amk. eina góða, en allt kom fyrir ekki. Finnur kom svo heim um kvöldið og þá voru börnin enn á ný færð í jólafötin og tilraun tvö gerð. Og það gekk, ein mynd varð brúkleg.

Guð blessi ykkur nær og fjær

 


Næsta síða »

Höfundur

Sólveig Birgisdóttir
Sólveig Birgisdóttir

Fann gamla bloggið mitt og ákvað að hripa eitthvað inn. Verður framhald..... Það verður framtíðin að leiða í ljós.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

270 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband